Guðrún Dóra Hermannsdóttir fæddist á Svalbarði í Ögurvík í Ísafjarðardjúpi 7. júní 1937, tíunda í röð ellefu systkina. Hún lést á heimili sínu í Reykjavík 14. mars 2025.
Foreldrar hennar voru Salóme Rannveig Gunnarsdóttir húsmóðir og Hermann Hermannsson útvegsbóndi og síðar verkamaður á Ísafirði. Systkini Guðrúnar Dóru voru Anna, f. 1918, Þuríður, f. 1921, Gunnar, f. 1922, Þórður, f. 1924, Sigríður, f. 1926, Karitas, f. 1927, Sverrir, f. 1930, Gísli Jón, f. 1932, Halldór, f. 1935, og Birgir, f. 1939. Birgir er einn eftirlifandi af systkinahópnum.
Eiginmaður Guðrúnar Dóru var Þórir Þórisson f. 17.10. 1934, d. 2.7. 2010. Þau giftu sig 28.12. 1956. Þau hófu búskap í Reykjavík en fluttu til Ísafjarðar 1958 og aftur til Reykjavíkur 1969 og bjuggu þar allar götur síðan.
Börn þeirra eru: 1) Salóme Anna, f. 1.9. 1956, maki Hreiðar Sigtryggsson. Synir hennar og Samúels C. Lefever eru a) Andri Þór, maki Magnea Guðrún Guðmundardóttir. Synir þeirra eru Ásbergur Eric, Vébjörn Elí og Snæbjartur Flóki. b) William Óðinn, maki Greta Mjöll Samúelsdóttir. Börn þeirra eru Regína Anna, Samúel Fróði og Kolbeinn Mói. c) Kári Freyr, maki Jónína Brá Árnadóttir. Dætur þeirra eru Karítas Gæfa og Brynhildur Freyja. 2) Þóra, f. 16.12. 1958. Börn hennar eru a) Guðrún Dóra, maki Hermann H. Hermannsson. Börn þeirra eru Þórhildur Salóme, Elísabet Anna og Tinni Fannar. b) Arnór, maki Tinna Rósamunda Freysdóttir. Börn þeirra eru Óli Freyr, Elín Kara og Lea Þóra. 3) Þórir Hlynur, f. 9.11. 1967. 4) Hildur Jónína, f. 20.12. 1971, maki Lárus Bjarni Guttormsson. Börn þeirra eru a) Þórir Hlynur. Dóttir hans er Viktoría Hildur. b) Halldór Kristinn, maki Freyja Ólafsdóttir. c) Bárður Bjarki, maki Sóldís Birta Reynisdóttir. Sonur þeirra er Birtir Þór. d) Aðalsteinn Kjartan. e) Emilía Margrét.
Guðrún Dóra lauk prófi frá Gagnfræðaskóla Ísafjarðar 1952. Hún sinnti ýmsum störfum eftir það, m.a. kaupamennsku, afgreiðslu og skrifstofustörfum og aðhlynningu aldraðra. Hún lauk prófi frá Sjúkraliðaskóla Íslands 1983 og starfaði sem sjúkraliði á Landspítalanum þar til hún fór á eftirlaun. Guðrún Dóra sinnti þó fyrst og fremst heimili sínu og fjölskyldu og lagði alla tíð metnað sinn í það.
Útför Guðrúnar Dóru verður gerð frá Digraneskirkju í dag, 10. apríl 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.
„Hún mamma ykkar er alltaf svo góð og hlý“ voru algeng orð sem við systkinin heyrðum um mömmu okkar. Sannarlega orð að sönnu og eiginleikar sem við og allt okkar fólk fengum að njóta í ómældu magni.
Mamma sagði alltaf að hún hefði átt góða æsku, búið við mikið ástríki og öryggi og aldrei skort neitt.
Skólaganga mömmu var nokkuð hefðbundin fyrir þann tíma og stað sem hún ólst upp á. Hún lauk landsprófi og fór eftir það að vinna ýmis störf, s.s. í kaupamennsku og afgreiðslustörf. Síðar lærði hún að vera sjúkraliði sem hún starfaði við á Landspítalanum um árabil, lengst á kvennadeildinni. Þar naut hún trausts samstarfsfólks og ekki síður sjúklinganna sem hún sinnti enda nutu eiginleikar hennar sín vel í starfi sem kallaði á umhyggju og gæsku. Það voru ófáar konur sem sögðu okkur frá því hversu góð og nærgætin hún hefði verið þegar þær þurftu mest á því að halda. Árin sem mamma starfaði sem sjúkraliði voru góð hjá henni. Hún hafði oft eftir Salóme ömmu að bestu ár kvenna væru árin á milli fertugs og sextugs. Okkur finnst að það hafi átt vel við hjá henni.
Mamma var ekki gömul þegar leiðir þeirra pabba lágu saman. Hann kom að sunnan og vann við að leggja rafmagnslínur um fjöll og firnindi Vestfjarðakjálkans. Sagan segir að hann hafi verið á leið til Ameríku og þurft að safna fyrir ferðinni en komst ekki lengra. Hvort ástin kviknaði á balli í Gúttó eða Alþýðuhúsinu nú eða bara á rúntinum á Ísafirði vitum við ekki en hún logaði alla tíð frá þeirri stund sem hún tendraðist. Mamma saknaði pabba mikið þegar hann lést. Hún hafði ekki hátt um það, talaði ekki um að hún væri einmana en missir hennar var mikill.
Mamma var félagslynd en sóttist samt lítið eftir félagsskap utan fjölskyldunnar sem var henni allt. Þar var hún burðarás, gestgjafi og hrókur alls fagnaðar. Henni þótti fátt eins skemmtilegt og þegar hún var umkringd fólkinu sínu. Það var enda oft margt um manninn hjá henni sem naut velgjörða og umhyggju hennar. Það var alltaf nóg pláss fyrir alla og gætt að því allir nytu sín. Stundum minnti heimilið á umferðarmiðstöð, það komu allir við jafnvel þótt þeir þyrftu að leggja lykkju á leið sína. Mamma fékk aldrei nóg af þessum heimsóknum og líkaði best þegar margir mættu, borðuðu vel og höfðu hátt. Hún sagði sjálf að hávaði truflaði sig ekki og væri bara góður enda alin upp í háværum systkinahópi þar sem allir vildu að sín rödd heyrðist. Við sem þekkjum þar til vitum hvað hún var að meina. Þar var töluð íslenska og jafnvel stundum litrík vestfirska sem mamma kunni ágætlega fram á síðasta dag. Hún var alla tíð skoðanarík og hafði sterkar meiningar á mönnum og málefnum sem hún lét óritskoðað í ljós þegar svo bar undir.
Þegar horft er yfir langa ævi er af mörgu að taka og ótal minningar fylla hugann. Mamma að lesa fyrir okkur og fara með bænirnar, kenna okkur að lesa og hlýða yfir heimalærdóminn. Seinna að minna okkur á að virða útivistartímann og láta vita af okkur ef okkur seinkaði. Hún vakti yfir velferð okkar og þegar barnabörnin bættust við tók hún ömmuhlutverkinu með öllum trompum spilabunkans. Þau pabbi voru svo óendanlega góð amma og afi. Voru allaf til í að hafa barnabörnin með sér hvar og hvenær sem var. Þær voru ófáar útilegurnar sem barnabörnin voru með í. Útbúnaðurinn var ekki flókinn; tjald, prímus, svefnpokar, nóg af mat og góðgæti og umfram allt ást og umhyggja. Minningabókin góða frá þessum tíma er börnunum okkar dýrmæt. Umhyggja mömmu fyrir öllum afkomendum sínum var takmarkalaus og allt til síðasta dags vildi hún vera viss um að hún hefði munað eftir að gefa öllum afmælis- eða jólagjafir.
Síðustu ár mömmu voru henni þungbær vegna heilsubrests sem hún átti erfitt með að sætta sig við. Hún hélt samt reisn sinni og glæsileika allt til enda. Hún kvaddi okkur rétt eftir miðnætti eftir að hafa haft sitt besta fólk hjá sér allan daginn. Við erum þakklát fyrir mömmu sem stóð alltaf eins og klettur með okkur í lífsins ólgusjó.
Salóme, Þóra,
Hlynur og Hildur.
Elsku amma Gunna Dóra er látin. Friðsæl og falleg.
Auðvitað var amma best. Hún var hlý og góð, ástrík og innileg. Hún gaf okkur barnabörnunum allt sem hún átti. Ég var RÚV-barn en hjá ömmu og afa í Vesturberginu var Stöð 2. Þar var líka Cocoa-Puffs og Soda-Stream. Mest man ég þó eftir samverustundunum; lestri fyrir svefninn, ólsen-ólsen, að labba saman út í Straumnes og brasinu í eldhúsinu.
Útilegur fortíðarinnar voru oft rifjaðar upp af okkur ömmu. Það voru gleðistundir. Hún átti flottasta tjaldið, skemmtilegustu barnabörnin og glaðan ferðafélaga í afa. Hún var stolt amma, og mátti vera það.
Hjá henni var ég elskaður og óneitanlega dekraður. Amma bjó yfir mikilli kímnigáfu og hún var týpan sem byrjaði að hlæja jafnvel rétt áður en brandarinn var til enda sagður. Hún hafði sérlega gaman af hnyttnum tilsvörum og þakkaði fyrir með hrósi. Amma var stundum dómhörð og skoðanasterk. Hún gerði miklar kröfur til fólks. Það fylgir líklega oft svona skörpum, flottum konum sem gera líka miklar kröfur til sjálfra sín.
Takk elsku amma mín. Það er svo margt sem ég ætla að gera alveg eins og þú.
Andri Lefever.
Guðrún Dóra Hermannsdóttir, amma mín, sofnaði svefninum langa föstudaginn 14. mars síðastliðinn. Hún var tilbúin og fór á eigin forsendum. Hún gerði reyndar flest ef ekki allt á eigin forsendum. Það var hennar háttur.
Betri ömmu væri vart hægt að hugsa sér. Hún var blíð, góð, hlý og ástrík með eindæmum. Þegar ég tók að vaxa úr grasi áttaði ég mig líka á því að hún var flugklár, ofboðslega vel lesin og fróð, skoðanaglöð, réttsýn og síðast en ekki síst skemmtileg. Hún kenndi mér margt og lagði manni ýmsa lexíuna. Hún og afi þvældust með okkur landshorna á milli í útilegum. Heimasmurt ömmunesti, lyktin af svefnpokum þeirra og tjaldið eru meginstoðir í æskuminningum mínum og eru mér ómetanlegar. Þau tóku sín hlutverk gagnvart barnabörnunum alvarlega. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.
Minnisstæðar eru heimsóknirnar í mat til hennar á Miklubraut. Ég var rétt skriðinn yfir tvítugt. Svangur og sjálfhverfur hringdi ég gjarnan í ömmu að sníkja mat. Stundum hugsaði ég hvort þetta væri nú ekki ómerkilegt. Að kíkja bara til hennar til þess að fá að borða. Í dag skil ég þetta betur. Amma var vissulega góð að elda og eldaði heimsins besta ömmumat en ég man lítið eftir honum. Það sem ég man er samræðurnar. Frásagnir hennar af sjálfri sér kornungri fyrir vestan að flýja undan ímynduðum njósnavélum nasista á stríðsárunum. Eldræðurnar um pólitík og málefni líðandi stundar. Samræður um bækur og rithöfunda sem mig óraði ekki fyrir að hún vissi af, hvað þá að vera löngu búin að lesa.
Ég var ekkert að fara í mat til ömmu á Miklubraut. Ég var að fara til hennar. Hún var eins og segull sem saug að sér allt jákvætt hlaðið fólk og sleppti ekki takinu. Miklabraut var miðstöð Ísafjarðar og Vestfjarða almennt í Reykjavík. Allir kíktu til Gunnu Dóru. Annað var ekki í boði.
Það eru forréttindi í mínu lífi að hafa átt ömmu Gunnu Dóru. Nú lifir hún í minningum mínum og þeirra sem í henni áttu. Seguláhrifin virðast aftur á móti ekkert gefa eftir. Hún býr í hjörtum allra sem hana elskuðu og þekktu. Við sem hana þekktum og elskum erum sannarlega heppin.
William Óðinn Lefever.
Með þessum orðum kveð ég fyrrverandi tengdamóður mína, Guðrúnu Dóru Hermannsdóttur, með virðingu og þakklæti. Okkar kynni hófust 1976 þegar ég kom ungur til Íslands um jólin sem unnusti Salóme. Þau hjónin Þórir og Gunna Dóra tóku vel á móti mér og frá fyrsta degi leið mér sem hluta af fjölskyldunni.
Fjölskyldan var Gunnu Dóru afar mikilvæg og hún lagði alla tíð mikla rækt við að hlúa vel að okkur öllum. Sérstaklega var hún góð við barnabörnin sín. Hún var alltaf til í að passa og bjóða í mat eða kaffi. Þórir og Gunna Dóra voru dugleg að bjóða barnabörnunum í útilegur, veiðiferðir og heimsóknir og við erum rík að dýrmætum minningum frá þeim árum. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir þá ást og alúð sem hún sýndi sonum mínum, Andra, Óðni og Kára. Þeir hefðu ekki getað átt betri ömmu.
Það var gagnkvæm virðing og væntumþykja milli okkar alla tíð, líka eftir að leiðir okkar Salóme skildi. Samband okkar var áfram gott og alltaf var gaman að ræða málin, skiptast á skoðunum og rifja upp skemmtileg atvik sem við deildum í okkar lífi.
Gunna Dóra var mikil sómakona – megi minningar um hana lengi lifa.
Samúel.
Guðrún Dóra föðursystir mín var næstyngst ellefu systkina. Faðir minn var næstur í röðinni á undan Gunnu Dóru, þremur árum eldri, og voru þau því nálægt hvort öðru í aldri. Þegar þau systkinin stofnuðu sínar fjölskyldur á svipuðum tíma bjuggu þau bæði á Ísafirði og samskiptin voru mikil. Pabbi og Þórir voru á sjó og mamma og Gunna Dóra urðu góðar vinkonur. Þar sem börnin voru á svipuðum aldri myndaðist einnig vinátta milli barnanna.
Gunna Dóra og Þórir voru samofin öllu daglegu lífi okkar á uppeldisárum okkar á meðan þau bjuggu á Ísafirði. Mamma og Gunna Dóra saman í sumarbústaðnum með öll börnin. Gunna Dóra að passa fyrir mömmu og mamma að passa fyrir Gunnu Dóru og við börnin að brasa eitt og annað.
Í lok 7. áratugarins fluttu Gunna Dóra og Þórir og börn til Reykjavíkur. Þau byrjuðu að búa í Hraunbænum og enn þá höldum við miklu sambandi. Við fáum gistingu hjá þeim þegar við komum til Reykjavíkur og þau koma oft til Ísafjarðar, sambandið rofnaði aldrei. Við komum suður og fengum gistingu í Þórufellinu, Vesturberginu og loks á Miklubrautinni.
Ég, undirrituð, átti sérstakt athvarf hjá Gunnu Dóru, til hennar gat ég leitað í blíðu og stríðu. Þar gat ég fengið húsaskjól í lengri og skemmri tíma. Meira að segja gátu vinkonur mínar gist ef þannig stóð á, ég og mitt fólk var alltaf velkomið.
Fjölskyldan var alltaf númer eitt hjá Gunnu Dóru, hún naut sín best með Þóri, börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum, fyrir þau vildi hún allt gera. En hún hugsaði ekki bara um sína fjölskyldu heldur var henni mjög annt um systkini sín og systkinabörn. Hún fylgdist mjög vel með því hvað við vorum að bardúsa og hún var góð vinkona okkar og sýndi okkur mikla umhyggju. Hún var dugleg að hringja á afmælisdögum og líka ef hún hafði ekki heyrt í okkur lengi. Hún mætti á öll ættarmót hjá Hermannsættinni á meðan heilsan leyfði, alltaf glöð og ánægð með að hitta sitt fólk og hrókur alls fagnaðar.
Gunna Dóra og Þórir voru miklir dýravinir eins og allir þeirra afkomendur og allir kettir og hundar voru velkomnir á heimili þeirra til jafns við mannfólkið. Persneski kötturinn Grímur var prinsinn á heimilinu í mörg ár. Eftir að hann fór ætlaði Gunna ekki að fá sér annan kött, en hún aumkaði sig yfir Vask. Kött sem hafði lifað hálfgerðu laumulífi alla sína ævi, flakkað á milli ættingja og falið sig undir rúmi að mestu, alla ævi. Þegar gestir komu á Miklubrautina sást Vaskur aldrei, þau Gunna áttu sitt samband þar til yfir lauk. Það kom að því að Vaskur fór yfir í aðra heima, löngu æviskeiði lokið og Gunna Dóra of lasin til að halda sjálf heimili og þurfti að flytja í þjónustuíbúð. Þau yfirgáfu Miklubrautina nánast samtímis, heimilið sem hún hafði átt góða daga á í rúm 30 ár.
Ég kveð Gunnu Dóru frænku mína með söknuði og þakka henni fyrir alla þá góðsemi og stuðning sem hún veitti mér alla tíð.
Bergljót Halldórsdóttir.
Dagurinn var 7. júní 1979 og við kærustuparið, Gunnar og ég, vorum á leiðinni í Þórufellið til að óska föðursystur hans, elsku Gunnu Dóru, til hamingju með 42 ára afmælið. 22 árum áður hafði Gunnar minn einmitt fæðst á tvítugsafmæli hennar svo að nú lá leið okkar í Breiðholtið svo að þau gætu samfagnað.
Þess má geta að þennan dag var undirrituð sér afar meðvituð um að hún væri að fara að hitta föðursystur nýja kærastans og var sannarlega ákveðin í að koma sem allra best fyrir sjónir. Hins vegar vorum við vart komin á rétta hæð í Þórufellinu þegar tveir drengir komu skyndilega á miklum spretti niður tröppurnar í stigaganginum og köstuðu sér í fang Gunnars, sem hóf samstundis að flúskrast við þá. Á þessu átti ég alls ekki von og fór því aðeins að skima í kringum mig. Ég sá að dyrnar vinstra megin í stigaganginum voru opnar og við þær stóð mjög glæsileg kona, afar dökk yfirlitum. Þar sem ekkert lát var á grínslagsmálum Gunnars míns við strákana ákvað ég að ganga til dökkhærðu konunnar og kynna mig. Um leið og hún tók í hönd mína og sagðist heita Þuríður þótti mér sem það gæti alveg verið hið rétta í stöðunni að ég færi bara úr skónum og stigi inn til hennar. Í þann mund sem ég gerði mig líklega til þess heyrði ég að við gullu mikil hlátrasköll á ganginum og þegar ég leit við sá ég Gunnar, Þóri Hlyn og vin hans organdi af hlátri. Jafnframt sá ég að í dyrum íbúðarinnar hinum megin við ganginn stóð gerðarleg kona sem ég sá strax að væri föðursystir Gunnars. Hún var ljós yfirlitum með fallega gylltan tón í hári og með þetta sterka og ríka svipmót sem ég átti upp frá þessu eftir að kynnast svo miklu betur hjá öllum þeirra fjölmörgu og glæsilegu ættmennum. Þó að ég hafi verið heldur álút þegar ég haskaði mér yfir ganginn til þess að heilsa föðursysturinni fríðu hvarf mér samstundis allt óöryggi eftir að hún faðmaði mig að sér með sínu ástúðlega og góða ylríki. Þarna kynntist ég því á eftirminnilegan máta hve Gunna Dóra var einstök að allri sinni vönduðu og látlausu gerð og upp frá þessu vakti ætíð bjart og fallegt ljós yfir því kærleiksbandi sem varð til á milli okkar þennan ágæta afmælisdag frændsystkinanna árið 1979.
Gunna Dóra var í senn sviphrein og stórglæsileg kona sem var það í blóð borið að mæta öllu því sem að hennar garði bar af miklu jafnlyndi og skynsemi. Á sinni fölskvalausu siglingu um lífsins sjó var faðmur hennar ávallt öruggur og opinn og sannarlega var hún allt í senn skemmtileg, heiðarleg, trygg og réttsýn. Hún tókst á við lífið af mikilli einurð og reisn og var ævinlega einkar stillt og friðelskandi í sínum innsta kjarna. Að því dáðist ég mjög því þrátt fyrir að hún ætti kannski kyn til þess að þenja sig dálítið í tilverunni gerði hún það aldrei. Í hennar lund ríkti jafnvægi af bestu og ósviknustu gerð og því lét hún aldrei mikið né hrópaði hún hátt.
Ég spenni greipar þegar ég kveð elsku Gunnu Dóru af miklu þakklæti og kærleika. Guð almáttugur blessi og varðveiti hennar ávallt dýrmætu og fagurgylltu minningu.
Margrét Grétarsdóttir.