1958 Foreldrar Pavels á brúðkaupsdaginn, Eugenia og Pavel Goia. Hún lifir mann sinn, sem var myrtur 1989.
1958 Foreldrar Pavels á brúðkaupsdaginn, Eugenia og Pavel Goia. Hún lifir mann sinn, sem var myrtur 1989.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Trúin er mikilvægur þáttur í ættarsögu prestsins og rithöfundarins Pavel Goia, sem ólst upp í Rúmeníu á tímum kommúnistastjórnar einræðisherrans Nicolae Ceaușescu. Pavel er nú kominn til Íslands á vegum Aðventkirkjunnar og mun flytja fjögur erindi um mátt bænarinnar í Verzlunarskóla Íslands 10

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Trúin er mikilvægur þáttur í ættarsögu prestsins og rithöfundarins Pavel Goia, sem ólst upp í Rúmeníu á tímum kommúnistastjórnar einræðisherrans Nicolae Ceaușescu. Pavel er nú kominn til Íslands á vegum Aðventkirkjunnar og mun flytja fjögur erindi um mátt bænarinnar í Verzlunarskóla Íslands 10. apríl til 13. apríl kl. 19.30, en Pavel býr nú í Bandaríkjunum og er þekktur fyrirlesari.

„Bæði faðir minn og föðurafi voru trúaðir og harðduglegir menn á tímum í Rúmeníu þegar yfirvöld ofsóttu kristna menn. Afi minn, Ioan, var trésmiður og hann gaf fólki Biblíuna þar sem hann kom og talaði við almenning um trúmál. Í eitt skiptið náði lögreglan honum og barði hann svo illa að hann lá í blóði sínu á götunni, en honum var bjargað og komið á sjúkrahús þar sem hann var í dái í tvo mánuði. En hann lifði það af.“

Faðir Pavels, Pavel eldri, var einnig húsasmiður og verktaki, og erfði trúna frá föður sínum. „Pabbi smyglaði Biblíum inn í landið og kom þeim til fólks eins og afi hafði gert áður.“ Pavel eldri var mjög vel látinn í Drobeta-Turnu Severin þar sem fjölskyldan bjó, enda var honum annt um samborgarana og hann og vinnuhópur hans komu mörgum til hjálpar á erfiðum tímum.

Ósýnilegir bókakassar

Lögregla Ceaușescus var farin að fylgjast með honum og Pavel segir að oft hafi verið gerð húsleit án fyrirvara hjá fjölskyldunni, en faðir hans geymdi Biblíur og fleiri gögn í litlu hólfi milli gólffjala. „Í eitt skiptið var gerð húsleit og þá var pabbi með 14 kassa af Biblíum á miðju stofugólfinu. Það var öllu snúið á hvolf við leitina, en þrátt fyrir að kassastæðurnar væru beint fyrir framan augun á lögreglunni var eins og þær væru ósýnilegar og ekkert fannst,“ segir Pavel.

„En það var alltaf verið að handtaka pabba, ekki síst eftir að hann stofnaði kirkju þar sem fólk gat komið saman og beðið. Þá urðu ofsóknirnar enn meiri,“ segir Pavel en bætir við að af því að faðir hans var bæði þekktur og vinsæll hafi lögreglan ekki viljað að neitt kæmi fyrir hann á lögreglustöðinni svo að íbúarnir myndu ekki líta á hann sem píslarvott.

„Í júlí 1989 handtóku þeir hann og sendu hann heim. Þar varð hann mjög veikur og stuttu síðar dó hann. Við höldum að hann hafi dáið vegna geislunar sem lögreglan beitti, en það kom í ljós síðar að fleiri höfðu orðið fyrir slíkum pyntingum á vegum stjórnvalda. Sex mánuðum síðar, í desember, varð bylting í landinu og Ceaușescu var tekinn af lífi.“

Á þessum tíma var Pavel þegar giftur og átti þriggja ára son og hafði lokið námi í verkfræði. „Ég fékk enga vinnu í faginu, vegna tengsla minna við trúna, og ég hafði stofnað litla fataverksmiðju til að sjá fyrir fjölskyldunni. Samhliða því var ég að vinna fyrir kirkjuna og ég var beðinn um að sinna prestsskyldu, og læra til prests eftir að stjórnin var fallin.“

Pavel lærði til prests og árið 1997 fór hann með fjölskyldunni til Bandaríkjanna og lauk doktorsprófi í guðfræði. „Við höfum verið hér í Bandaríkjunum síðan, og börnin okkar tvö og barnabörnin,“ segir hann og bætir við að þau hafi fengið móður hans til að koma til þeirra, en hún er núna 83 ára. „En eftir eina viku fór hún aftur heim til Rúmeníu. Hún sagðist ekki tala ensku og hún gæti ekkert gert hérna. Heima í Rúmeníu gæti hún hjálpað fólki og hún vildi halda áfram að gera það eins og hún hefði gert alla tíð.“

Pavel segir að enginn sem ekki hafi upplifað líf undir ógnarstjórn geti skilið þann ótta sem fólk búi við og segir að talið sé að milljónir manna hafi verið myrtir af stjórn Ceaușescus. „Minnsti grunur um að þú værir ósammála stjórnvöldum gat valdið handtöku og pyntingum. Og trúin. Ég held að þeim hafi verið svo illa við trúna af því að hún gefur fólki von.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir