Afnámið er einfaldlega skattahækkun

Fjármálaráðherra segir áhrifin af kynntu afnámi samsköttunar hjóna verða minniháttar. Nú er út af fyrir sig túlkunaratriði hvað er mikið og hvað lítið, en margar fjölskyldur munar um nokkur hundruð þúsund krónur á ári þó að fjármálaráðherra kunni að þykja slík fjárhæð léttvæg.

Ríkisstjórnin hefur reynt að tala sig frá þessari skattahækkun eins og öðrum slíkum með orðaleppum sem hafa enga þýðingu fyrir almenning og þau fyrirtæki sem fyrir hækkununum verða.

Í samtali mbl.is við Eymund Svein Einarsson endurskoðanda kom skýrt fram að sú skattahækkun sem framkvæmd er með afnámi samsköttunar sé „ekki dulbúin skattahækkun, þetta er einfaldlega skattahækkun. Punktur.“ Eymundur hefur reiknað út áhrifin og sýnt fram á að skattahækkunin geti verið umtalsverð, en bætir því við að þetta sé ekki aðeins skattalegt dæmi, heldur sé samsköttunin ein af stoðunum í samfélaginu og hlúi að fjölskyldum í landinu.

Mikilvægt er að talað sé skýrt um þessa aðför að fjárhag heimilanna og að hún týnist ekki í útúrsnúningum og orðaleppum.