Thelma fæddist í Reykjavík 25. maí 1936. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 27. mars 2025.

Foreldrar hennar voru Grímur Bjarnason pípulagningameistari, f. á Stokkseyri 23.6. 1902, d. 22.10. 1971, og Helga Ólafsdóttir, f. í Reykjavík 29.3. 1916, d. 23.4. 1970. Hálfbróðir Thelmu er Guðmundur Muggur Guðmundsson, f. 1941, maki Anna Lind Jónsdóttir, f. 1953.

Thelma giftist 31. janúar 1958 Einari Grétari Þórðarsyni rafverktaka, f. 17.12. 1933, d. 30.4. 2017. Foreldrar hans voru Sigríður Jónsdóttir saumakona, f. 1909 í Varmadal Mosfellssveit, d. 1995, og Þórður Björnsson prentari, f. 1904 í Reykjavík, d. 1971.

Börn Thelmu og Einars eru: 1) Jóhanna Thelma, prófessor við Háskóla Íslands, f. 8.6. 1958, gift Gunnari Þór Bjarnasyni sagnfræðingi, f. 1957. Synir þeirra eru: a) Bjarni Þór, f. 1980, sambýliskona Marie Guilleray, f. 1978. Börn þeirra eru Evan, f. 2013, og Thelma Anaïs, f. 2019, b) Einar, f. 1986, sambýliskona Ragna Gréta Eiðsdóttir, f. 1995. Sonur þeirra er Skarphéðinn Guðni, f. 2022, og c) Jóhann Helgi, f. 1994, sambýliskona Kristrún Hulda Sigurðardóttir, f. 1996. 2) Grímur rafmagnstæknifræðingur, f. 3.1. 1962, kvæntur Heidrun Hoff kennara, f. 1964. Dætur þeirra eru: a) Gréta, f. 1991, sambýlismaður Clemens Kanonier. Sonur þeirra er Anton Grímur, f. 2024, og b) Freyja, f. 2000. Grímur og fjölskylda eru búsett í Þýskalandi.

Thelma ólst upp í Reykjavík, gekk í Austurbæjarskólann en dvaldi mörg sumur í sveit í Hreppunum. Hún stundaði nám við Húsmæðraskólann á Blönduósi einn vetur og var eftir það í nokkra mánuði í London við enskunám. Hún starfaði við Landsbankann í rúmlega þrjá áratugi, lengi sem þjónustustjóri í Vesturbæjarútibúi bankans, og var mjög virk í starfi Oddfellowreglunnar. Thelma tók þátt í störfum Astma- og ofnæmisfélagsins og sat um árabil í stjórn SÍBS. Einnig átti hún um tíma sæti í stjórn Vatnsvirkjans. Eftir að Thelma gekk í hjónaband bjó hún alla sína tíð á Seltjarnarnesi, þar af í ríflega hálfa öld á Miðbraut 13 þar sem þau hjón reistu sér myndarlegt einbýlishús. Þegar Einar eiginmaður hennar lést árið 2017 flutti hún á Hrólfsskálamel 4.

Útför Thelmu fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 11. apríl 2025, og hefst athöfnin kl. 13.

Thelma var tengdamóðir mín í nærri hálfa öld, órjúfanlegur partur af tilveru minni. Betri tengdamóður hefði ég vart getað eignast. Við náðum alla tíð ákaflega vel saman, kunnum að meta hvort annað. Og hún var einhvern veginn sínálæg, alltaf til taks þegar á þurfti að halda með þeirri hlýju sem stafaði frá henni. Það var svo gott að umgangast hana, svo notalegt andrúmsloft í kringum hana.

Síðustu þrjú eða fjögur árin voru reyndar stundum erfið. Þá var hún þrotin að heilsu og oftar en einu sinni við dauðans dyr. Alltaf reis hún þó upp aftur, þar til nú, slíkur var lífsviljinn. En þegar kom að leiðarlokum var hún reiðubúin að kveðja þetta líf.

Mér var strax tekið opnum örmum þegar ég fór að venja komur mínar á Miðbrautina, heimili Thelmu og Einars, tengdaföður míns heitins. Ég var þá í menntaskóla, hafði kynnst dóttur þeirra á skólaballi og kolfallið fyrir henni. Miðbrautin varð fljótt annað heimili mitt og það var eftirminnilegt að kynnast þeim góða og létta anda sem þar ríkti. Thelma hélt um alla þræði og töfraði fram ljúffengan mat. Fyrir mér var sumt af því sem hún bar á borð alger nýjung og stundum var mér það ráðgáta hvernig hún færi eiginlega að því að elda svo góðan mat, að því er virtist oft með svo lítilli fyrirhöfn.

Ég á tengdamóður minni margt að þakka og margar dýrmætar minningar um samverustundir, ekki bara hér heima á Íslandi þegar fjölskyldan kom saman heldur einnig á ferðalögum erlendis – í Noregi, Þýskalandi og Frakklandi, á Ítalíu og Spáni og víðar. En þakklátastur er ég henni þó fyrir það hve hún var sonum mínum þremur góð amma. Hún lét sér óendanlega annt um þá. Það er í raun alveg ómetanlegt. Og þeim þótti líka óumræðilega vænt um ömmu Thelmu.

Thelma var glæsileg kona, óvenjufalleg og eftirminnileg öllum sem henni kynntust. Hún var einstaklega félagslynd og aldrei leið henni betur en þegar hún hafði fólk í kringum sig, helst sem flesta, hvort heldur það voru góðir vinir eða fjölskyldan. Rómuð voru samkvæmin sem hún hélt, þá leiddist henni ekki. Hún skilur eftir sig stóra eyðu í lífi okkar sem vorum henni nátengd. Blessuð sé minning hennar.

Gunnar Þór Bjarnason.

Það eru hlutir

sem eru eins og akkeri í tíma.

Eins og Thelma

sem fyrir mér var svo lengi

hluti af Íslandi og Miðbraut 13.

Eins og Thelma

sem stóð í eldhúsinu

í morgunslopp

og bakaði handa okkur

skonsur og pönnukökur.

Eins og Thelma

sem alltaf stóð

á meðan við sátum

við kringlótta eldhúsborðið

og spjölluðum.

Það eru hlutir

sem eru eins og akkeri í tíma

og haldreipi í minningum okkar.

Eins og Thelma

sem fór samviskusamlega

í vinnuna alla virka daga

í blárri dragt

og á háhæluðum skóm.

Eins og Thelma

sem fór úr húsi á kvöldin,

óaðfinnanlega klædd

eins og hefðarfrú

í svörtum samkvæmisklæðnaði

og með hárið fallega uppsett.

Það eru hlutir

sem eru eins og akkeri í tíma.

Öll árin sem ég hef ferðast

til Íslands urðu þeir að vana.

Eins og Thelma

sem talaði,

eins og ekkert væri sjálfsagðara,

íslensku við mig

með sinni rólegu rödd

og studdi mig

í að læra tungumálið.

Eins og Thelma

sem sat inni í stofu

og beið eftir okkur

þegar við komum

eftir flugferðina frá Þýskalandi.

Eins og Thelma

sem einnig varð „amma Thelma“

fyrir vini mína og nána ættingja.

Það eru hlutir

sem eru eins og akkeri í tíma.

Eins og minningarnar um Thelmu

sem aldrei munu glatast alveg

og einnig búa innra

með okkur ómeðvitað.

Það eru hlutir sem breytast ekki,

akkeri fyrir mig, fyrir okkur öll.

(Heidrun Hoff)

Heidrun Hoff.

Frá því ég man eftir mér hefur amma alltaf verið stór hluti af mínu lífi. Öll þau matarboð á Miðbrautinni, þar sem hún galdraði fram hverja krásina á fætur annarri og við fjölskyldan mættum í, eru ógleymanleg. Alltaf var mikið hlegið og líf og fjör í kringum ömmu, enda var hún sannkallað partíljón sem hafði alltaf í nógu að snúast.

Ég á margar æskuminningar af dögunum sem hún kom til að taka á móti mér eftir skóla, oftast búin að kaupa eina ostaslaufu – því hún vissi hversu góðar mér þætti þær. Ég hugsa hlýtt til þessara vikulegu samverustunda okkar, því á þeim tíma kenndi hún mér ýmsar lífslexíur sem ég hef enn með mér og tileinka mér enn í dag.

Hún var bæði kærleiksrík og full af ást, en hikaði aldrei við að segja sína skoðun á málunum. Sérstaklega á síðari árum sínum þar sem hún var ekki hrædd við að segja mér til syndanna þegar ég var í einhverjum tilraunum með hárið á mér.

Ég geymi allar þessar dýrmætu minningar um hana í hjarta mér. Það verður skrýtið að venjast lífinu án hennar og ég mun sakna hennar sárt. Samtímis finn ég fyrir miklu þakklæti yfir að hafa átt hana að sem ömmu í öll þessi ár.

Jóhann Helgi Gunnarsson.

Margar af mínum fyrstu minningum tengjast elsku ömmu Thelmu og Miðbrautinni sem mér þótti svo vænt um sem barn. Ég man að mér fannst amma alltaf svo fín, svo vel tilhöfð, falleg og sjarmerandi. Á svona aðeins hærra plani en konurnar í Þýskalandi þar sem ég bjó þá.

Á nesinu var alltaf skemmtilegt, í minningunum er alltaf sól, sem fór ömmu svo vel, þar var líka fjör og gaman. Ég man hvað var gaman að sitja með ömmu, hlusta á djass eða Frank Sinatra, drekka kók í gleri og kíkja í pottinn. Skemmtilegast fannst mér að fá að gista einn, horfa á spólur og vera með ömmu, sem vildi allt fyrir mann gera.

Amma Thelma passaði mig oft og hafði sérstakt lag á að láta manni finnast maður einstakur. Mér þótti mjög gaman að heimsækja hana í Landsbanka Vesturbæjar. Þar var mikið um að vera og átti ég það til að koma í óundirbúnar heimsóknir til að fá að upplifa það allt saman. Ég man svo vel hvað hún naut sín vel í bankanum, var miðpunktur athyglinnar enda alltaf algjör stjarna í margmenni.

Mér fannst fátt skemmtilegra en að fá að vera aðeins með ömmu Thelmu og gera eitthvað bara við tvö. Kíkja á flottan stað, eða smá í búðir eða hlusta á tónlist og njóta lífsins, kjafta og hlæja saman. Amma Thelma var svo mikil félagsvera, alltaf svo skemmtileg, hlýleg og góð vinkona.

Amma sýndi fjölskyldunni ótrúlega athygli, mikla og innilega ást. Hún var sannkallað ættarhöfuð og tengdi alla saman. Þær voru mjög skemmtilegar ferðirnar sem við fórum saman og sérstaklega minnisstætt þegar hún kom að heimsækja mig og mína fjölskyldu hér í Hollandi. Amma vildi sem mest vera með og gera vel við sína og ég man að við táruðumst nú smá saman í símann þegar ég sagði henni að ég hefði skírt dóttur mína Thelmu, í höfuðið á elsku ömmu minni.

Ég, Marie, Evan og Thelma komum öll í heimsókn síðasta haust þar sem okkur langaði mest að fá að njóta þess að vera með ömmu Thelmu og vera sem mest saman. Við áttum frábæran tíma, rólegar stundir öll saman og Thelma litlu fannst, eins og okkur öllum, mjög gaman að heimsækja ömmu sína, fá kókómjólk og sýna henni allt það sem hún var að föndra. Mér þótti mjög vænt um það og líka hversu góð amma var alltaf við Evan.

Þó fannst mér reyndar ekki síðri þær stundir þegar Marie tók börnin og ég sat áfram einn með ömmu. Við töluðum saman, sögðum sögur, þá langt fram á kvöld, og náðum einstöku sambandi eins og við alltaf gerðum. Þannig vil ég muna eftir henni og er þakklátur fyrir allar þær ótrúlega fallegu stundir sem við áttum saman. Ég sakna þín elsku amma Thelma og þakka þér fyrir alla þá fegurð og hamingju sem þú hefur fært okkur.

Bjarni Þór Gunnarsson.

„Það er fæddur Einar með Thelmusvip!“ þegar þú hringdir heim til Íslands í desembermánuði 1986 til þess að tilkynna fjölskyldunni heima að allt hefði gengið vel. Frá fyrsta degi í mínu lífi varst þú til staðar fyrir mig. Alla ævi hef ég getað leitað til þín þegar eitthvað bjátar á – og það verður erfitt að geta það ekki lengur.

Ég er ótrúlega þakklátur fyrir allar þær stundir sem við áttum saman. Tíminn sem ég varði sem barn á Miðbrautinni, eða Sælgætisnesi eins og ég kallaði það, er mér enn í fersku minni. Þrátt fyrir að vikulegu heimsóknirnar hafi borið nafnið afadagar lékst þú ekki minna hlutverk þar. Tuttugu árum síðar tók ég þá frábæru ákvörðun að þiggja boð þitt um að búa hjá ykkur – „árið hjá ömmu“ kallaðir þú það – og sagðir að ég myndi alltaf muna eftir þeim tíma, sem ég og geri.

Frá upphafi leitaði ég alltaf til þín. Vorið 2002 þegar ég þurfti að fagna með einhverjum eftir að hafa fengið úr samræmdu prófunum hringdi ég að sjálfsögðu í þig og við keyrðum niður Laugaveginn þann blíðviðrisdag, að sjálfsögðu með ís í hendi. Og þegar ég laumaði því að þér hvað ég vildi skíra son minn sagðir þú á vikufresti: „Ætlið þið virkilega að kalla hann Skarphéðin!“ Þú lást aldrei á skoðunum þínum og það var alltaf hægt að ganga að því vísu að þú segðir það sem þér fyndist, sem var alltaf einn af þínum bestu kostum.

Það er vitavonlaust að ætla að þylja upp allar þær stundir sem við höfum átt saman. Ég er ótrúlega þakklátur fyrir þig og mun sakna þín ótrúlega mikið.

Takk fyrir allt sem við höfum átt.

Einar Gunnarsson.

Ég sakna þín elsku amma. Ég sakna þess að sjá þig með fínt silfurarmband og perlufesti, með trefil, belti og í hælaskóm. Þú varst yfirleitt í hvítum, bleikum eða svörtum fötum og „ekki úr ull, því það fer í nefið á mér“ sagðir þú.

Ég sakna þín að setja á þig varalit og við syngjum „Hún er að fara á ball“ en þú varst kannski bara á leið í sund eða í Oddfellowhúsið.

Ég sakna þegar við vorum að fá okkur kaffi í Kringlunni og þú heilsaðir svo mörgum á leiðinni að maður komst ekki áfram í búðina. „Að fara í Kringluna með ömmu er eins og að fara í Kringluna með poppstjörnu,“ sagði systir mín.

Ég sakna þess að þú lánir mér gylltu skóna sem mér fannst svo flottir: „Ég keypti þá á Kanarí“ sagðir þú. Ég sakna þess að þú fáir þér „gammel“ sem ég keypti fyrir þig í fríhöfninni: „Stundum er mér svo flökurt,“ sagðir þú.

Ég sakna þegar við förum í bíltúr og keyrum fram hjá Miðbrautinni og golfvellinum á bíl merktum einkanúmerinu „Thelma“.

Ég sakna að taka „selfie“ af okkur báðum saman og þú segir: „Ég er eins og amma Jóhanna. Þegar amma Jóhanna var orðin gömul lét hún „aaaaaaldrei“ taka mynd af sér.“

Ég sakna þín að lesa Moggann í eldhúsinu, standandi og hallandi með aðra löppina uppi á tá eins ég geri líka stundum, hugsa ég.

Að lokum sakna ég þess elsku amma að þú segir eftir símtal að þér finnist svo vænt um mig.

Þín

Gréta Thelma.

Elsku Thelma frænka. Þú hefur alla tíð verið mér einstaklega kær og haft djúpstæð áhrif á líf mitt. Það er erfitt að ímynda sér lífið án þín.

Í hjarta mínu geymi ég margar dýmætar minningar. Á æskuárum mínum var alltaf svo notalegt að koma í heimsókn til ykkar Einars frænda á Miðbrautina. Þar var alltaf hlýlegt andrúmsloft, nóg af nammi og svo auðvitað bestu kótilettur í heimi. Á þessum árum hafðir þú gert það að hefð að bjóða mér í Kringluna á afmælinu mínu og dekra við mig. Þá keyptirðu það sem mig langaði í, sem oftar en ekki voru heilu dressin. Mér fannst ég svo heppin.

Ég man líka hvað mér þótti gaman að skoða skartgripina þína og snyrtivörur. Við deildum þessum áhuga. Þú spurðir mig oft hvaða varalit ég væri með og hvort ég gæti ekki keypt einn fyrir þig líka, sem ég gerði svo gjarnan. Það var viðeigandi að við Thelmurnar værum í stíl.

Mér hefur alltaf fundist þú svo falleg og glæsileg kona. Þú hafðir einstakan smekk, hvort sem það var í því hvernig þú lagðir á borð, klæddir þig eða skreyttir heimilið. Allt sem þú gerðir bar með sér þennan glæsibrag sem einkenndi þig. Þegar ég held veislur hugsa ég til þín, nota dúkana og borðbúnað sem þú hefur gefið mér í gegnum tíðina, og ímynda mér hvernig þú hefðir gert þetta.

Af þínum mörgu kostum stóð þó upp úr hvað þú varst hlý og góð. Þú varst alltaf með mér í liði, vildir vita hvað væri í gangi hjá mér og drengjunum mínum. Þú varst með allt á hreinu hvað við fjölskyldan vorum að eiga við hverju sinni.

Takk fyrir öll einlægu og djúpu samtölin okkar, takk fyrir að leiðbeina mér í lífinu og hvetja mig áfram í öllu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Þú átt stórt pláss í hjarta mínu, ég ber nafnið þitt með stolti og mun ávallt heiðra minningu þína elsku frænka mín.

Thelma Guðmundsdóttir.

Í dag kveðjum við Thelmu frænku okkar sem hefur verið stór og góður hluti af lífi okkar systkinanna frá því við fæddumst. Thelma var elst af ellefu systkinabarnahópi, sem eru afkomendur hjónanna Jóhönnu Hróbjartsdóttur og Bjarna Grímssonar.

Þessi hópur hefur ætíð verið samheldinn og það má segja að sumarbústaður stórfjölskyldunnar við Grafarbakka hafi aukið á þá samheldni. Thelma hefur haldið vel utan um þennan hóp og stuðlað að því að stórfjölskyldan hittist. Það var núna síðast um miðjan febrúar sem hún bauð hún okkur heim og þar áttum við góða stund saman en þá var Thelma mjög hress og naut þess að vera með okkur. Það verður vissulega skrítið að hafa hana ekki lengur í hópnum og hennar verður saknað.

Thelma var sterk og dugleg kona. Hún mætti þeim áskorunum sem líf hennar bauð upp á með það í huga að yfirvinna þær og gefast aldrei upp. Thelma var vinamörg og stóð með sínum vinum. Hún gat verið stjórnsöm en einstaklega hlý og góð þeim sem stóðu henni næst. Hún tók virkan þátt í félagsstarfi hinna ýmsu félaga og sat m.a. í stjórn sumra þeirra. Thelma hafði vandaðan smekk og var annt um að vera alltaf vel til höfð. Hún hafði mjög gaman af því að halda veislur og vildi vera þar sem fjörið var. Hún hugsaði mjög vel um föðursystkini sín og sinnti þeim af einstaklega mikilli alúð. Samband hennar og móður okkar, Elínar Bjarnadóttur, var mjög náið. Það má segja að þær hafið verið meira eins og systur en frænkur enda bara 15 ár á milli þeirra. Þær voru ólíkar að eðlisfari en nutu þess að hittast og studdu vel hvor aðra í gleði og sorg.

Við systkinin eigum öll margar minningar um Thelmu frænku, mismunandi eftir því á hvaða aldri við erum. Hún fylgdist vel með okkur og okkar afkomendum af miklum áhuga. Þá var auðvelt og gott að leita til hennar með ráð og greiða.

Hún og Einar og börn þeirra, Jóhanna og Grímur, tengdust lífi okkar á margan hátt í leik og starfi. Ótal samverustundir á Miðbrautinni í heimsóknum og veislum, á sumrin í sumarbústaðnum okkar auk Goðagleðinnar sem haldin var um árabil.

Elsku Jóhanna, Grímur og fjölskyldur, við samhryggjumst ykkur innilega. Elsku Thelma hvíl í friði.

Bjarni, Ólafur Örn,
Jóhann og Ólína Elín,
Ellu og Eyjólfsbörn.

Athvarf hlýtt við áttum hjá þér

ástrík skildir bros og tár.

Í samleik björt, sem sólskinsdagur

samfylgd þín um horfin ár.

Fyrir allt sem okkur varstu

ástarþakkir færum þér.

Gæði og tryggð er gafstu

í verki góðri konu vitni ber.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar

hjartkær lifir minning þín.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Hvíl í friði elsku Thelma.

Anna Lind og Muggur.