Sigurður Már Jónsson blaðamaður veltir því upp í pistli á mbl.is hvort alþjóðlega hælisleitendakerfið sé hrunið og virðist hallast að því, sem von er. Hann bendir á að gríðarlegur og vaxandi fjöldi sé nú á faraldsfæti í heiminum, á annað hundrað milljónir manna, sem hafi orðið til þess „að flest þau kerfi sem hafa verið reist utan um aðstoð og meðhöndlun fólks á hreyfingu eru sprungin“.
Hann bendir einnig á að gríðarlegur fjöldi hafi komið hingað til lands á liðnum árum án þess að tekið hafi verið á málum af þeirri festu sem sum önnur ríki hafi sýnt. Hann nefnir að í fyrra „hófu stjórnvöld í ýmsum Evrópuríkjum að loka landamærum sínum tímabundið þrátt fyrir að það stangaðist á við alþjóðlegar skuldbindingar þeirra. Pólland og Finnland samþykktu á síðasta ári lög sem heimiluðu landamæravörðum að neita hælisleitendum um landvist“.
Þetta rímar ágætlega við varnaðarorð Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, sem kallar eftir breytingu á lögum og auknu fjármagni til að sinna landamæraeftirliti, eins og fram kom í Dagmálum Morgunblaðsins í vikunni.
Lögreglustjórinn er með skýr skilaboð til stjórnmálamanna: „Við þurfum að vakna.“ Það er löngu tímabært.