Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Það er alveg skýrt að það er bundið í umferðarlög að hreyfihamlaðir eiga ekki að greiða fyrir að leggja í bílastæði,“ segir Bergur Þorri Benjamínsson, formaður málefnahóps um aðgengi hjá ÖBÍ réttindasamtökum. Hann bætir við að rekja megi sögu baráttu hreyfihamlaðra um rétt til undanþágu gjalds vegna bílastæða til áttunda áratugar síðustu aldar, og þótt rétturinn sé þeirra megin sé ennþá verið að reyna að koma þessum málum í eðlilegt horf.
„Þegar þessi myndavélakerfi komu í kringum 2020 fórum við að reka okkur strax á það að það væru brögð að því að hreyfihamlaðir væru rukkaðir fyrir að leggja í stæði, og allt kerfið virtist vera frekar flókið. Það er þó alveg skýrt að hvort sem það er bílastæðasjóður, bílastæðahús, Harpa, Isavia eða önnur stæði eiga hreyfihamlaðir samkvæmt lögum að vera undanþegnir gjaldskyldu.“
Borgin og bílastæðafyrirtæki
Bergur segir að frá árinu 2021 hafi ÖBÍ réttindasamtök staðið í ströngu við að reyna að fá eitthvert eðlilegt ferli í bílastæðamál hreyfihamlaðra. „Til að byrja með brást borgin illa við og síðan er það á endanum borgarlögmaður sem kveður upp úr með að lögin séu alveg skýr og það sé ekki heimild fyrir gjaldtöku, hvort sem um sé að ræða sérmerkt bílastæði eða gjaldskyld bílastæði.”
Sem dæmi um flækjustigið sem hreyfihamlaðir þurfa að kljást við þarf að hringja í t.d. Hörpu og Isavia með tveggja daga fyrirvara áður en þeir geta lagt í bílastæðin þar, að sögn Bergs. „Það hlýtur að vera hægt að finna lausn, sem felur ekki í sér símtöl og samskipti áður en hægt er að leggja í bílastæði. Þetta er eins og að bjóða fólki að nota gamla sveitasímann sem flestum hlýtur að þykja fáránlegt á okkar tímum.“
Fyrirspurn til innviðaráðherra
Bergur segir að þótt borgaryfirvöld og bílastæðafyrirtækin séu loksins meðvituð um stöðu mála sé erfitt að finna góða lausn sem sé einföld og skilvirk til að skrá inn bíla hreyfihamlaðra hvar sem þeir leggja. Málið hafi verið tekið fyrir hjá umboðsmanni Alþingis og fyrirspurnir lagðar fyrir Alþingi, og Bergur bætir við að Reykjavíkurborg ásamt bílastæðafyrirtækjunum reyni nú að finna lausnir.
Núna síðast lagði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, fram fyrirspurn um hvort innviðaráðherra ætlaði að beita sér fyrir því að hreyfihamlaðir gætu lagt bílum sínum gjaldfrjálst í gjaldskyld bílastæði og hvernig það skyldi útfærast.
Þá spurði Vilhjálmur hvort sýslumenn ættu að veita innheimtuaðilum aðgang að P-merkjaskrá svo að hreyfihamlaðir fengju ekki sendar greiðslukröfur.
„Það er til stafrænt stæðiskort. Ef þú opnar island.is-appið þitt þá ertu þar með ökuskírteini, nafnskírteini, vegabréf, sjúkratryggingakort og bílastæðamerki, og við skiljum ekki af hverju það er ekki hægt að tengja þetta stafræna stæðiskort við upplýsingakerfi bílastæðafyrirtækja. Ég sé þetta fyrir mér sem mjög einfalt. Er viðkomandi með stæðiskort? Ef svarið er já, þá fær viðkomandi ekki rukkun, en ef svarið er nei fær hann rukkun.“
Bergur segir að ÖBÍ hafi leitað til Magna lögmanna, sem hafi skrifað sýslumanni höfuðborgarsvæðisins bréf þar sem málið er reifað og þá sérstaklega með tilliti til þess að þeir sem reka bílastæðafyrirtæki eigi í erfiðleikum með að tryggja réttindi handhafa stæðiskorta, þar sem gagnagrunnur með upplýsingum um handhafa kortanna sé þeim ekki aðgengilegur. Bréfið var sent 27. mars sl. og óskað eftir svari fyrir 18. apríl.
„Við vonumst til að fá jákvætt svar frá sýslumanni svo að þetta komist loksins í lag og er sannarlega tími til kominn.“