Knattspyrnumaðurinn Mohamed Salah er kominn langt með að samþykkja nýjan samning hjá enska félaginu Liverpool. The Times og The Guardian greindu frá því í gær að Salah og félagið hefðu loks komist yfir hjalla í samningaviðræðum sem ylli því að báðir aðilar væru nú bjartsýnir á að dvöl egypska markahróksins yrði framlengd.
Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handbolta, er í liði umferðarinnar í ungversku úrvalsdeildinni í handbolta hjá MF Sport-sjónvarpsstöðinni. Hornamaðurinn átti afar góðan leik fyrir Veszprém er liðið sigraði Gyöngyös 45:25 síðastliðinn föstudag. Bjarki Már var markahæstur á vellinum með tíu mörk og þurfti aðeins 11 skot til.
Enski knattspyrnumaðurinn Kyle Walker verður lengi frá keppni vegna meiðsla á olnboga. Walker er að láni hjá AC Milan á Ítalíu frá enska félaginu Manchester City. Walker þarf á aðgerð að halda vegna meiðslanna og félagið greindi frá því á vefsíðu sinni að sá enski yrði lengi frá en ekki var tekið fram nákvæmlega hve lengi.
Handknattleikskonan Anna Þyrí Halldórsdóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við KA/Þór sem tryggði sér sæti í úrvalsdeild að nýju með sannfærandi sigri í 1. deild í vetur. Anna Þyrí er 24 ára línu- og varnarmaður og er uppalin hjá KA/Þór. Hún hefur varla misst úr leik undanfarin sjö tímabil og hefur nú leikið 166 leiki í deild, bikar og Evrópu fyrir KA/Þór.
Knattspyrnukonan Laufey Björnsdóttir hefur tekið fram skóna á ný og leikur með Fylki í 1. deildinni á komandi tímabili. Laufey, sem er 36 ára, lék með Fylki á árunum 2008 til 2011 og einnig með Breiðabliki, Val, HK/Víkingi og KR og spilaði síðast einn leik með HK í 1. deild árið 2023. Hún er áttunda leikjahæst í efstu deild hér á landi frá upphafi með 249 leiki.
Sjö Íslendingar taka þátt í Evrópumeistaramótinu í götuhlaupum sem fram fer í Brussel og Leuven í Belgíu um næstu helgi. Kristján Svanur Eymundsson og Elín Edda Sigurðardóttir keppa í maraþonhlaupi, Arnar Pétursson og Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir í hálfu maraþoni og Andrea Kolbeinsdóttir, Hlynur Andrésson og Stefán Kári Smárason í 10 km hlaupi.