Jón Óli er þekktur fyrir hversu vel honum gengur að byggja upp samfélag í kringum Reiðhjólaverzlunina Berlin. Sjálfur hefur hann farið allra sinna ferða á hjóli frá árinu 2012.
Jón Óli er þekktur fyrir hversu vel honum gengur að byggja upp samfélag í kringum Reiðhjólaverzlunina Berlin. Sjálfur hefur hann farið allra sinna ferða á hjóli frá árinu 2012.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í góðri borg sérðu mikið af fólki á hjólum, það verður bara meira líf og öðruvísi samskipti fólks á milli þar sem hjól eru. Borgin, íbúar og gestir blómstra í umhverfi þar sem hjólreiðafólk er,“ segir Jón Óli, eigandi Hjólreiðaverzlunarinnar…

Í góðri borg sérðu mikið af fólki á hjólum, það verður bara meira líf og öðruvísi samskipti fólks á milli þar sem hjól eru. Borgin, íbúar og gestir blómstra í umhverfi þar sem hjólreiðafólk er,“ segir Jón Óli, eigandi Hjólreiðaverzlunarinnar Berlin, sem sérhæfir sig í klassískum retro-hjólum og ævintýrahjólum fyrir þá sem vilja fara í styttri eða lengri ferðalög. „Við erum einnig með vandaða fylgihluti sem henta fyrir daglega notkun á hjólum. Í raun bjóðum við upp á gott úrval af hjólamerkjum sem passa fyrir þá sem vilja nýta sér hjól til yndisauka, sem samgöngu- eða ferðamáta og til keppni,“ segir hann.

Hjól úti um allt nema fyrir framan sjónvarpið

Sagan á bak við það þegar Jón Óli hóf fyrst að bjóða upp á hjól á Íslandi er áhugaverð. „Mér fannst hugsunin á bak við eins gírs hjólin svo skemmtileg að ég pantaði fimmtán í fyrstu sendingunni minni til landsins. Við bjuggum í 70 fm íbúð í Hlíðunum og einu skilaboðin sem ég fékk frá sambýliskonu minni voru að hafa hjólin ekki fyrir framan sjónvarpið. Ég nýtti mér það mjög vel en ætlaði á þeim tíma aldrei að vera með verslun. Ég var í mjög skemmtilegri vinnu en svo kom tækifærið upp í hendurnar á mér og ég sló til og opnaði verslunina Götuhjól í kjallara í Ármúla. Við höfum síðan hægt og rólega stækkað og flutt í stærra húsnæði. Í janúar árið 2019 keypti Götuhjól rekstur Reiðhjólaverzlunarinnar Berlin og sameinaði undir Berlin,“ segir Jón Óli og bætir við að Reiðhjólaverzlunin Berlin sé nú til húsa á Háaleitisbraut 58-60.

Lífsstíll á hjóli

Jón Óli hefur alltaf haft mikinn áhuga á hjólum. „Mér finnst ekkert betra en að komast út og hjóla. Um leið og ég sest á hjólið og fer af stað hefst nýtt ævintýri. Árið 2012 markaði ákveðin skil hjá mér en þá seldi ég bílinn og byrjaði að nota hjól sem minn ferðamáta allt árið um kring. Í dag er hjólið orðið að lífsstíl,“ segir Jón Óli.

Hvað hefur breyst í kjölfarið?

„Ég upplifi mikið frelsi og svo hefur þetta jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Maður fær smá áreynslu og návist við náttúruna þegar maður er úti að hjóla. Síðustu ár hef ég verið að fara í útilegur á hjóli. Að ferðast um landið á hjóli er mjög skemmtileg upplifun þegar maður er rétt útbúinn fyrir það,“ segir hann.

Skiptir máli að velja rétta hjólið

Það gerir gæfumuninn að fá lánaða dómgreind frá sérfræðingum þegar velja á rétta hjólið. „Ein mikilvæg spurning sem við spyrjum er hvernig viðskiptavinirnir vilja sitja á hjólinu. Ef þeir vilja sitja uppréttir eða halla sér aðeins fram þá sýnum við þeim þannig hjól, hvort sem það er reið- eða rafmagnshjól, og leyfum þeim að prófa. Það er mikilvægt að gefa sér tíma til að skoða og prófa þegar finna á rétta hjólið,“ segir Jón Óli og bætir við að Berlin bjóði upp á hjólamerki á borð við REID, Marin Bikes, BBF, Achielle, Pashley, Schindelhauer, Cinelli og nýjasta hjólamerkið sem er Ridley. „Við erum með mjög fjölbreytt úrval af hjólum. Klassísk hjól frá REID, Achielle og Pashley. Tvö síðarnefndu fyrirtækin handsmíða hvert og eitt hjól fyrir viðskiptavini sína, annars vegar í Belgíu og hins vegar á Englandi. Fjalla- og fulldempuðu hjólin, malarhjólin (e. gravel) og ferðahjólin koma frá Marin. Ef þú ert að leita eftir glæsilegum beltadrifnum hjólum þá er Schindelhauer með þau hjól. Ef þú vilt keppnishjól þá eru Cinelli og Ridley með það sem þarf til að ná árangri,“ segir Jón Óli sem sjálfur fer í keppnir hér á landi eins og Westfjord Way Challenge, Rift og Grefillinn þar sem hjólað er allt að 200-250 kílómetra á dag ásamt því að ferðast um landið á hjóli.

Hann segir ánægjulegt að hjálpa viðskiptavinum að velja sér hjól. „Við fáum viðskiptavini sem vilja eiga hjól sér til yndisauka. Svo eru þeir viðskiptavinir sem nota hjólið sem samgöngutæki eða til ferðalaga og síðan keppnisfólkið okkar í hjólreiðum.“

Reykjavíkurborg fyllist af fegurð í Tweed Ride

Jón Óli er þekktur fyrir hversu vel honum gengur að byggja upp samfélag í kringum verslunina sína. „Við stöndum fyrir nokkrum viðburðum á hverju ári. Sá stærsti er Tweed Ride Reykjavík í samvinnu við Kormák og Skjöld. Tweed Ride er fyrir alla en þemað er: Klæddu þig upp á, finndu hjól og hjólaðu með okkur. Það kostar ekki neitt að vera með en auðvitað stoppum við á leiðinni og fáum okkur hressingu og þá þarftu að borga fyrir þig. Tweed Ride verður næst þann 21. júní og hafa þátttakendur verið allt upp í áttatíu. Við veitum verðlaun í Tweed Ride fyrir fallegasta hjólið, best klædda herramanninn og best klæddu dömuna sem þátttakendur velja. Ég mæli með því við alla að læka síðuna Reiðhjólaverzlunin Berlin á Facebook til að fylgjast með öllum viðburðunum okkar. Heimasíðan okkar er einnig full af góðum fróðleik en hún er gluggi fyrir viðskiptavini okkar hvar og hvenær sem er,“ segir hann.

Mikilvægt að bjóða upp á verkstæði í versluninni

Jón Óli segir verkstæðið setja svip á hjólreiðaverslunina. „Við erum með verkstæðisþjónustu þar sem við förum yfir öll hjól, stillum gíra og bremsur og lögum hjólin fyrir viðskiptavini okkar. Við erum ekki með tímapantanir þannig að viðskiptavinir geta komið með hjólið þegar þeim hentar á okkar afgreiðslutíma, við skráum það inn í kerfið og sendum svo skilaboð þegar allt er orðið klárt. Þegar þú kemur inn í Berlin þá sérðu okkur vinna í hjólunum því verkstæðið er hluti af versluninni. Viðskiptavinir okkar koma vanalega tvisvar til fjórum sinnum á ári með hjólin sín,“ segir Jón Óli Ólafsson, eigandi Reiðhjólaverzlunarinnar Berlin, að lokum.