Ríkisstjórn Kristilegra demókrata, CDU/CSU, og Sósíaldemókrata, SPD, hefur verið í burðarliðnum frá kosningunum í Þýskalandi í febrúar og gert er ráð fyrir að hún taki við fljótlega eftir páska. Í vikunni var stefna væntanlegrar stjórnar kynnt og þar má sjá töluverðar áherslubreytingar, enda SPD nú minni samstarfsflokkurinn og flokkur væntanlegs kanslara, Friedrichs Merz, hefur meira um stefnuna að segja.
Athygli vekur að væntanleg ríkisstjórn hyggst taka fastar á málefnum útlendinga og hyggst engan sveigjanleika sýna á landamærum Þýskalands. Heitið er samráði við nágrannaríkin en um leið kemur fram að landamærin verði varin þar til innflytjendareglur í Evrópu hafa verið lagfærðar.
Þá er ætlunin að gera átak í að losa landið við þá sem fengið hafa höfnun um beiðni um landvist og í þeim efnum verði gripið til tímabundinna fangelsisúrræða ef þurfa þyki. Þetta er mjög í anda þeirra breyttu viðhorfa sem víða má finna í Evrópu um þessar mundir þó að þau hafi ekki nema að takmörkuðu leyti náð hingað til lands.
Þá hyggjast ný stjórnvöld gera umtalsvert átak í varnarmálum, eins og raunar var þegar fram komið þegar þau létu fráfarandi þing rýmka heimildir til fjármögnunar. Ekki er farið leynt með að ætlunin er að standa gegn þeirri ógn sem stafar af Rússlandi og aðstoða Úkraínu við að hindra sókn þess. Um leið er lögð áhersla á þýðingu Atlantshafsbandalagsins og samstarfið yfir Atlantshafið.
Á efnahagssviðinu hyggst ríkisstjórn Merz ná árangri með því að draga úr skriffinnsku og lækka skatta. Boðuð er fimm prósenta lækkun skatta á fyrirtæki sem hefjist á árinu 2028. Þetta er afar ólíkt vinnubrögðum íslenskra stjórnvalda, annars vegar með því að breytingar eru ekki gerðar fyrirvaralaust og hins vegar að skattar eru lækkaðir en ekki hækkaðir.