Þeir Francesco D’Alessio og Giorgio Frattale hafa á undanförnum árum hjólað víða um heim og eru miklir áhrifavaldar þegar kemur að ævintýrahjólaferðamennsku.
Þeir Francesco D’Alessio og Giorgio Frattale hafa á undanförnum árum hjólað víða um heim og eru miklir áhrifavaldar þegar kemur að ævintýrahjólaferðamennsku. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjallað var ítarlega um þessa nýju leið í Hjólablaðinu í fyrra, en þá hafði undirritaður rekist á fjölda hjólara þegar svipuð leið var hjóluð og fékk staðfest frá skálavörðum og forsvarsmanni Ferðafélags Íslands að áhugi hjólaferðamanna á þessari leið hefði aukist mikið

Fjallað var ítarlega um þessa nýju leið í Hjólablaðinu í fyrra, en þá hafði undirritaður rekist á fjölda hjólara þegar svipuð leið var hjóluð og fékk staðfest frá skálavörðum og forsvarsmanni Ferðafélags Íslands að áhugi hjólaferðamanna á þessari leið hefði aukist mikið. Ekki er óvarlegt að áætla að nokkur hundruð ferðamenn hafi þegar hjólað þessa leið og að á komandi árum muni áhugi á henni aukast enn frekar. Mætti því tala um að nýr Laugavegur hjólaferðalangsins sé að fæðast.

Ítalirnir sem um ræðir heita Francesco D’Alessio og Giorgio Frattale, en þeir voru aftur mættir til Íslands seint síðasta sumar til að prófa nýja leið, en í þetta skiptið í kringum Langjökul. Hafa þeir þegar gefið út myndband af þeirri ferð og mun mögulega frekari ferðalýsing fylgja með síðar.

Hjólablaðið ræddi við þá Francesco og Giorgio þegar þessari nýju ferð þeirra var lokið og áður en þeir héldu af landi brott. Fóru þeir meðal annars yfir hvað varð til þess að tveir miðaldra Ítalir gerðu ferðahjólamennsku að aðalstarfi sínu, af hverju þeir völdu Ísland á sínum tíma og hvernig Iceland divide-leiðin kom til.

Fyrstu myndinni dreift á DVD

Félagarnir eru báðir frá bænum L‘Aquila í Appennínafjöllunum í miðhluta Ítalíu. Francesco segir að þeir hafi eignast sín fyrstu fjallahjól í kringum 1990 og að þeir hafi kynnst stuttu síðar. Það hafi þó ekki verið hjólin sem tengdu þá fyrst, heldur hittust þeir fyrst sem veggjalistarmenn (e. graffiti). Eftir aldamótin gerðu þeir svo sína fyrstu fjallahjólamynd saman og fékk hún dreifingu víða um heim á DVD-diskum.

Það var svo árið 2013 sem hugmyndin um Montanus fór af stað, en það er nafnið sem þeir koma fram undir þegar þeir senda frá sér allt efni þegar kemur að hjólaferðamennsku. „Við byrjuðum verkefnið á réttum tíma, þegar „bikepacking“ var að springa út,“ segir Francesco.

Eftir nokkrar ferðir um fjallahéruð Ítalíu var komið að fyrstu ferðinni erlendis og völdu þeir að fara um fjallveginn White Rim í Utah-ríki í Bandaríkjunum. Er það rúmlega 110 km leið í Canyonlands-þjóðgarðinum, en Colorado-áin rennur þar meðal annars í gegn. Á þeim tíma var Giorgio vanur ferðalögum, en Francesco sagðist litla reynslu hafa af þeim. „Þetta var fyrsta alvöru ferðin mín. Þrír dagar í eyðimörk og með sjö lítra af vatni á mann,“ segir hann hlæjandi og bætir við að þarna sé mikið af villtum dýrum og skemmtilegt svæði. „En svo fór að snjóa og veginum var lokað og við vorum held ég einir þarna inni.“ Þeir gátu þó klárað ferðina og ljóst var að ferðabakterían hafði heltekið þá og ekki varð aftur snúið.

„Fór að ferðast til að hjóla“

Næst á dagskrá voru ferðalög um Eistland og Sviss, nokkrar ferðir um mismunandi fjallgarða á Ítalíu og Patagóníu í Suður-Ameríku. „Hjól breyttu lífi mínu, því ég fór að ferðast til að hjóla,“ segir Francesco um þessar fyrstu stóru ferðir þeirra félaga.

Það var svo árið 2018 sem þeir ákváðu að koma í sína fyrstu ferð til Íslands og segir Francesco að þeir hefðu viljað koma á stað þar sem þeir gætu verið einir í náttúrunni og tekið á móti hráum náttúruöflunum.

Þrátt fyrir að þeir séu báðir í fínu líkamlegu formi segir Giorgio að aðalundirbúningurinn fyrir stórar ferðir eins og þessa sé andlegur undirbúningur. „Þetta snýst ekki bara um hversu marga kílómetra maður fer á hverjum degi eða slíkt,“ segir hann.

Aðalvinna þeirra í dag

Hlutirnir hafa talsvert breyst fyrir þessa tvo Ítali á síðasta áratugnum, en þegar þeir voru að byrja með Montanus voru þeir í fullri vinnu sem grafískir hönnuðir. Í dag segja þeir að stór hluti vinnu þeirra felist í því að ferðast, taka upp efni og vinna það, dreifa efninu á samfélagsmiðlum og eiga samskipti við styrktaraðila.

Er þetta þá full vinna hjá ykkur?

„Við vorum fyrst að vinna 100% sem grafískir hönnuðir, en í dag er sú vinna kannski 25% en 75% í þessu verkefni [Montanus],“ segir Francesco. Fá þeir greitt frá ýmsum styrktaraðilum og með efni á samfélagsmiðlum, en þeir segjast reyna að fara allavega í 2-3 stórar ferðir á hverju ári til að búa til efni.

Stóð alltaf til hjá ykkur að verða framleiðendur á svona efni?

„Nei aldrei, þetta byrjaði sem grín en svo er þetta lífið núna,“ segir Giorgio hlæjandi. Francesco bætir við að þetta hafi í raun byrjað að flæða hægt og rólega eins og lækur en orðið stærra og stærra og sé í dag stór á fyrir þá. „En þetta sameinar áhuga okkar á hjólreiðum, ljósmyndun og hönnun og svo getum við unnið við þetta,“ segir Giorgio.

Kjósa frekar breiðari dekk

Þegar þeir komu 2018 og fóru leiðina sem síðar fékk nafnið Iceland divide mættu þeir á breiðhjólum (e. fatbike). Nú í síðara skiptið þegar þeir fóru í kringum Langjökul voru þeir aftur á móti á fjallahjólum með 2,6“ breiðum dekkjum, sem sagt nokkuð minni dekkjum en áður.

Spurðir hvort þeir kjósi frekar breiðhjól eða fjallahjól til að ferðast á Íslandi stendur ekki á svörum. Breiðhjól, segja þeir báðir, en Francesco tekur fram að þó að slík hjól séu aðeins hægari á malbiki og vel pökkuðum fjallvegum þá fljúgi þau eiginlega yfir sandvegi og verstu ófærur.

„Það gengur upp að vera á 2,6“ en það má ekki vera minna,“ segir Giorgio. Blaðamaður verður að vera ósammála honum, enda hefur hann nokkra reynslu af að ferðast um hálendið á 2,25“ fjallahjóli og á 40-45 mm malarhjóli, og hafa þær ferðir alla jafna gengið nokkuð vel, þó að það fari auðvitað eftir undirlagi hverju sinni. Giorgio tekur fram að það auki talsvert þægindin og auðveldi það að þeir þurfi að hjóla með talsverðan aukabúnað þegar kemur að myndatöku. „Svo er mottóið okkar að kanna afskekkta staði,“ segir Francesco. „Þá er betra að vera á breiðari dekkjum.“

Ísland ekki hluti af jörðinni

Eins og margir aðrir sem ferðast hafa um hálendið eiga þeir Giorgio og Francesco erfitt með að lýsa aðdáun sinni á hálendinu og upplifun sinni þar. „Ísland er ekki eins og hluti af jörðinni,“ segir Giorgio. „Ég get dáið glaður núna eftir að hafa upplifað allt þetta,“ bætir hann hlæjandi við.

Báðir segja þeir að allir viðkomustaðir þeirra á leiðinni hafi verið mjög áhugaverðir á sinn hátt. Það verður þó fljótt ljóst að tveir kaflar eru þeim efst í huga. Annars vegar kaflinn í kringum Kistufell, norðan Vatnajökuls, og svo Mælifellssandur, norðan Mýrdalsjökuls.

Fyrir ferðina sögðust þeir sérstaklega hafa verið spenntir fyrir umhverfinu norðan Vatnajökuls, en Francesco segist hafa lesið sér til um komu bandarískra geimfara til að undirbúa ferð sína á tunglið. Þá hafi eldfjallaáhugi einnig ýtt undir spennu þeirra fyrir ferðinni og segir Francesco að andstæðurnar í náttúrunni, milli svartra eða dökkra lita og græns litar mosa eða grass, sé eitthvað sem hann fái ekki nóg af og vísar sérstaklega til Mælifells á Mælifellssandi í því samhengi.

„Við nutum hvers kílómetra af leiðinni,“ segir Francesco, áður en hann hugsar sig aðeins um og segir að reyndar hafi þeir ekki notið síðustu kílómetranna á malbikinu á hringveginum að Vík, en fyrir utan það hafi ferðin verið fullkomin. Þá nefna þeir að það hafi verið ótrúlega gaman að hjóla niður af hálendinu [Sprengisandi] á breiðhjóli og þurfa helst að hafa áhyggjur af bremsunum. „Við þurftum að stoppa nokkrum sinnum og hvíla hendurnar,“ segir Giorgio.

Mikill fjöldi fylgir í hjólförin

Eins og fyrr segir hefur ferðalag þeirra fyrir sjö árum heldur betur ýtt af stað bolta þegar kemur að áhuga annarra hjólaferðamanna. Ræddi Hjólablaðið í fyrra við einn þeirra sem höfðu fundið leiðina og ákveðið að hjóla hana, auk þess að hafa sumarið 2023 rekist á nokkra á Sprengisandi sem voru hálfnaðir á leiðinni. Var það samhljóða ástæða allra að umfjöllun Montanus hefði vakið áhuga þeirra og ýtt þeim af stað og var ástæðan ekki síst sú að leiðin fær hæsta erfiðleikastig á síðunni.

Ef leitað er á Youtube má enda í dag finna nokkurn fjölda myndbanda af fólki að fara þessa sömu leið, eða leiðina með afbrigðum. Í flestum tilfellum er um þrekraun að ræða fyrir fólkið, en í einhver skipti hafa viðkomandi jafnvel þurft að játa sig sigraða ef veður hefur verið válynt.

Sjálfir lentu þeir Giorgio og Francesco í stormi daginn sem þeir voru á leið um Fjallabak að Álftavatni og þurftu að reiða hjólin stóran hluta dagsins. „Ég hef aldrei lent í slíkum stormi áður, en þetta sýnir krafta náttúrunnar,“ segir Francesco. „Maður þarf að finna fyrir náttúrunni á eigin skinni.“

Hann grínast svo með það að mesta hræðslan í augum Giorgio á þessum tímapunkti hafi ekki verið vegna veðursins sjálfs, heldur vegna þess að þeir áttu að vera komnir heim tímanlega þar sem Giorgio átti að giftast verðandi konunni sinni nokkrum dögum eftir heimkomuna.

„Fór langt fram úr okkar væntingum“

Spurðir út í fyrrnefndan áhuga annarra ferðamanna á að fylgja í hjólför þeirra félaga með að hjóla Iceland divide og hvort þessi áhugi hafi komið á óvart segir Francesco að þeir hafi alltaf átt von á einhverjum viðbrögðum. „En þetta fór langt fram úr okkar væntingum.“

Nefnir Francesco að árið 2023 hafi hann komið aftur til Íslands með kærustunni sinni. Það hafi bara verið hefðbundin ferð og þau ekki á hjólum. Voru þau stödd í Vík í Mýrdal, þar sem leiðin endar formlega, og þar var einn maður á hjóli að klára. „Hann kom til mín og spurði mig hvort ég væri Francesco,“ segir hann og skellir upp úr.

Frá Íslandsheimsókninni 2018 hafa þeir félagar haldið uppteknum hætti og ferðast víða um heiminn í leit sinni að áhugaverðum ævintýrahjólaleiðum. Þeir fóru meðal annars til eyjunnar Socotra fyrir utan Jemen árið 2023, nokkrar styttri ferðir um Ítalíu og aftur til Patagóníu og þar um 550 km leið umhverfis nokkur eldfjöll. Þá fóru þeir til Kirgistan og ætluðu þar að búa til nýja leið, en lentu í mjög slæmu veðri á leið upp í 4.000 metra hæð og ákváðu að hætta við.

Fjöldi verkefna eftir

Spurðir af hverju þeir hafi ákveðið að koma aftur í fyrra til Íslands og fara í kringum Langjökul segja þeir að tvennt hafi komið til greina. Annars vegar að fara aftur til Kirgistan og klára leiðina þar eða til Íslands, enda sé aðdráttaraflið frá Íslandi mjög sterkt. Það hafi á endanum sigrað og ekki síst vegna þess að þeir hafi viljað sýna að það væru margar fleiri áhugaverðar leiðir á Íslandi en bara Iceland divide. „Það er fullt af stöðum til að skoða,“ segir Francesco.

En hver eru þá næstu verkefni? „Mögulega að klára Kirgistan, eða að fara aftur til Suður-Ameríku,“ segir Giorgio.

Spurðir að lokum hvort þeir séu að lifa drauminn með því að vinna við að ferðast á þennan hátt svara þeir því játandi. Þeir taka báðir fram að fyrir 10-15 árum hafi þá aldrei grunað að þeir myndu enda á þessum stað. Það sem fyrst var lítið hliðarverkefni hafi undið verulega upp á sig og sé núna aðalstarfið. Giorgio tekur þó fram að það felist umtalsverð vinna í að geta staðið í þessu, fyrir utan ferðirnar sjálfar. Mikil vinna sé í vinnslu efnisins, framsetningu og dreifingu á samfélagsmiðlum. Svo séu samskipti við styrktaraðila og tengd vinna sem taki mikinn tíma. Það sé þó allt þess virði fyrst þeir geti ferðast svona um heiminn.