Stríðsfangi Annar af Kínverjunum tveimur sést hér í haldi Úkraínumanna.
Stríðsfangi Annar af Kínverjunum tveimur sést hér í haldi Úkraínumanna. — AFP/Leyniþjónusta Úkraínu SBU
Stjórnvöld í Kína hvöttu í gær „viðeigandi aðila“ til þess að forðast „óábyrgar yfirlýsingar“ um hlutverk Kínverja í Úkraínustríðinu. Var yfirlýsingu þeirra einkum beint að Volodimír Selenskí Úkraínuforseta, sem sagði í…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Stjórnvöld í Kína hvöttu í gær „viðeigandi aðila“ til þess að forðast „óábyrgar yfirlýsingar“ um hlutverk Kínverja í Úkraínustríðinu. Var yfirlýsingu þeirra einkum beint að Volodimír Selenskí Úkraínuforseta, sem sagði í fyrradag að minnst 155 kínverskir ríkisborgarar væru nú að berjast við hlið Rússa í Úkraínu.

Lin Jian, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, sagði í gær að Kínverjar hefðu hvorki hafið néð tekið þátt í „Úkraínukrísunni“, heldur væri landið hliðhollt því að leysa deiluna á friðsaman hátt. Þá ítrekaði hann tilmæli stjórnvalda til kínverskra ríkisborgara um að halda sig fjarri átakasvæðum og forðast þátttöku í hernaðaraðgerðum nokkurs aðila.

Selenskí sagði við blaðamenn í fyrradag að málið væri mjög alvarlegt og Rússland væri m.a. að auglýsa á samfélagsmiðlum eftir kínverskum málaliðum og að stjórnvöld í Peking væru þess meðvituð. Sagði hann svo á samfélagsmiðlum sínum að Úkraína liti á þátttöku kínverskra ríkisborgara í átökum á landsvæði Úkraínu sem tilraun til þess að víkka átökin út.

Úkraínuher handsamaði fyrr í vikunni tvo kínverska ríkisborgara, og hafa Úkraínumenn birt hluta af yfirheyrslum yfir þeim á netinu. Kemur þar m.a. fram að þeir hafi fengið greiðslu og rússneskan ríkisborgararétt í laun fyrir að taka þátt í stríðinu. Sagði annar þeirra að hann hefði aldrei svo mikið sem skotið af byssu áður en hann gekk til liðs við Rússaher.

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, sagði í gær að ekki væri rétt að halda því fram að Rússland væri að draga Kína inn í átökin. Sagði Peskov að Kínverjar væru „samstarfsmenn, vinir og félagar“ Rússa, sem hefðu alltaf tekið mjög hlutlausa afstöðu til stríðsins og Selenskí hefði rangt fyrir sér.

Kínversk stjórnvöld hafa til þessa ekki veitt Rússum hernaðarlegan stuðning, en vesturveldin hafa hins vegar sakað Kínverja um að veita Rússum efnahagslegan styrk. Hvíta húsið sagði í gær að fregnirnar af kínversku málaliðunum vektu áhyggjur, og að ljóst væri að Kínverjar ættu stóran þátt í að gera Rússum kleift að halda innrásinni áfram.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson