Handbolti
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Fram tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í fyrsta skipti frá árinu 2017 er liðið sigraði Hauka, 28:25, á útivelli í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitunum. Fram vann fyrsta leikinn 28:27 og einvígið 2:0.
„Ég er mjög ánægður með þetta. Við vissum að þetta yrði erfitt á móti góðu Haukaliði og ég er hrikalega sáttur við frammistöðuna í báðum leikjum,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Fram í samtali við Morgunblaðið.
Mæta Íslandsmeisturunum
Fram mætir Íslandsmeisturum FH í undanúrslitum. Fyrsti leikurinn er í Kaplakrika miðvikudaginn 16. apríl og er því rúm vika á milli leikja hjá Framliðinu. Það eru góðar fréttir fyrir Fram, þar sem Tryggvi Garðar Jónsson og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson eru að glíma við meiðsli.
„Það er gott að halda takti og hafa ekki of langt á milli leikja en Tryggvi og Gauti eru að glíma við meiðsli. Vonandi eiga þeir möguleika á að koma við sögu í einvíginu og vonandi strax í fyrsta leik,“ sagði Einar.
FH fékk 35 stig úr 22 leikjum á tímabilinu, fjórum stigum meira en Fram í jafnri toppbaráttu. Einar sagði Framliðið á leiðinni í einvígi gegn besta liði Íslands, en FH er ríkjandi Íslands- og deildarmeistari.
„Þeir eru búnir að vera besta liðið í vetur. Það hefur ekki verið sami stöðugleiki í okkur, Aftureldingu og Val. Við höfum verið of rokkandi, höfum átt okkar góðu kafla en slæmu kafla sömuleiðis.
Þeir hafa reynsluna og þekkinguna frá því í fyrra og árin á undan. Þetta verður hrikalega erfitt en á sama tíma skemmtilegt. Mér finnst mjög gaman að spila við FH og við ætlum okkur að vinna þá núna.“
Erfitt gegn FH-ingum
Fram hefur gengið afar illa gegn FH undanfarin ár. Síðasti sigur í deildinni kom 22. október árið 2015.
„Þetta er fimmta tímabilið hjá mér síðan ég tók aftur við liðinu og okkur hefur aldrei tekist að vinna FH. Á þessu tímabili var FH með yfirhöndina gegn okkur í deildinni. Það gefur þeim hins vegar ekkert þegar komið er inn í þessa leiki. Við ætlum okkur áfram í þessu einvígi, það er ekki flóknara en það,“ sagði Einar ákveðinn.
Hann er spenntur fyrir undanúrslitunum, þar sem fjögur efstu lið deildarkeppninnar etja kappi. Afturelding og Valur mætast í hinu einvíginu.
„Haukarnir hafa samt verið að narta í þessi lið og ÍBV hefði hæglega getað farið með einvígið við Aftureldingu í þriðja leik. Taflan segir okkur hins vegar, og það er mín skoðun, að þetta séu fjögur bestu liðin.“
Fram varð síðast Íslandsmeistari árið 2013, einmitt undir stjórn Einars. Hann finnur fyrir sömu stemningu hjá liðinu í ár og Íslandsmeistaraliðinu, þótt þau séu ólík.
„Okkar lið er borið uppi af uppöldum strákum sem hafa verið að koma upp undanfarin ár. Liðið 2013 var mun reyndara og með mönnum sem höfðu unnið þetta allt áður. Stemningin er hins vegar svipuð í klefanum.“
Fram varð bikarmeistari á dögunum í annað sinn og í fyrsta skipti frá árinu 2000. Eftir döpur ár er svo sannarlega búið að vekja sofandi risa, en aðeins Haukar, FH og Valur hafa orðið oftar Íslandsmeistari í karlaflokki.
„Það hefur verið unnið frábært starf í yngri flokkunum. Við erum með frábæra þjálfara þar, sem gerir það að verkum að við erum að fá fullt af flottum og mjög efnilegum strákum upp.
Það er góð umgjörð í kringum liðið okkar líka. Það er búið að vinna markvisst að þessu undanfarin ár. Við vildum koma karlaliðinu á þann stall sem það er á í dag. Það var líka jákvætt skref að fara í Úlfarsárdal og við eigum eftir að græða enn meira á því,“ sagði Einar.