Drjúgur Dedrick Basile lék vel fyrir Tindastól og skoraði 20 stig og gaf sjö stoðsendingar er Stólarnir sópuðu Keflvíkingum í sumarfrí.
Drjúgur Dedrick Basile lék vel fyrir Tindastól og skoraði 20 stig og gaf sjö stoðsendingar er Stólarnir sópuðu Keflvíkingum í sumarfrí. — Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Deildarmeistarar Tindastóls unnu öruggan sigur á Keflavík, 100:75, í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik á Sauðárkróki í gærkvöldi. Tindastóll sópaði Keflavík þannig í sumarfrí með því að vinna einvígið samanlagt 3:0 og fer í undanúrslit

Körfubolti

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Deildarmeistarar Tindastóls unnu öruggan sigur á Keflavík, 100:75, í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik á Sauðárkróki í gærkvöldi.

Tindastóll sópaði Keflavík þannig í sumarfrí með því að vinna einvígið samanlagt 3:0 og fer í undanúrslit.

Stigahæstur í leiknum var Sadio Doucouré með 21 stig og 11 fráköst fyrir Tindastól. Dedrick Basile bætti við 20 stigum og sjö stoðsendingum.

Hjá Keflavík var Jaka Brodnik stigahæstur með 16 stig og sjö fráköst. Skammt undan var Ty-Shon Alexander með 14 stig og átta stoðsendingar.

Grindavík þarf einn sigur

Grindavík gerði þá frábæra ferð á Hlíðarenda og lagði ríkjandi Íslands- og bikarmeistara Vals að velli, 86:75, í þriðja leik liðanna.

Grindavík leiðir nú 2:1 í einvíginu og getur tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri á eiginlegum heimavelli sínum í Smáranum í Kópavogi í fjórða leik á mánudag á meðan Valur mun reyna að knýja fram oddaleik.

DeAndre Kane skoraði 23 stig og tók tíu fráköst fyrir Grindavík. Daniel Mortensen bætti við 18 stigum og 15 fráköstum.

Joshua Jefferson var stigahæstur í leiknum með 28 stig fyrir Val og Kristinn Pálsson var með 21 stig.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson