Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Atvinnuvegaráðherra gat engu svarað um útsvarsgreiðslur handhafa strandveiðileyfa, en spurt var á Alþingi hve háar útsvarsgreiðslur strandveiðimenn hefðu innt af hendi til sveitarfélaga árin 2016 til 2024. Er því borið við að málefnasvið sem tengist lögum um tekjustofna sveitarfélaga heyri ekki undir atvinnuvegaráðuneytið og því engar upplýsingar um útsvarsgreiðslur að finna á þeim bænum.
„Ég lagði fram fyrirspurnina til þess að fá fram upplýsingar um áhrif, í þessu tilfelli af strandveiðum, á byggðir landsins og atvinnuvegaráðuneytinu var það um megn að afla sér upplýsinga um það og þeirra gagna sem málið varða,“ segir Vilhjálmur Árnason alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið.
„Þetta kom mér mjög á óvart þar sem ráðuneytið er að leggja til breytingar á ýmsum lögum sem varða sjávarútveg, þ.m.t. á strandveiðikerfinu, eignarhaldi í sjávarútvegi, skilgreiningum á tengdum aðilum í sjávarútvegi og veiðigjöldunum, sem hafa munu mikil áhrif á sjávarútveginn og byggðir landsins þar með,“ segir Vilhjálmur.
„Það hafa verið gerðar athugasemdir af fulltrúum sjávarbyggða í landinu við það hve skammur frestur er gefinn til umsagna um veiðigjaldafrumvarpið og kvartað er yfir skorti á gögnum. Þeir fá ekki tíma til að meta áhrifin af þessu á sínar byggðir og það er ekkert gert með það hjá stjórnvöldum,“ segir hann.
„Í þessu svari til mín er það staðfest að ráðuneytið hefur ekki þessi gögn með höndum, hefur ekki leitast við að afla þeirra og ætlar sér greinilega ekki að gera það, miðað við svarið. Mér þykir það alvarlegt mál að verið sé að fjalla um stórfelldar breytingar á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar og lífæð margra byggðarlaga og ráðuneytið aflar sér ekki neinna upplýsinga og hefur ekki hugmynd um hvaða áhrif þessar fyrirætlanir hafa á byggðirnar, eins sést á því að það getur ekki svarað fyrirspurninni og leitar ekki einu sinni eftir upplýsingunum til að geta svarað henni,“ segir Vilhjálmur.
„Þetta staðfestir það sem við höfum óttast, að það er verið að fara fram með stór mál óunnin og það má ekki birta nein gögn í leynifélagi Kristrúnar Frostadóttur eða veita upplýsingar, heldur er kappkostað að leggja fram málin þótt þau séu óunnin og látið eins og þau hafi engar afleiðingar. Það er eins og hún sé bara í vinsældakosningum, í stað þess að vinna málin á faglegan hátt,“ segir hann.
Af þeim svörum sem þó komu fram hjá ráðuneytinu varðandi strandveiðar má m.a. ráða að strandveiðibátum hafi fjölgað á tímabilinu 2016-2024, og voru bátarnir 763 í fyrra. Afli þeirra hefur og vaxið yfir tímabilið, var tæp 12.667 tonn árið 2024. Í gögnum frá Fiskistofu kemur fram að tæp 94% aflans hafi verið þorskur, en annar afli ufsi að mestu. Aflaverðmætið áætlaði Fiskistofa að væri 5 milljarðar króna í fyrra.