Björg Helgadóttir, verkefnastjóri samgangna hjá Reykjavíkurborg, heldur utan um tölur frá hjólateljurum sem staðsettir eru á 29 stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Ná tölur þar nokkur ár aftur í tímann og hefur verið stígandi síðustu ár.
Í fyrra var hins vegar samdráttur yfir sumarmánuðina júní, júlí og ágúst. Björg segir það líklegast skýrast af því að „síðasta sumar var hundleiðinlegt veður á suðvesturhorni landsins“. Jafnframt hafi veðráttan valdið því að fleiri voru erlendis yfir sumarmánuðina en árin á undan.
Vetrartölurnar gleðiefni
Hún segir tölur annarra mánaða hins vegar gleðiefni. Frá janúar til maí jókst fjöldi hjólandi frá 13% (í febrúar) í 45% (í apríl) og var aukningin yfir 30% í bæði janúar og maí. Samdrátturinn yfir sumarmánuðina var hins vegar 20%, þar af mest í júlí, eða um 25%. Át þessi munur upp fjölgunina mánuðina fyrir sumarið. Ber-mánuðurnir voru svo tæplega á pari við árið á undan, en helst fækkaði í nóvember, meðan hjólandi fjölgaði í september og október.
Það sem af er þessu ári hefur hjólandi einnig fjölgað, en tölur fyrir janúar og febrúar lágu fyrir þegar Hjólablaðið óskaði eftir þeim. Var þá 6% fjölgun í janúar frá því í janúar 2024 og um 22% í febrúar.
Þeim fjölgar sem hjóla allt árið
Björg segir þessa þróun að mörgu leyti jákvæða. Svo virðist sem þeim sem hjóla allt árið sé að fjölga og þar með þeim sem nýti hjól sem samgöngutæki til að ferðast til vinnu eða skóla. „Vetrarhjólreiðarnar eru að aukast. Það virðist ekki skipta máli þó að það sé vont veður á veturna, fólk er samt að hjóla,“ segir hún eftir að hafa farið ítarlega í gegnum tölurnar.
Eins og í fyrra segir Björg að hlutfallslega sé fjölgunin mest í úthverfunum eftir að hafa verið áður meiri eftir því sem komið var meira miðsvæðis í Reykjavík. Segir hún að þetta hafi verið sett í samhengi við framkvæmdir undanfarið í tengslum við samgöngusáttmálann, en lagðir hafa verið sér hjólastígar víða í ytri hverfum höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum.
„Það helst í hendur að þegar innviðir eru nógu góðir þá fer fólk að nota þá,“ segir Björg um þessa þróun.