Haukur Marteinsson
Haukur Marteinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við bændur höfum ekkert með nýliðunarstuðning að gera ef afkoman er ekki í lagi, sagði Ásta Flosadóttir, bóndi á Höfða í Grýtubakkahreppi í Eyjafirði. Á fundum á Breiðumýri lýsti hún áhyggjum af félögum sínum í bændastétt og sagði eins og fleiri að núverandi búvörusamningar væru undirfjármagnaðir

Við bændur höfum ekkert með nýliðunarstuðning að gera ef afkoman er ekki í lagi, sagði Ásta Flosadóttir, bóndi á Höfða í Grýtubakkahreppi í Eyjafirði. Á fundum á Breiðumýri lýsti hún áhyggjum af félögum sínum í bændastétt og sagði eins og fleiri að núverandi búvörusamningar væru undirfjármagnaðir. Forsendur hefðu brugðist fljótlega eftir samþykkt.

„Auðvitað er óþolandi að þurfa að ganga betlandi til ríkisins þegar eitthvað kemur upp á í búrekstrinum,“ sagði Ásta. Hún vísaði þar til þeirra stuðningsgreiðslna sem bændur fá nú frá ríkinu vegna óveðursins sem gekk yfir norðanvert landið í júníbyrjun í fyrra og olli víða skaða. Afkoman ætti að vera þannig að bændur gætu tekið áföll á kassann. Hún gagnrýndi einnig harðlega hve langan tíma afgreiðsla þessara mála hefði tekið í stjórnkerfinu; fólk væri með málin hangandi yfir sér lengi og úrvinnslan væri því erfið og tæki á sálina.

Ásta nefndi enn fremur að þegar búrekstur gengi illa héngi margt á spýtunni og málin væru flókin. Vinnuálagið á bændum væri gríðarlegt. „Þegar kúabú fer á hausinn er öll fjölskyldan undir og fólk fer niður úr öllu gólfi af áhyggjum og heilsa brestur,“ sagði bóndinn á Höfða.

Mikilvægt er að afurðastöðvar í kjötframleiðslu hafi svigrúm til sameiningar, sagði Haukur Marteinsson, bóndi á Kvíabóli í Köldukinn. Starfsskilyrði hér þurfa að vera sambærileg og í nágrannalöndunum, enda er samkeppni innanlands í vaxandi mæli við útlönd. „Á íslenskum örmarkaði verðum við að mega grípa til hagræðingar,“ sagði Haukur.

Bótagreiðslur sem bændur mega nú vænta vegna óveðursins í fyrra sagði Haukur þakkarverðar. „En það er drepleiðinlegt og ekki gott fyrir neina atvinnugrein að geta ekki tekist á við áföll nema til komi opinber stuðningur. Við verðum að ná okkur út úr þeirri umræðu að við séum bótaþegar og ölmusufólk,“ sagði bóndinn á Kvíabóli í Kinn.