Daníel Magnússon, kerfisstjóri og stóráhugamaður um fjallahjólreiðar, segir Mondraker-hjólin í Stormi þau allra bestu fyrir hjólaferðalag fjölskyldunnar. „Stormur er fjölskyldufyrirtæki sem býður upp á Mondraker-hjólin sem eru á meðal þeirra bestu í heiminum og hafa unnið til fjölda verðlauna fyrir frammistöðu, nýsköpun og gæði. Mondraker er fyrirtæki sem var stofnað í Alicante á Spáni og þó að aðaláhersla þeirra hafi verið á hjól fyrir fjallabrun hefur fyrirtækið verið að færa sig í að vera alhliða hjólamerki. Í dag er hægt að fá borgarhjól, götuhjól og hefðbundin rafmagnshjól frá Mondraker en þess má geta að fyrirtækið hefur verið leiðandi í þróun rafmagnshjóla og hefur átt góðu gengi að fagna á því sviði á Íslandi og víða um heiminn,“ segir Daníel sem hefur verið ráðgjafi í hjólamálum Storms frá upphafi.
„Stormur er, eins og margir vita, fyrirtæki sem sérhæfir sig í vélsleðum, buggy-bílum og fjórhjólum og er umboðsaðili fyrir Polaris á Íslandi. Guðmundur Skúlason framkvæmdastjóri fyrirtækisins hefur sjálfur mikinn áhuga á hjólreiðum og vildi stækka vöruúrvalið í fyrirtækinu á þessu sviði. Nú má því finna glæsilegt úrval af hjólum fyrir þá sem vilja það allra besta frá Mondraker. Við höfum verið mjög ánægð með viðtökurnar á þessari góðu viðbót og finnst okkur hjólin passa mjög vel inn í flóruna sem við höfum upp á að bjóða.“
Rafmagnshjólin eru komin til að vera
Daníel er ekki í nokkrum vafa um að rafmagnshjólin séu komin til að vera og að vinsældir þeirra muni bara aukast með árunum. „Við höfum lagt mikla áherslu á að bjóða upp á gott úrval af rafmagnshjólum og hefur gengið alveg hreint frábærlega vel að selja þau. Það er eins með rafmagnshjólin og rafmagnsbílana, það eru allir farnir að hugsa í þessa átt. Rafmagnshjólin okkar eru að mínu mati þau bestu á markaðnum. Þau eru mjög vönduð og góð. Hjólin eru með batterí og mótor og þegar þú stígur á pedalana geturðu ákveðið hversu mikla hjálp hjólið veitir þér,“ segir Daníel og bætir við að það séu fjórar stillingar á hjólunum. „Ecco-stillingin gefur þér smávegis hjálp, svo kemur næsta stig sem er Tour+, svo geturðu valið Emtb og Turbo sem hjálpar þér mjög mikið ef þú ert að hjóla upp erfiðar brekkur. Á rafmagnshjóli getur hinn venjulegi Íslendingur hjólað án þess að vera með lungun á stýrinu og notið umhverfisins jafnvel þó að verið sé að hjóla upp brekkur.“
Þeir sem velja rafmagnshjól í dag eru meðal annars einstaklingar sem velja bíllausan lífsstíl að sögn Daníels. „Oft eru það einnig fjölskyldur sem koma saman í verslunina okkar sem vilja eiga rafmagnshjól til að geta farið út að hjóla. Eins koma einstaklingar sem eru komnir af léttasta skeiðinu, sem hafa kannski ekki tíma eða orku til að hjóla eins mikið og þeir vilja og eru á þessum hefðbundnu hjólum en vilja skipta yfir í rafmagnshjól til að geta farið út að hjóla með fjölskyldunni og vinum.“
Með eitt stærsta verkstæði landsins
Daníel er á því að það sé mun ódýrara fyrir samfélagið og hlutfallslega hagkvæmt að leggja og viðhalda hjólastígum. „Það er ódýrara en að halda uppi heilbrigðiskerfinu en við sem erum dugleg að fara út að hjóla vitum hvað það gerir okkur gott heilsufarslega.“
Hvað er vinsælast í rafmagnshjólum núna?
„Vinsælustu rafmagnshjólin okkar eru fulldempuðu fjallahjólin (e. full suspension bike). Það eru hjól sem eru með dempara að framan og aftan sem mýkir undirlagið í ójöfnum. Þegar farið er niður erfiðar brekkur verður ekki víbringur í höndum og fótum þess sem hjólar. Þegar fólk er að kaupa sér hjól til að fara í vinnuna á skipta fram- og afturdempararnir ekki máli. Þá viltu fá þér hjól sem kemur þér á milli staða án þess að þú verðir löðursveitt, svo að ætli það sé ekki sannast sagna rétt að segja að alls konar hjól séu vinsæl núna enda hefur Mondraker upp á að bjóða alls kyns hjól í fallegum litum.“
Kosturinn við Storm er að mati Daníels að fyrirtækið er með eitt stærsta verkstæðið á landinu. „Hér starfa hámenntaðir einstaklingar í sínum greinum sem kunna að laga allt frá fjórhjólum að vélsleðum í rafmagnshjól. Vegna kunnáttunnar og fagmennskunnar fannst okkur kjörið að bæta við rafmagnshjólunum. Auk hjólanna er einnig ýmislegt annað í boði í Stormi fyrir hjólreiðafólk. Við erum með mjög áhugaverðan aukabúnað líka, svo sem hjálma fyrir hjól, bretti, fatnað, skó og treyjur svo eitthvað sé nefnt. Einnig erum við með olíur fyrir keðjur og þrifefni til að þrífa hjólin.“
Stormur stefnir einnig á að vera með allt sem tengist hjólreiðasportinu og veita bestu þjónustuna í kringum það.
Mikilvægt að velja rétta hjólið
Rafmagnshjól eru misþung. „Léttu rafmagnshjólin eru frá 19 kílóum og eru ætluð meira fyrir torfærur á meðan þyngri hjólin eru valin sem borgarhjól. Rafhlaðan í hjólunum er eins misjöfn þar sem léttari hjólin eru með 400 Wh rafhlöðu en við bjóðum einnig upp á rafmagnshjól með 800 Wh rafhlöðu. Þar að auki er hægt að fá viðbótarrafhlöðu sem gefur auka 250 Wh fyrir lengri ferðir.
Mondraker leggur gríðarlega mikla áherslu á vönduð hjól, þannig að vörumerkið er ekki endilega að keppast við að vera með einföldustu hjólin. Sem dæmi um þetta eru barnahjólin sem eru með vökvabremsum í staðinn fyrir bremsuvíra. Það gefur meiri bremsugetu. Þegar vír er í bremsum getur hægt og rólega komið ryð og drulla í hann og þá ná bremsurnar ekki sömu bremsugetu og áður. Við erum með hjól fyrir alla aldurshópa, í raun fyrir alla fjölskylduna. Við erum einnig með rafmagnshjól fyrir börn, bæði rafmagns sparkhjól og hefðbundin, sem hafa verið mjög vinsæl hjá okkur.“
Daníel segir mikilvægt að fá góða aðstoð við val á hjólum. „Viðskiptavinir okkar eru mestmegnis fjölskyldufólk og vanalega kemur öll fjölskyldan til okkar að kaupa hjól og við aðstoðum hvern og einn með hvað hentar best. Þá er fjölskyldan kannski að fara saman í útilegu, á Akureyri eða eitthvað annað um landið. Það er ótrúlega gaman að sjá alla fjölskylduna mæta saman, það er nefnilega kosturinn við reiðhjólið, það er svo fjölskylduvænt,“ segir Daníel Magnússon fjallahjólreiðamaður að lokum.