Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Reglulega eru sagðar fréttir af fjölda erlendra ferðamanna á Íslandi en eru þær réttar? Kann að vera að fjöldinn hafi verið ofmetinn?
Þessi spurning var borin undir Oddnýju Þóru Óladóttur, sérfræðing hjá Ferðamálastofu, en tilefnið er að erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað ört á Íslandi síðustu ár. Þessi ört vaxandi hópur er því hugsanlega að birtast í talningu á erlendum ferðamönnum í Leifsstöð.
Spurð hvaða áhrif brottfarir erlendra ríkisborgara sem búa á Íslandi hafi á þessa tölfræði og hvort endurskoða þurfi tölur síðustu ára með þetta í huga segist Oddný Þóra ekki telja það.
„Ferðamálastofa telur ekki tilefni til að endurskoða tölur síðustu ára, þar sem markmiðið með brottfaramælingum er fyrst og fremst að áætla þjóðernasamsetningu farþega. Ferðamálastofa hefur jafnan bent á þá annmarka sem fylgja þessari mælingu og útbúið í því samhengi ítarlegt lýsigagnaskjal.
Níu af hverjum tíu
Til að fá skýrari mynd af raunverulegum fjölda ferðamanna til landsins þyrfti að styðjast við enn ítarlegri gögn líkt og gert var á árunum 2017 til 2018, þegar kannanir voru gerðar til að meta vægi sjálftengifarþega og erlends vinnuafls í brottfaratalningum. Niðurstöður þeirra kannana bentu til þess að um níu af hverjum tíu brottförum væru ferðamenn sem heimsóttu Ísland í persónulegum eða viðskiptalegum tilgangi og dvöldu eina nótt eða lengur,“ segir Oddný Þóra.
Spurð hversu mikið þurfi hugsanlega að endurskoða tölurnar með þetta í huga segir hún að í ljósi þess hve erlendum ríkisborgurum með búsetu á Íslandi hafi fjölgað á undanförnum árum megi ætla að þeir hafi mælst tvöfalt fleiri í talningum á brottförum árið 2024 en árið 2017.
„Þess ber að geta að brottfaratalningar einar og sér gefa ekki fullnægjandi mynd af umfangi og áhrifum ferðaþjónustu. Til að fá heildstæðari yfirsýn er mikilvægt að horfa einnig til annarra lykilmælikvarða, svo sem gistináttaskráningar Hagstofunnar, niðurstaðna úr reglubundnum könnunum meðal ferðamanna og mælinga á útgjöldum þeirra. Dvalartími og útgjöld ferðamanna veita til að mynda mun betri vísbendingu um virði ferðamanna en einföld hausatalning farþega.“
Árið 2018 er enn metárið
En hvað skyldi þá vera eiginlegt metár í ferðaþjónustu hvað fjölda brottfara frá Keflavíkurflugvelli varðar?
„Miðað við framangreindar forsendur stendur ferðaárið 2018 enn sem metár í íslenskri ferðaþjónustu þegar litið er til fjölda brottfara erlendra farþega,“ segir Oddný Þóra.
Árið 2018 var mikið uppgangsár í ferðaþjónustunni. Sætaframboð hjá flugfélaginu WOW air átti sinn þátt í því. Félagið fór í þrot í mars 2019 og um ári síðar hófst kórónuveirufaraldurinn. Þessir atburðir birtast með skýrum hætti á grafinu hér fyrir ofan. Sjá má fækkun ferðamanna milli ára 2018 og 2019, eftir fall WOW air, og svo hrun í farsóttinni. Síðan hefur ferðamönnum fjölgað hratt aftur og á sætaframboð frá Play þátt í því.