Lokamótið Leikmenn íslenska landsliðsins í handbolta fagna sætinu á lokamóti heimsmeistaramótsins í leikslok á Ásvöllum í Hafnarfirði í gærkvöldi.
Lokamótið Leikmenn íslenska landsliðsins í handbolta fagna sætinu á lokamóti heimsmeistaramótsins í leikslok á Ásvöllum í Hafnarfirði í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tryggði sér í gærkvöldi sæti á þriðja stórmótinu í röð er liðið sigraði Ísrael í umspili heimsmeistaramótsins með sannfærandi hætti annað kvöldið í röð á Ásvöllum

Á Ásvöllum

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tryggði sér í gærkvöldi sæti á þriðja stórmótinu í röð er liðið sigraði Ísrael í umspili heimsmeistaramótsins með sannfærandi hætti annað kvöldið í röð á Ásvöllum. Ísland vann tíu marka sigur í gær, 31:21, og einvígið samanlagt með 22 marka mun, 70:48.

Ísland fékk boðssæti á HM 2023, hafnaði í öðru sæti síns riðils í undankeppni EM 2024 og vann umspilið við Ísrael sannfærandi. Það hefur verið skemmtilegt að sjá upprisu íslenska liðsins síðustu ár en Ísland komst ekki á eitt einasta stórmót frá 2013 til 2022.

Íslenska liðið hefur náð fjölmörgum afrekum undanfarin ár og það næsta hlýtur að vera að komast í milliriðla á HM en Ísland rétt missti af sæti í milliriðlum árið 2023. Að lokum vann liðið Forsetabikarinn og varð í efsta sæti þeirra liða sem ekki komust í milliriðla. Fyrsti sigurinn á lokamóti EM var unninn á síðasta ári og nú er komið að því að ná lengra en síðast á HM.

Góð frumraun Ingu

Margir ungir leikmenn nýttu tækifærið vel og þær Inga Dís Jóhannsdóttir, Alfa Brá Hagalín og Alexandra Líf Arnarsdóttir skoruðu allar sín fyrstu landsliðsmörk í einvíginu. Inga spilaði sérlega vel í gær. Þeim ísraelsku fannst hún eflaust óþolandi sem fremsti leikmaður í vel heppnaðri 5-1-vörn og þá skoraði hún tvö góð mörk sömuleiðis.

Leikurinn í gær var jafn framan af, eða þar til Ísland skipti um varnaruppstillingu og Ísraelar réðu illa við það. Hinum megin mallaði sóknarleikurinn ágætlega, margir leikmenn fengu að spila og flestir komust á blað. Leikurinn á miðvikudagskvöldið var betur leikinn en þá var grunnurinn lagður og var leikurinn í gær formsatriði.

Furðulegar aðstæður

Sigur Íslands í einvíginu var aldrei í hættu. Íslenska liðið er mun sterkara og það sást. Leikirnir voru fagmannlega afgreiddir af góðu íslensku liði, í furðulegum aðstæðum.

Eins og fjallað hefur verið um síðustu daga voru engir áhorfendur leyfðir á leikjunum. Mikil löggæsla var meðan á þeim stóð og mótmælendur fjölmenntu fyrir utan Ásvelli. Tókst þeim að trufla fyrri leikinn með því að banka á dyr keppnissalarins.

Í gær komu löggæslumenn í veg fyrir slíkt en hróp og köll heyrðust greinilega inn á völlinn. Leikmönnum var væntanlega brugðið en þeir afgreiddu verkefnið virkilega vel. Þær sýndu styrk og eiga sætið á lokamótinu svo sannarlega skilið.

Nú þarf Alþjóðahandknattleikssambandið að spyrja sig hvort það sé réttlætanlegt að Ísrael fái að vera með í keppni sem þessari. Eins og sást í einvíginu setur það andstæðinginn í óþægilega og hreinlega ósanngjarna stöðu. Leikmenn eru hvattir til að sniðganga leikinn og lið missa forskotið á að vera á heimavelli þar sem áhorfendur eru ekki leyfðir, svo fátt eitt sé nefnt. Það eru allir fegnir að þetta einvígi sé búið.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson