Fundinum var ekki ætlað að koma fram með formlega stefnumótun sambandsins, en Björgvin Jónsson, framkvæmdastjóri HRÍ, segir að á fundinum hafi fjölmargt gagnlegt komið fram og að stjórn HRÍ hafi nú mikið af minnispunktum til að vinna með.
Eitt af því sem var þó ákveðið á fundinum og stjórn HRÍ hefur ákveðið að innleiða eru ný gildi sambandsins. Verða þau Metnaður, árangur og gleði. Björgvin segir að ekki sé tímabært að upplýsa á þessari stundu um þessar hugmyndir, en að meðal annars hafi verið rætt um einhvers konar fjölskylduviðburðarvinnu með ÍBR og ÍSÍ. Slíkt sé þó enn á byrjunarreit.
Björgvin segir að auk þess sé verið sé að leggja lokahönd á nýja afreksstefnu sambandsins, en hún mun gilda frá 2025 til 2028 og er væntanleg fyrir sumarið.
Aðalmarkmið næstu fjögur árin
Ljóst er að aukin áhersla verður lögð á að reyna að koma íslensku hjólreiðafólki á Ólympíuleikana, en í fundargerð Hjólreiðaþings (aðalfundar HRÍ) sem haldið var 1. mars kom meðal annars fram eftirfarandi: „Okkar aðalmarkmið næstu fjögur árin eru þau að finna einstaklinga sem hafa burði til að fara á og keppa á Ólympíuleikum í framtíðinni.“
Björgvin vísar til stefnu ÍSÍ í þessum efnum, en í afreksstefnu Íþróttasambandsins er meðal annars horft til þess að fjölga afreksfólki á efsta stigi íþróttagreina og skipa Ólympíuleikarnir þar einn stærstan sess. Þá kemur fram í reglum afrekssjóðs Íþrótta- og ólympíusambands Íslands að eitt helsta atriðið sem horft er til við úthlutun úr sjóðnum sé þátttökumöguleiki á Ólympíuleikunum.
Hann tekur þó fram að vegferðin að koma einhverjum á það stig að vera samkeppnishæfur á efsta stigi sé löng og ströng. Segir hann að áherslan til að byrja með verði að vera á að byggja upp einstaklinga á neðri stigum fyrst og taka svo hænuskref og byggja undir fyrri afrek hægt og rólega.
Dæmi úr fótboltanum
Nefnir Björgvin sem dæmi að hér áður fyrr hafi flestir fótboltamenn sem líklegir voru til afreka fyrst farið til Noregs eða Svíþjóðar að spila áður en þeir tóku næsta skref áfram, t.d. til Hollands og Belgíu og síðar til Ítalíu, Englands eða Þýskalands. „Þetta eru hænuskref og við þurfum að taka lítil og mörg skref frekar en eitt stórt,“ segir hann.
Nefnir hann þetta í samhengi við orð Conors hér til hliðar sem talar fyrir frekari þátttöku til að byrja með á minni mótum þar sem keppendur geta verið framarlega í stað þess að vera að keppa um að ná yfirhöfuð að klára keppni á efsta stigi.
Björgvin nefnir einnig að gaman væri að sjá frekari þátttöku Íslendinga á Norðurlandamótum, en undanfarin ár hafa nokkrir farið utan til þátttöku í slíkum mótum. Eitt vandamál sé þó og það er áhugi hjólreiðasambanda á Norðurlöndum á að halda slíkar keppnir og þannig er t.d. ekki enn búið að ákveða hvort slíkt mót í götuhjólreiðum eða fjallahjólreiðum verði í ár. Segir hann að aðeins sé ljóst hvar mótið í BMX og brautarhjólreiðum (e. Track cycling) verði.
Spurður hvort HRÍ hefði einhvern áhuga á að halda utan um slík mót á komandi árum segir Björgvin að það væri auðvitað draumur, en það sé þó ekkert í pípunum eins og staðan sé. „Ætli Norðurlandamót í gravel væri ekki einfaldast hér hjá okkur,“ segir hann þó.