Aðalbjörg Stefanía Ingólfsdóttir fæddist á Skjaldþingsstöðum, Vopnafirði í Norður-Múlasýslu 11. nóvember 1924. Hún lést á Hjúkrunarheimili Hrafnistu í Boðaþingi 31. mars 2025.

Foreldrar hennar voru hjónin Ingólfur Eyjólfsson, bóndi á Skjaldþingsstöðum, f. 8.10. 1877, d. 4.9. 1938, og Elín Salína Sigfúsdóttir húsmóðir, f. 10.11. 1889, d. 26.7. 1934.

Systkini Aðalbjargar Stefaníu voru Anna Sigríður, húsmóðir og saumakona, Reykjavík f. 16.9. 1917, d. 25.6. 2007; Örn, verslunarmaður, Höfn í Hornafirði, f. 1.2. 1919, d. 18.4. 1982; Guðrún, húsmóðir, Höfn í Hornafirði, f. 15.6. 1920, d. 14.7. 2004; Úlfur, verkamaður, Seyðisfirði, f. 24.2. 1922, d. 23.10. 2010; Sigurbjörg, f. 7.10. 1923, d. 23.2. 1925; Ingvi, tvíburi, bóndi á Melum í Fljótsdal, síðar Höfn í Hornafirði, f. 11.11. 1924, d. 21.6. 1995; Sesselja, húsmóðir, Reykjavík, f. 21.12. 1925, d. 25.5. 2014; Salvör Stefanía, húsmóðir, Mosfellsbæ, f. 17.9. 1927, d. 17.3. 2006, og Arnþór, yfirlögregluþjónn, Kópavogi, f. 15.2. 1933, d. 17.5. 2021.

Eiginmaður Aðalbjargar var Páll Lúthersson, f. 20.10. 1926, d. 25.5. 1981, klæðskeri og kristniboði. Börn þeirra eru: 1) Ingimar, f. 14.3. 1945, tónlistarmaður, Selfossi. 2) Elín, f. 11.2. 1949 leikskólakennari, maki Kornelíus Traustason, húsasmíðameistari, búsett í Kópavogi. 3) Arnbjörg, f. 17.3. 1951, húsmóðir í Kópavogi. 4) Lúther, f. 2.6. 1953, leigubílstjóri, maki Áslaug Hrólfsdóttir, búsett í Kópavogi. 5) Pála Björg, f. 7.10. 1957, húsmóðir, maki Kristján Egilsson, húsasmíðameistari, búsett í Vestmannaeyjum. 6) Páll Elfar, f. 27.11. 1962, prentsmiður og viðskiptastjóri, maki Sigrún Haraldsdóttir, verslunarstjóri, búsett í Hafnarfirði. 7) Sesselja Kristín, f. 28.7. 1965, móttökuritari, maki Pétur Hrafnsson, framkvæmdastjóri, búsett í Reykjavík.

Útför Aðalbjargar fer fram frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu í Reykjavík í dag, 11. apríl 2025, klukkan 15.

Hvað er hægt að segja um manneskjuna sem fæddi mann, hélt í hendina á manni þar til hún féll frá og síðan í hjarta manns það sem maður á eftir ólifað. Orðin „takk mamma“ virka einhvern veginn ekki alveg þannig að þau nái utan um tilfinningar og hugarþel og þó eru þau svo einföld, æðrulaus og ákveðin, rétt eins og mamma var. Þegar ég fer yfir sögu hennar og rýni í glæðurnar finn ég og sé glöggt að æska hennar var vörðuð áskorunum sem hún tókst á við með æðruleysi og einurð fyrst og fremst sem markaði viðhorf hennar fyrir lífstíð. Þegar hún ung greindist með berkla og fór á Kristneshæli í Eyjafirði þar sem hún stuttu síðar tók á móti móður sinni, sem einnig var komin með berkla, og fékk að kúra hjá á kvöldin og seinna kvaddi hana til að fara heim á Skjaldþingsstaði og sjá hana aldrei meir. Hvernig tekst níu ára stúlka á við slíkt? Ég spurði hana eitt sinn hvort þær mæðgur hefðu rætt það í einlægu samtali að sá möguleiki væri fyrir hendi að þær myndu aldrei sjást aftur. Eftir stutta stund svaraði hún neitandi, og ég spurði; af hverju ekki? – og svarið var einfalt en vísar eflaust í þess tíma þankagang: Það var ekkert að tala um – hvað átti að segja? – mig setti hljóðan og ég spurði aftur, hvað var það síðasta sem hún sagði við þig? – Hún sagði, ég bið að heilsa pabba þínum og berðu öllum heima kveðju frá mér.

Mamma var ekki kona margra orða, en hún var ákveðin, trú og hneigði sig gjarnan til þeirra sem aðrir sáu ekki eða gengu framhjá. Hún var kona orða sinna og hún sinnti fjölskyldu sinni, börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum af kostgæfni og lagði sitt af mörkum til að „allt væri í lagi hjá öllum“ eins og hún spurði gjarnan um þegar maður hitti hana. Og þannig spurði hún allt fram á síðasta dag. Þegar ég á sextánda ári átti tal við hana um nám þóttist ég þurfa að hvíla mig á slíku í að minnsta kosti eitt ár áður en ég myndi ákveða mig með framhaldið. Þá kom svipur á mína og ég heyrði allt sem hún sagði áður en hún sagði það. „Það kemur ekki til greina Palli minn – þú skalt læra og þú þarft ekkert árs frí til þess.“ – Þar með var það ákveðið og miðið tekið, og mikið sem ég hef oft verið henni þakklátur fyrir ákveðnina. Ég vissi að ekki þýddi að rökræða við hana því hún myndi ekki segja neitt – enda vissi hún betur en ég.

Eins og áður segir mun mamma halda í hjarta mitt það sem ég á eftir, rétt eins og þeir sem umgengust hana fundu að móðir hennar hélt í hjartað á henni allt fram í andlátið,

Í djúpum míns hjarta er örlítið
leynihólf innst

sem opnast af skyndingu þegar
mig varir minnst

og hugskotsins auga með undrun og fögnuði sér

eitt andartak birtast þar mynd
síðan forðum af þér.

(Jón Helgason)

Mamma: Takk fyrir að hafa fætt mig og klætt, fyrir að hafa alið mig upp í trú á Jesú Krist, í fyrirgefningu, náð, og að gera öðrum það sem ég vil að aðrir geri mér og fullvissu um að það er til eitthvað meira en ég sem ég stefni á og til. Þvílíkan kærleik og umhyggju fæ ég seint þakkað.

Þinn

Páll (Palli).

Elsku hjartans mamma mín.

Þú gengin ert hugglöð á
frelsarans fund

og fagnar með útvaldra skara,

þar gleðin er eilíf, þar grær
sérhver und.

Hve gott og sælt við hinn hinsta
blund

í útbreiddan faðm Guðs að fara.

Nú kveðja þig vinir með klökkva
og þrá

því komin er skilnaðarstundin.

Hve indælt það verður þig aftur
að sjá

í alsælu og fögnuði himnum á,

er sofnum vér síðasta blundinn.

(Hugrún)

Takk fyrir allt, elsku mamma mín.

Þín

Elín og
Kornelíus (Konni).

Adda amma. Orðin og merking þeirra er svo stór. Ætti eiginlega að vera með hástöfum. Amma sem sinnti okkur svo vel. Amma sem kom austur og norður, til að sinna fjölskyldunni. Eitt sinn spurði ég ömmu af hverju hún slakaði ekki á, hún væri nú í fríi. „Sonja mín, maður verður að vinna fyrir matnum sínum.“ Þá var hún líklega búin að þvo þvott, strauja, ryksuga, skúra, steikja kleinur eða gera fiskibollur … En leyfði sér eftir það að setjast út í sólina með kaffi (og nivea-krem) og prjóna. Þannig liðu dagarnir þegar Adda amma kom. Hún var ef til vill ekki margra orða en sýndi með umhyggju sinni ást sína og hlýju. Eitt af síðustu skiptunum sem ég hitti hana og sagði henni hver ég væri svaraði hún ansi kankvís: „Heldurðu að ég þekki þig ekki?“ en bætti svo við „þú ert orðin svo gömul“. Líklega hefur hún séð fyrir sér litlu Sonju. Akkúrat núna er ég hún. Litla Sonja.

Adda amma sem brosti svo blítt, sem missti foreldra sína svo ung, sem þurfti að hafa fyrir lífinu og ekkert var sjálfsagt. Áfallið þegar afi lést í slysi í Afríku. Alltaf hélt amma áfram, sinnti sínum, þar sem hvert og eitt barna hennar, barnabarna … fundu að þau skiptu máli.

Takk fyrir allt það sem þú kenndir mér, Adda amma mín. Takk fyrir þolinmæðina, væntumþykjuna og að láta mig finna að ég skipti máli. Hjá þér lærði ég svo margt, ekki bara að gera fiskibollur og steikja kleinur, þó svo ég hafi ekki ennþá náð tökum á að gera pönnukökur eða gert orð þín um nægjusemi nægilega vel að mínum. Þá er það allt sem sagt var og það sem ekki var sagt sem mun fylgja mér.

Góða ferð, amma mín, ég elska þig.

Sonja Dröfn Helgadóttir.