Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, tilkynnti í gær að sambandið hefði ákveðið að fresta gildistöku gagnaðgerða sinna gegn tollum Bandaríkjastjórnar í 90 daga, degi eftir að Trump tilkynnti 90 daga hlé á tollum umfram 10% á öll ríki nema Kína.
Von der Leyen sagði að ef samningaviðræður á milli ESB og Bandaríkjanna skiluðu ekki árangri yrði aftur gripið til gagnaðgerðanna. Þá sagði hún að undirbúningsvinna væri í gangi varðandi frekari gagnaðgerðir og að „allir valkostir“ væru enn á borðinu til þess að svara.
Hún fagnaði ákvörðun Trumps um að fresta gildistöku tollanna í sérstakri yfirlýsingu fyrr um daginn og sagði hana skref í að koma aftur á stöðugleika.