Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Brautskráningum úr iðnnámi hjá einstaklingum yngri en 21 árs hefur fjölgað um 150% frá árinu 2016, samkvæmt tölfræði Hagstofu Íslands. Algjör straumhvörf hafa orðið í áhuga á námi í iðngreinum. Eitt af áherslumálum síðustu ríkisstjórnar var að efla…

Brautskráningum úr iðnnámi hjá einstaklingum yngri en 21 árs hefur fjölgað um 150% frá árinu 2016, samkvæmt tölfræði Hagstofu Íslands. Algjör straumhvörf hafa orðið í áhuga á námi í iðngreinum.

Eitt af áherslumálum síðustu ríkisstjórnar var að efla iðnnám á Íslandi, og því má með sanni segja að það hafi tekist í góðu samstarfi við skólasamfélagið, atvinnulífið og sveitarfélögin. Menntastefna til ársins 2030 leggur sérstakan metnað í iðnnám og framkvæmdaáætlun um stefnuna. Meginástæða þess að ráðist var í metnaðarfulla stefnugerð og aðgerðir var sú staðreynd að mun færri sóttu iðnnám á Íslandi en í öðrum OECD-ríkjum. Skýr vilji stjórnvalda stóð til þess að fleiri sæktu sér starfs- og tæknimenntun til að koma betur til móts við þarfir samfélagsins.

Stjórnvöld og skólasamfélagið gerðu samkomulag árið 2020 við Samtök iðnaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um að fara í samstilltar aðgerðir til að efla iðnnám í fimm liðum: Í fyrsta lagi var ráðist í umfangsmiklar kerfisbreytingar á iðnnámi með það að markmiði að einfalda skipulag starfs- og tæknináms. Ný reglugerð var sett um vinnustaðanámið, þar sem helsta breytingin var að framhaldsskólar báru ábyrgð á gerð og staðfestingu vinnustaðanámssamninga fyrir iðnnema í gegnum rafræna ferlibók. Í stuttu máli: Framhaldsskólarnir tóku í auknum mæli ábyrgð á öllu náminu – frá innritun til útskriftar. Í öðru lagi var ráðist í breytingar á lögum um háskólastigið, þannig að iðnmenntaðir skyldu njóta sömu réttinda og þeir sem lokið hafa stúdentsprófi til að sækja um háskólanám. Í þriðja lagi var markvisst unnið að því að bæta aðgengi að starfs- og tækninámi á landsbyggðinni, enda ræður námsframboð í heimabyggð miklu um námsval ungmenna að loknum grunnskóla. Nýr Tækniskóli er á teikniborðinu og aðstaða bætt víða um land. Í fjórða lagi skyldi náms- og starfsráðgjöf í grunnskólum styrkt, bæði fyrir ungmenni og foreldra.

Farsæl samvinna og samstarf allra lykilaðila skilaði góðum árangri fyrir land og þjóð. Ég vil þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg til að efla iðnnám á Íslandi fyrir gott samstarf.

Í ríkisfjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar er boðaður stórfelldur niðurskurður í menntamálum. Sérstakt áhyggjuefni er framhaldsskólastigið, þar sem verulega á að lækka fjárframlögin. Með þessum áformum er hætta á að ríkisstjórnin sé að fresta framtíðinni og grafa undan framtíðarhagvexti sem byggður er á menntun.

Ljóst er í mínum huga að ef handverk iðnmenntaðra væri ekki til staðar í íslensku samfélagi væri afar tómlegt um að litast. Fullyrðing Njáls á Bergþórshvoli, um að land vort skuli byggt með lögum, er ljóðræn og fögur – en raunin er sú að miklu meira en lagabókstafinn þarf til að byggja samfélag.

Höfundur er varaformaður Framsóknar og fv. menntamálaráðherra. liljaalf@gmail.com

Höf.: Lilja Dögg Alfreðsdóttir