Árás Eldflaugavagn Úkraínuhers gerir árás á Rússa í Sapórísja.
Árás Eldflaugavagn Úkraínuhers gerir árás á Rússa í Sapórísja. — AFP/65. vélastórfylki Úkraínuhers
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í gær að Rússar hefðu hafið nýja sókn í norðausturhluta Úkraínu í Súmí- og Karkív-héruðum, auk þess sem þeir reyndu einnig að sækja fram í Sapórísja-héraði í suðri

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í gær að Rússar hefðu hafið nýja sókn í norðausturhluta Úkraínu í Súmí- og Karkív-héruðum, auk þess sem þeir reyndu einnig að sækja fram í Sapórísja-héraði í suðri.

Oleksandr Sirskí, yfirmaður allra herja Úkraínu, staðfesti síðar um daginn að Rússar hefðu aftur hafið sóknaraðgerðir í héruðunum tveimur í norðaustri, og að Rússar hefðu nærri því tvöfaldað fjölda stakra sóknaraðgerða í héruðunum á undangenginni viku.

Talið er að aðgerðir Rússa miði að því að setja meiri þrýsting á Úkraínumenn í aðdraganda mögulegs vopnahlés, en Selenskí hefur sakað Rússa um að vilja draga þær á langinn til þess að geta lagt undir sig meira af landsvæði Úkraínu áður en slíkt vopnahlé kemst á.

Kínverska utanríkisráðuneytið brást í gær við fregnum um að tveir kínverskir málaliðar hefðu verið handsamaðir á víglínunni í bardögum við hlið Rússa með því að hvetja alla kínverska ríkisborgara til þess að forðast átakasvæðin. Síðar var greint frá því að fjórir til viðbótar hefðu einnig verið teknir höndum, en Selenskí sagði í fyrradag að Úkraínumenn hefðu sönnunargögn um að fleiri Kínverjar væru að taka þátt í bardögum í Donetsk-héraði.

Kínverska utanríkisráðuneytið hafnaði í gær öllum ásökunum þess efnis að fleiri kínverskir hermenn væru nú í bardögum í Úkraínu. Sagði talsmaður ráðuneytisins að Kínverjar væru með skýra hlutleysisstefnu í Úkraínustríðinu. Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, sagðist í gær ekki geta svarað neinum spurningum um málið.

Vestrænir hernaðarsérfræðingar telja ólíklegt að viðkomandi hermenn hafi verið sendir af kínverskum stjórnvöldum til átakanna, en rússnesk stjórnvöld hafa fengið hermenn frá ýmsum þjóðríkjum til liðs við sig með ýmiss konar ráðum.