Fréttaskýring
Matthías Johannessen
mj@mbl.is
Margir landsmenn telja hlutabréfamarkaðina sér óviðkomandi og einungis leikvang sérhæfðra fjárfesta. Staðreyndin er sú að þróun þeirra hefur í raun mikil áhrif á daglegt líf almennings. Á Íslandi, þar sem lífeyriskerfið byggist á fjárfestingum sjóða og lánskjör tengjast vöxtum og verðbólgu, skiptir ástand á mörkuðum máli fyrir flesta landsmenn jafnvel þótt þeir eigi ekki hlutabréf.
380 milljarðar hurfu af markaði á fáeinum dögum
Í vikunni þurrkuðust út um 380 milljarðar króna af markaðsvirði skráðra félaga á Íslandi á örfáum dögum. Markaðurinn hefur tekið við sér að hluta, en óvissa ríkir enn. Mikill hluti eigna íslenskra lífeyrissjóða er bundinn í hlutabréfum, bæði hérlendis og erlendis, og því hafa sveiflur bein áhrif á afkomu sjóðanna og þar með á framtíðartekjur almennings.
Við slíkar aðstæður getur þrýstingur aukist á Seðlabanka Íslands og lánastofnanir að endurskoða stýrivexti. Ef ótti um samdrátt eykst gæti komið til vaxtalækkana.
Á hinn bóginn getur verðbólguþrýstingur, meðal annars vegna hækkaðs hrávöruverðs eða tolla, leitt til hækkunar vaxta. Slíkar breytingar hafa áhrif á greiðslubyrði þeirra sem eru með húsnæðislán eða í fasteignakaupum.
Fyrirtækin bregðast við
Hlutabréfamarkaðir eru jafnframt mælikvarði á væntingar fjárfesta og fyrirtækja til framtíðar. Þegar markaðir falla dregur iðulega úr fjárfestingum og nýráðningum. Slíkt getur haft keðjuverkandi áhrif á atvinnuöryggi og launaþróun, auk þess að hægja á hagvexti.
Viðvarandi óstöðugleiki á mörkuðum hefur sömuleiðis áhrif á hegðun neytenda og fyrirtækja. Neysla dregst saman, sparnaður eykst og fyrirtæki verða varkárari í rekstri og fjárfestingum.
Viðskiptadeilur stórvelda á borð við Bandaríkin og Kína hafa einnig áhrif á almenning á Íslandi enda breytist öll aðfangakeðjan sem getur leitt til hærra innkaupsverð sem endurspeglast fljótt í hækkun smásöluverðs. Þetta á við raftæki, fatnað, bíla og jafnvel matvæli og snertir því beint heimili landsins.
Almenningur óbeinn þátttakandi
Flestir landsmenn eru óbeinir þátttakendur í markaðnum, ekki síst í gegnum lífeyrissjóðina. Hreyfingar á mörkuðum eru því ekki aðeins tölur sem færast upp og niður, úr grænu í rautt, á heimasíðu Kauphallarinnar, heldur mælikvarði á traust, væntingar og efnahagslegt öryggi þjóðarinnar.