Keppinautar Breiðablik og Valur halda áfram baráttu sinni um Íslandsmeistaratitilinn í ár ef spáin gengur eftir og Breiðablik þykir líklegra.
Keppinautar Breiðablik og Valur halda áfram baráttu sinni um Íslandsmeistaratitilinn í ár ef spáin gengur eftir og Breiðablik þykir líklegra. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lið Breiðabliks er afar líklegt til að verja Íslandsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu á komandi keppnistímabili en keppni í Bestu deild kvenna 2025 hefst á þriðjudaginn kemur. Þetta er niðurstaðan í árlegri spá Morgunblaðsins og mbl.is þar sem…

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Lið Breiðabliks er afar líklegt til að verja Íslandsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu á komandi keppnistímabili en keppni í Bestu deild kvenna 2025 hefst á þriðjudaginn kemur.

Þetta er niðurstaðan í árlegri spá Morgunblaðsins og mbl.is þar sem starfsfólk íþróttadeildar og aðrir knattspyrnusérfræðingar á ritstjórninni, alls 20 manns, greiddu atkvæði.

Allir nema þrír töldu að Breiðablik yrði Íslandsmeistari árið 2025. Þeir spáðu Val sigri en tveir til viðbótar spáðu Valsliðinu þriðja sætinu, á eftir Þór/KA í öðru tilfellinu og á eftir Víkingi í hinu.

Þróttur úr Reykjavík varð hins vegar í þriðja sætinu í spánni, einu stigi fyrir ofan Þór/KA en samkvæmt sérfræðingunum kemur það í hlut nýliðanna tveggja í Fram og Austfjarðaliðinu FHL að falla á ný úr deildinni, Fram þó eftir harða baráttu við Tindastól.

Blikar enn sterkari?

Bjartsýni fyrir hönd Breiðabliks er á rökum reist en Kópavogsliðið kemur líklega enn sterkara til leiks en í fyrra þegar það hafði betur gegn Val eftir hreinan úrslitaleik liðanna á Hlíðarenda í lokaumferðinni.

Varnarmaðurinn Heiðdís Lillýjardóttir og framherjinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir snúa aftur til Breiðabliks og þar bætist mikil reynsla í hópinn. Þær koma í staðinn fyrir fyrirliðann Ástu Eir Árnadóttur sem lagði skóna á hilluna og Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur sem fór til Anderlecht í Belgíu. Hin bandaríska Katherine Devine kemur í markið í stað Telmu Ívarsdóttur sem fór til Rangers í Skotlandi.

Þá verður Samantha Smith með Blikum allt tímabilið en hún kom af gríðarlegum krafti inn í liðið í ágúst á síðasta ári þegar hún var fengin að láni frá FHL. Breiðablik mun lítið geta nýtt framherjann Ólöfu Sigríði Kristinsdóttur sem ætti að snúa aftur eftir krossbandsslit í sumar en fer síðan í nám vestur um haf.

Munar um Katie

Valur hefur einnig fyllt ágætlega í sín skörð að því leyti að Jordyn Rhodes kemur frá Tindastóli í stað Berglindar Bjargar í framlínuna en Rhodes var geysiöflug með Skagfirðingunum í fyrra, og Tinna Brá Magnúsdóttir kemur í markið frá Fylki í stað Fanneyjar Ingu Birkisdóttur sem fór til Häcken í Svíþjóð.

Það er hins vegar vandséðara hvernig Valur leysir Katie Cousins af hólmi en hún fór aftur til Þróttar þegar hún fékk óvænt ekki nýjan samning á Hlíðarenda. Eins fór Ísabella Sara Tryggvadóttir til Rosengård í Svíþjóð. Valur hefur hins vegar fengið fjóra leikmenn úr yngri landsliðunum í sinn hóp, tvær frá Stjörnunni og tvær úr Gróttu. Bakvörðurinn Hailey Whitaker fór til Kanada en fyrirliðinn Elísa Viðarsdóttir er nú með á ný frá byrjun tímabilsins.

Sterkari hópur Þróttar

Þróttur er samkvæmt spánni líklegasta liðið til að geta elt Breiðablik og Val og það verður mjög áhugavert að fylgjast með Þróttarliðinu í ár. Áðurnefnd Katie Cousins er til alls líkleg, Þórdís Elva Ágústsdóttir er komin frá Örebro í Svíþjóð og Unnur Dóra Bergsdóttir, fyrirliði Selfyssinga, styrkir líka hópinn. Þróttarar halda Mollee Swift markverði og Caroline Murray bakverði sem voru öflugar í fyrra og breiddin virðist meiri hjá liðinu en áður.

Svipað á Akureyri

Þór/KA er með mjög svipað lið og í fyrra en missti þó tvo erlenda leikmenn í haust þegar Lidija Kulis og Lara Ivanusa fóru til Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Markvörðurinn Jessica Berlin leysir þá þriðju, Shelby Money, af hólmi. Eva Rut Ásþórsdóttir, fyrirliði Fylkis í fyrra, er komin norður en Ísfold Marý Sigtryggsdóttir fór í Víking. Með Söndru Maríu Jessen áfram í aðalhlutverki og vaxandi hóp ungra leikmanna getur Akureyrarliðið áfram strítt toppliðunum á góðum degi.

Koma ekki aftur á óvart

Víkingar komu á óvart sem nýliðar í fyrra og náðu þriðja sætinu af Þór/KA í lokaumferðinni. Núna er liðinu spáð fimmta sæti en viðbúið er að baráttan um sæti þrjú til sjö geti orðið geysilega jöfn. Víkingar hafa fengið, auk Ísfoldar, þær Áslaugu Sigurbjörnsdóttur frá Örebro í Svíþjóð og Þórdísi Hrönn Sigfúsdóttur frá Val. Þær misstu hins vegar framherjann öfluga Shainu Ashouri til Kanada og Sigdís Bárðardóttir fór til Norrköping í Svíþjóð seint á síðasta tímabili.

Stjarnan bætir við

Stjarnan, sem varð að sætta sig við sæti í neðri hlutanum síðasta haust, hefur þétt raðirnar og m.a. fengið Jakobínu Hjörvarsdóttur og Margréti Leu Gísladóttur frá Breiðabliki. Hannah Sharts er farin og Sóley Edda Ingadóttir fór í Val. Finninn Vera Varis kemur frá Keflavík í markið í stað Erin McLeod sem fór heim til Kanada.

FH í uppbyggingu

FH er með marga efnilega leikmenn sem geta tekið næsta skref í ár og hópurinn hefur líka styrkst. Tvíburasysturnar Katla María og Íris Una Þórðardætur eru komnar frá Örebro og Þrótti, bandaríski varnarmaðurinn Deja Sandoval frá FHL og Maya Hansen á að leysa Breukelen Woodard af í framlínunni. Óvíst er þó að þetta dugi til að koma FH í hóp fimm efstu liðanna, sem yrði óvænt.

Reynsla á Sauðárkróki

Tindastóll hefur öðlast talsverða reynslu í efstu deild og leikur þar sitt fjórða tímabil á fimm árum eftir að hafa bjargað sér frá falli tvö ár í röð. Þar er til staðar öflugur kjarni heimakvenna en spurningin er hvernig nýju erlendu leikmennirnir fylla í skörð þeirra sem fóru. Sérstaklega hvort Jordyn Rhodes í sókninni og Monica Wilhelm í markinu verði leystar af hólmi.

Fyrsta sinn í 37 ár

Fram er í efstu deild í fyrsta sinn í 37 ár og liðið kom skemmtilega á óvart í 1. deildinni í fyrra. Fæstir búast við afrekum, enda er enginn afgerandi liðsauki kominn í Úlfarsárdalinn nema framherjinn Lily Farkas sem kom frá Fortuna Hjörring í Danmörku.

En styrkurinn er kannski helst sá að liðið heldur þremur mjög sterkum erlendum leikmönnum, Murielle Tiernan, Dominique Bond-Flasza og fyrirliðanum Mackenzie Smith.

Hvað gera Austfirðingar?

FHL, lið Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis, hafði óvænt mikla yfirburði í 1. deildinni í fyrra. Það var ekki síst að þakka Samönthu Smith og Emmu Hawkins sem fóru um miðjan ágúst þegar liðið var þegar komið upp í Bestu deildina. Deja Sandoval fór síðan í FH.

Austfirðingar hafa fengið fjóra erlenda leikmenn í þeirra stað, sem og Mikaelu Nótt Pétursdóttur, varnarmann úr Breiðabliki. Nær allir reikna með að FHL falli en nær ómögulegt er að átta sig á styrkleika liðsins fyrr en það mætir í fyrsta leikinn. Þetta er fyrsta Austurlandsliðið í deildinni í 31 ár.

Spá Morgunblaðsins og mbl.is í Bestu deild kvenna 2025

1 Breiðablik 197

2 Valur 181

3 Þróttur R. 138

4 Þór/KA 137

5 Víkingur R. 128

6 Stjarnan 105

7 FH 90

8 Tindastóll 50

9 Fram 46

10 FHL 28

Höf.: Víðir Sigurðsson