Stefanía Rannveig Stefánsdóttir fæddist 2. júlí 1932 í Sandgerði. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum 29. mars 2025.

Foreldrar hennar voru hjónin Þórunn Anna Lýðsdóttir, skólastjóri og handavinnukennari í Sandgerði, f. 1. desember 1895, d. 1. mars 1984, og Stefán Jóhannsson, vélstjóri í Sandgerði og Reykjavík, f. 1. október 1899, d. 24. nóvember 1996.

Systkini Stefaníu eru Sigrún, f. 23. ágúst 1926, d. 15. mars 2007, Hólmfríður, f. 31. júlí 1928, d. 23. desember 2018, Ólafur, f. 26. júlí 1930, d. 24. mars 2021, og Jóhanna Hlíf, f. 4. september 1936.

Dóttir Stefaníu og barnsföður hennar, Erhards Böer, f. 5. febrúar 1929, d. 19. janúar 2019, er Þórunn Anna, f. 28. maí 1957. Hennar maður er Finnur Torfi Magnússon, f. 5. júní 1952. Dóttir þeirra er Stefanía Katrín Jónína, f. 9. febrúar 1996, og er sambýlismaður hennar Breki Pálsson.

Eftir skyldunám í grunnskólunum í Sandgerði og Garði fór Stefanía til náms við héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði og lauk hún landsprófi þaðan árið 1947. Síðan vann hún í eitt ár hjá Garði í Sandgerði við skrifstofustörf til að geta kostað nám við Menntaskólann á Akureyri. Þar hóf hún nám haustið 1949 og útskrifaðist svo með stúdentspróf úr stærðfræðideild 1953. Eftir stúdentspróf vann hún á skrifstofu Íslenskra aðalverktaka á Keflavíkurflugvelli þar til hún haustið 1954 hélt til náms í Münster í Vestur-Þýskalandi þar sem hún stundaði nám í lífeindafræði við háskólann þar í borg og útskrifaðist í september 1956.

Stefanía starfaði sem lífeindafræðingur á rannsóknarstofu Landspítalans frá janúar 1958 og síðan á ísatópastofu spítalans þar til hún lauk farsælu ævistarfi þar 1994.

Útför hennar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 11. apríl 2025, klukkan 13.

Stella frænka var systir mömmu sem kölluð var Súa. Súa var elst, svo komu Hólmfríður, Óli, Stella og Jóhanna. Þau ólust upp í Sandgerði þar sem afi og amma byggðu Sunnuhvol, reisulegt hús og var þeirra heimili en ég var lítil stelpa þegar afi og amma fluttu til Reykjavíkur þar sem þau eyddu seinni árum ævinnar. Afi Stefán var vélstjóri og amma Þórunn kennari.

Stella gekk menntaveginn og var góður nemandi, varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri fyrir rúmum 70 árum og fór svo til náms í Þýskalandi í lífeindafræði. Eftir námið kom hún heim og vann sinn starfsferil á Landspítalanum, að ég held, við mjög góðan orðstír.

Stella var einstök frænka sem ég var mjög heppin að eiga að. Hún var alltaf áhugasöm og fylgdist vel með og það var hægt að sitja hjá henni löngum stundum og spjalla um allt milli himins og jarðar. Hún var mjög klár í kollinum og með ákaflega gott minni. Það kom fyrir að ég stríddi henni á þessu góða minni og sagði að hún væri grobbin en það féll nú ekkert í sérlega góðan jarðveg. Hún gaf mér alltaf afmælisgjöf og vildi helst fá að mæta í kaffiboð á afmælisdeginum. Jólagjafirnar voru á sínum stað, alltaf vel heppnaðar og fallegar. Fyrir nokkrum árum spurði ég Stellu hvort við ættum ekki að fara hætta þessu gjafaveseni enda sjálf komin vel á miðjan aldur og fannst kannski bara nóg komið. En hún svaraði „nei, ekki meðan mín nýtur við“. Hún fylgdist alltaf vel með jólabókaflóðinu og spekúleraði heilmikið í hver ætti að fá hvaða bók og hverjar henni litist vel á.

Þegar fréttist af andláti Stellu sagði bróðir minn „hún Stella var alltaf svo góð við alla, fyrirmyndarmanneskja“ sem eru orð að sönnu. Hún hafði alltaf mikinn áhuga á okkur systkinunum, barnabörnum og barnabarnabörnum mömmu og pabba. Spurði alltaf frétta og kunni nöfn allra, fylgdist vel með öllum og gaf þeim gjafir.

Nú þegar þessi kynslóð er smátt og smátt að kveðja er margt sem ég á eftir að sakna. Í gegnum sögurnar hennar Stellu kynntist ég stórfjölskyldunni minni og lífi hennar í gamla daga, dyggðum eins og hógværð, nægjusemi og þakklæti. Stundum var lífsbaráttan krefjandi, berklafaraldurinn hafði áhrif á þessa fjölskyldu eins og svo margar á þessum tíma en lítið var verið að velta sér upp úr því. Lífið var líka skemmtilegt og þær systur fylgdust vel með tískunni og saumuðu jafnvel skvísupils eða blússu eftir myndum úr tískublöðum. Og nýtnin var mikil. Þessar sögur og fleiri hafa haft áhrif á okkur sem á eftir koma og skapað góðar minningar um gott fólk.

Ég á eftir að sakna Stellu frænku. Blessuð sé minning hennar.

Hólmfríður Garðarsdóttir.

Stefanía er ein af þeim fyrstu sem menntuðu sig á sviði lífeindafræði, en hún lærði í Münster í Þýskalandi 1954-1956 og hóf störf á Landspítalanum 1958. Hún starfaði þar á rannsóknarstofu í blóðmeinafræði, meinefnafræði og síðar á ísótopastofu.

Hún var þannig í forystusveit þeirra lífeindafræðinga sem mótuðu starfið á rannsóknarstofu Landspítalans.

Upp úr 1970 hófst starfsemi á ísótópastofu Landspítala, innan rannsóknardeildarinnar, og þar er hún í forsvari sem lífeindafræðingur. Þær rannsóknir voru af allt öðrum toga og þurfti hún að þjálfa sérstaklega upp þá lífeindafræðinga sem þar komu til starfa. Stefanía leiddi þessa starfsemi til ársins 1992 þegar hún lét af störfum en eftir það stundaði hún nám í þýsku og þýskum bókmenntum í Háskóla Íslands.

Hún var frábær samstarfskona. Hún var einstaklega natin og bóngóð og hafði alltaf svör á reiðum höndum. Ávallt var hægt að leita til hennar með ýmis vandamál, þar á meðal stærðfræðilega útreikninga, sem léku í höndunum á henni.

Stefanía var afskaplega skipulögð og með stálminni. Hvort tveggja eiginleikar sem gerðu hana að einstökum starfskrafti en hún var afar minnug á fólk og gat flett upp í huga sér sjúklingum og tilvikum greininga. Hún kenndi okkur sem unnum með henni ekki bara allt um ísótópa heldur var hún líka snillingur í höndunum, í hvers kyns útsaumi, og kenndi okkur líka á því sviði.

Eftir að hún lét af störfum hélst vináttan alla tíð og hittumst við reglulega í gegnum árin.

Við minnumst Stefaníu með mikilli hlýju, virðingu og þakklæti.

Erna Gunnarsdóttir og
Sigurbjörg Sigurðardóttir.