Kristófer Þorleifsson
Ég ritaði grein á Vísi hinn 25. mars sl. undir heitinu „Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í geðheilbrigðismálum?“, en tilefnið var boðun lokunar á Janusi endurhæfingu, sem veitt hefur læknisfræðilega og þverfaglega starfs- og atvinnuendurhæfingu frá árinu 2000 eða í 25 ár, með frábærum árangri. Markhópurinn hefur verið fólk á aldrinum 18-30 ára með alvarleg geðræn þroska- og hegðunarvandamál sem ekki hefur notið hæfingar eða endurhæfingar utan sjúkrahúsa annars staðar. Þetta er fólk með fjölþættan heilsuvanda.
Janus endurhæfing vinnur gegn og bætir starfrænar truflanir sem til eru komnar eftir sjúkdóma, slys og/eða áföll. Um er að ræða einstaklinga utan vinnumarkaðar. Markmið starfseminnar er að aðstoða viðkomandi til að komast í nám og/eða á vinnumarkaðinn og fyrirbyggja varanlega örorku. Hjá Janusi endurhæfingu hlýtur breiður hópur fólks fjölbreytta og einstaklingsmiðaða þjónustu sem hentar hans þörfum. Skjólstæðingar Janusar eru ungt fólk sem búið hefur við félagslega einangrun í langan tíma.
Hvað er sérstakt við Janus endurhæfingu? Hverjir eru skjólstæðingar hennar?
Skjólstæðingar Janusar endurhæfingar eru ungt fólk utan vinnu, náms og virkni sem eiga oft í erfiðleikum með að komast út úr herbergjum sínum eftir að hafa búið við félagslega einangrun í langan tíma. Ungt fólk sem er ekki tilbúið í hefðbundin atvinnutengd úrræði, þarf lengri tíma í endurhæfingu og meiri aðlögun.
Hver er árangurinn af þjónustunni?
Janus endurhæfing hefur veitt ungu fólki með fjölþættan vanda lífsnauðsynlega aðstoð. Að meðaltali síðustu þrjú ár hafa rúmlega 56% þeirra sem hafa lokið þjónustu hjá Janusi endurhæfingu farið í nám, vinnu eða virka atvinnuleit.
Hvað er sérstakt við Janus endurhæfingu?
Janus endurhæfing hefur 25 ára reynslu af því að þróa og aðlaga endurhæfingu að þörfum skjólstæðinga. Þjónustan er einstaklingsmiðuð, þverfagleg og samþætt. Hún er aðgengileg á einum stað, sem er algjört lykilatriði fyrir hópinn. Geðlæknir, iðjuþjálfar, sálfræðingar, félagsráðgjafar og fleiri sérfræðingar mæta mismunandi þörfum hvers og eins þannig að viðkomandi nái sem bestum árangri. Gott aðgengi að geðlækni undir sama þaki er lykilatriði. Löng bið er eftir tíma hjá geðlækni í heilbrigðiskerfinu. Hópurinn má ekki við slíkri bið.
Hver er munurinn á VIRK og Janusi endurhæfingu?
Virk er starfsendurhæfingarsjóður sem ber að styðja fólk til þátttöku á vinnumarkaði. Janus endurhæfing er hins vegar lífsbjargandi úrræði, geðendurhæfing sem aðstoðar viðkvæmustu ungmennin með fjölþættan vanda til virkni í samfélaginu. Það er mat fagfélaga og hagsmunasamtaka að ekki sé hægt að líkja þessum úrræðum saman.
VIRK starfsendurhæfingarsjóður virkjar fólk til atvinnu; Janus endurhæfing virkjar viðkvæman hóp til lífsins og vinnur að auknum lífsgæðum sinna skjólstæðinga. Virkjar fólk til sjálfsbjargar og sjálfstæðrar búsetu og kemur í veg fyrir dýra stofnanavistun.
Hvað eru stjórnvöld að gera?
Stjórnvöld hafa ákveðið að endurnýja ekki þjónustusamning við Janus endurhæfingu. Á sama tíma hafa stjórnvöld ekki raunhæfa áætlun um þjónustu við núverandi skjólstæðinga Janusar endurhæfingar né þau sem eru á biðlista eftir þjónustunni. Ekkert annað úrræði veitir sambærilega geðendurhæfingu.
Hvað segir samfélagið?
Fjölmörg fagfélög og hagsmunasamtök sem þekkja vel til þarfa hópsins sem Janus endurhæfing þjónustar telja þá stöðu sem blasir við unga fólkinu grafalvarlega þegar úrræðinu verður lokað 1. júní 2025. Þar á meðal eru Geðlæknafélag Íslands, Píetasamtökin, Iðjuþjálfafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Einhverfusamtökin, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagsráðgjafafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp og Þroskaþjálfafélag Íslands.
Hvatning til stjórnvalda
Tryggið áfram starfsemi Janusar. Ekkert sambærilegt úrræði er til. Skjólstæðingar Janusar eru fátæk ungmenni sem eru jaðarsett í samfélaginu og þurfa mikinn og góðan ramma svo þau nái viðunandi lífsgæðum. Meðferð Janusar dregur úr alvarleika geðrænna vandamála og dregur úr hættu á sjálfsvígum.
Höfundur er geðlæknir með áratuga starfsreynslu.