Lævís Kænsku refsins er viðbrugðið, hér sem annars staðar.
Lævís Kænsku refsins er viðbrugðið, hér sem annars staðar. — Morgunblaðið/Bogi Þór Arason
Náttúruverndarstofnun tekur vel í umsókn Náttúrufræðistofnunar um leyfi til að setja upp myndavélar innan friðlandsins á Hornströndum, nánar tiltekið við tvö refagreni við Hornbjarg. „Tilgangurinn er að vakta samskipti refa við greni, ferðir…

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Náttúruverndarstofnun tekur vel í umsókn Náttúrufræðistofnunar um leyfi til að setja upp myndavélar innan friðlandsins á Hornströndum, nánar tiltekið við tvö refagreni við Hornbjarg. „Tilgangurinn er að vakta samskipti refa við greni, ferðir refa að og frá greninu, með og án fæðu auk þess að telja og tímasetja ferðir mannfólks innan grenjasvæðis,“ segir í lýsingu verkefnisins.

Verkefnið er hluti af vöktun náttúruverndarsvæða og verða myndavélarnar settar upp í mars og teknar niður í september.

Náttúruverndarstofnun hefur tekið umsóknina til skoðunar og var Persónuvernd jafnframt gert viðvart. Náttúruverndarstofnun gefur leyfi fyrir uppsetningu myndavélanna að uppfylltum vissum skilyrðum. Snýr það meðal annars að því að starfsfólki stofnunarinnar sé tilkynnt um það sem snýr að framkvæmdahliðinni. Einnig þarf að forðast óþarfa rask og myndavélarnar skulu ekki vera áberandi í landslaginu.

„Náttúruverndarstofnun metur að verkefnið muni ekki hafa neikvæð áhrif á verndargildi og náttúrufar innan Hornstrandarfriðlandsins. Aftur á móti munu upplýsingar úr rannsókninni nýtast vel til að skipuleggja frekari stýringu gesta um svæðið.“

Höf.: Kristján Jónsson