Félagar Forsetar Rússlands (t.v.) og Hvíta-Rússlands sjást hér heilsast innilega undir heiðursverði í Kreml, en ríkin hafa eflt mjög samstarf sitt.
Félagar Forsetar Rússlands (t.v.) og Hvíta-Rússlands sjást hér heilsast innilega undir heiðursverði í Kreml, en ríkin hafa eflt mjög samstarf sitt. — AFP/Maxim Shemetov
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sameiginleg heræfing Rússlands og Hvíta-Rússlands verður haldin um miðjan september nk. og fer hún að líkindum alfarið fram innan landamæra Hvíta-Rússlands. Æfing þessi nefnist Zapad, eða Vestur, og vísar heitið til þess herafla Rússlands sem sér um vestari hersvæðin

Í brennidepli

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Sameiginleg heræfing Rússlands og Hvíta-Rússlands verður haldin um miðjan september nk. og fer hún að líkindum alfarið fram innan landamæra Hvíta-Rússlands. Æfing þessi nefnist Zapad, eða Vestur, og vísar heitið til þess herafla Rússlands sem sér um vestari hersvæðin. Í vikunni staðfestu stjórnvöld í Minsk að Zapad yrði haldin og segja þau 13 þúsund hermenn munu taka þátt. Sú tala er, að mati sérfræðinga, ólíkleg og gera þeir ráð fyrir að um 100 þúsund hermenn úr öllum sveitum herafla ríkjanna taki þátt í æfingunni með einum eða öðrum hætti.

Zapad-æfingin á rætur sínar að rekja til Sovétríkjanna sálugu og var tilgangur hennar sá að sýna Vesturlöndum getu sovéska hersins til að stunda útbreidd allsherjarátök. Fjölmennust var æfingin á Sovéttímanum árið 1981 þegar um 150 þúsund sovéskir hermenn tóku þátt. Zapad-æfingarnar árin 2013, 2017 og 2021 báru þess allar merki að verið væri að innleiða lærdóm Rússa af vopnuðum átökum í Georgíu, Sýrlandi og Úkraínu, þ.e. eftir innlimun Krímskaga. Æfingin 2021 var sú langfjölmennasta sem haldin hefur verið, með alls um 200 þúsund hermenn, 80 flugvélar og þyrlur, 300 skriðdreka og 15 herskip.

Friður ríkir ekki í Evrópu

Sönke Neitzel, hernaðarsagnfræðingur við háskólann í Potsdam í Þýskalandi, segir Moskvuvaldið munu halda áfram að reyna á samstöðumátt Vesturlanda og ógna ríkjum Evrópu með njósnastarfsemi, upplýsingaóreiðu, tölvuárásum og skemmdarverkum á mikilvægum innviðum, s.s. sæstrengjum. Þótt Evrópa eigi ekki í stríði, segir hann, ríkir þar heldur ekki friður.

„Það hafa eflaust margir í Eystrasaltslöndunum áhyggjur af Zapad-æfingunni sem haldin verður í haust. Enda vitum við það nú að æfingin árið 2021 var undirbúningur Rússlands fyrir allsherjarinnrás í Úkraínu skömmu síðar. Ég er auðvitað ekki að slá því föstu að ráðist verði inn í löndin, en það er vissulega hugsanlegt. Og í ljósi þess er nauðsynlegt að Vesturlönd, Evrópa og ekki síst Þýskaland gefi í og undirbúi sig vel,“ segir Neitzel í samtali við Deutsche Welle.

Ráðamenn á Vesturlöndum hafa sumir sagt Rússland verða búið undir vopnuð átök við ríki Evrópu eigi síðar en árið 2029. Neitzel segir tímasetningar sem þessar ekki mega trufla uppbyggingu á vörnum.

„Hafi Pútín [Rússlandsforseti] áform um innrás, þá er nú ekki víst að hann bíði eftir því að Atlantshafsbandalagið verði tilbúið. Þótt íbúar Evrópu telji sumir að hér ríki friður, þá er það alls ekki svo. Við eigum vissulega ekki í stríði en hér ríkir ekki friður heldur.“

Þýska þjóðin vill varnir

Mjög hefur verið rætt undanfarið um laka stöðu þýska hersins og þann gríðarlega niðurskurð sem hann hefur orðið fyrir sl. áratugi. Neitzel segir stjórnmálamönnum um að kenna hvernig komið er. Þýska þjóðin hafi í áratugi verið fylgjandi sterkum her og öflugum vörnum. Það var hins vegar menningarelítan, eins og hann orðar það, sem kaus niðurskurðarleiðina.

„Meirihluti Þjóðverja hefur frá 1955 verið fylgjandi sterkum her og vörnum. […] Vandinn liggur ekki í því að vígvæðast, né heldur liggur hann hjá þjóðinni. Vandinn er stjórnmálanna. Það voru þau sem vörpuðu fram þeirri mynd að þjóðin vildi ekki sterkan her. En svo er alls ekki,“ segir hann og bendir á að 85% Þjóðverja vilji nú öflugar varnir.

Árásir æfðar á NATO

Undirbúningur fyrir stríð?

Þótt yfirvöld í Moskvu og Minsk haldi því fram að með Zapad sé helst verið að æfa varnir og samræmingu herafla ríkjanna hafa þau verið ógnandi og æft árásir á borgaraleg skotmörk í Evrópu.

Árið 2009 lauk Zapad með ímyndaðri árás á Pólland með kjarnavopnum og árið 2013 var skotmarkið Svíþjóð.

Nú velta sérfræðingar fyrir sér hvert skotmark Zapad verði í haust og þykir sumum líklegast að æfð verði útbreidd átök við Atlantshafsbandalagið. Yrði það í samræmi við áætlanir Moskvuvaldsins sem stöðugt vill reyna á samstöðu og styrk varnarbandalagsins í vestri.

Höf.: Kristján H. Johannessen