Jónas Hrafn Hannesson fæddist 11. apríl 1945 í Sarpi í Skorradal. Hann lést 21. mars 2025 á Landspítalanum í Fossvogi.
Jónas var 8. í röð 11 barna hjónanna Ingibjargar Lárusdóttur og Hannesar Vilhjálmssonar. Systkini Jónasar voru Ragnhildur Lára, f. 1926, d. 2021, Guðrún, f. 1929, d. 2016, Auðbjörg, f. 1930, d. 2011, Fríður Helga, f. 1933, d. 2023, Vilhjálmur, f. 1936, d. 2019, Hanna, f. 1939, Hjördís, f. 1942, Lárus, f. 1949, Valborg, f. 1954, og Guðmundur Örn, f. 1956, d. 1961. Uppeldisbróðir Jónasar var Ómar Guðmundsson, f. 1948.
Jónas giftist eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigurlaugu Ingimundardóttur, 25. desember 1973. Hún er dóttir hjónanna Ingimundar Steindórssonar og Stefaníu Guðmundsdóttir. Börn þeirra eru: 1) Hannes Ingi, f. 1973, maki Guðmunda Jakobsdóttir, þeirra börn eru Rakel Anna, Hervar Örn og Jónas Freyr. 2) Brynjar Þór, f. 1974, maki Guðlaug María Júlíusdóttir, þeirra börn eru Óskar Sæberg, Ásdís Ósk og Pétur Hrafn. 3) Andri Geir, f. 1979, maki Þórey Gunnarsdóttir, þeirra börn eru Kristján Freyr og Nína Rós. 4) Ingimundur, f. 1982, maki Helga Björg Ragnarsdóttir, þeirra börn eru Karítas Ýr og Ragna Karen.
Jónas ólst upp við almenn sveitastörf í Sarpi í Skorradal. Eftir barnaskóla lauk hann gagnfræðaprófi frá Reykholtsskóla. Hann lærði vélvirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík og lauk sveins- og meistaraprófi þaðan. Jónas vann alla tíð við þá iðngrein og lengst af hjá Vélsmiðjunni Norma.
Útför Jónasar fer fram frá Garðakirkju í dag, 11. apríl 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.
Elsku pabbi, þá er komið að kveðjustund. Það er á stundu sem þessari sem maður horfir yfir farinn veg og yljar sér við allar góðu minningarnar sem þú bjóst til með okkur. Allar útilegurnar, allar ferðirnar upp í Skorradal og allar stundirnar sem þú eyddir með okkur bræðrum í alls kyns verkefni í bílskúrnum. Þau verkefni voru mörg og misjöfn. Það skipti ekki máli hversu vitlaus hugmyndin var, alltaf varstu tilbúinn að hjálpa og leiðbeina. Ég minnist þess ekki í æsku að einhver hlutur hafi verið dæmdur ónýtur, einhvern veginn tókst þér alltaf að laga allt, hvort sem það voru leikfangabílar eða sófasett heimilisins.
Oft hef ég haft að orði að verði ég svo heppinn að fá brot af jákvæðninni, seiglunni og æðruleysinu sem þú bjóst yfir verði mér flestir vegir færir í lífinu. Þolinmæðin sem þú hafðir gagnvart okkur bræðrum og síðar barnabörnunum var einstök og hlakkaði stelpurnar okkar Helgu alltaf til að hitta þig og mömmu. Þær gengu að því vísu að fá eitthvert gotterí og geta platað þig í eitt eða tvö spil og spjallað við þig um daginn og veginn yfir því. Umhyggja þín fyrir barnabörnunum var mikil og mátti sjá það á öllum þeim myndum sem við höfum skoðað síðustu daga þar sem þú sast með afabörnin þín lítil. Það var einn samnefnari með þeim myndum og hann var sá að aldrei horfðir þú í myndavélina heldur beint niður á börnin, með þau í tryggum faðmi þínum. Þú sýndir því alltaf ómældan áhuga hvað þau voru að sýsla og skein það í gegn í hvert skipti sem eitthvert þeirra kom í heimsókn. Þessi áhugi varði allt fram á síðasta dag.
Þó svo að síðustu ár hafi þér verið erfið varstu alltaf léttur og jákvæður og ef maður spurði þig hvernig heilsan væri var svarið alltaf stutt og hnitmiðað, „ég er bara fínn, kannski svolítið mæðinn“. Það var þó á þér að heyra síðustu mánuði að þú varst orðinn þreyttur, þú hafðir nokkrum sinnum á orði við mig að þig langaði að halda upp á 80 ára afmælið en svo væri þetta bara orðið gott. „Þetta er ekkert líf að vera svona lélegur,“ eins og þú orðaðir það. En svo sagðir þú kannski fimm mínútum seinna: „ef ég næ mínu afmæli, þá get ég nú kannski náð afmæli mömmu þinnar líka.“ Það fór þó ekki svo að þú næðir þessum merka áfanga því aðeins 21 degi frá afmælinu kvaddir þú. Þú kvaddir með þitt nánasta fólk allt í kringum þig og eins erfið og mér fannst þessi stund mun ég geyma hana í hjarta mér alla ævi.
Það er svo margt sem ég gæti skrifað þegar ég sit í gamla stólnum þínum núna í mínum eigin bílskúr. Það er svo margt sem við gætum rætt um og hneykslast á. Elsku pabbi, nú kveð ég þig í síðasta sinn á afmælisdaginn þinn. Ég er mjög hnugginn meðan ég sit og skrifa þessi orð en líka glaður í hjarta að hafa verið svo heppinn að eiga þig að og þakklátur fyrir að Helga og stelpurnar okkar hafi átt þig að. Ég kveð þig með orðunum sem þú kvaddir mig svo oft með: „Bless og þakka þér fyrir aðstoðina, sjáumst seinna.“
Þinn sonur,
Ingimundur.
Í dag kveð ég tengdaföður minn sem ég kynntist fyrir tæpum þremur áratugum þegar leiðir okkar Hannesar, elsta sonarins, lágu saman. Jónas var traustur og góður maður og okkur varð strax vel til vina.
Hann hafði mikinn áhuga á fólki og þjóðmálum og alltaf var stutt í hlátur og gamansemi. Hann var iðjusamur og var alltaf að stússa í garðinum, bílskúrnum eða í sumarbústaðnum í Skorradal, en þangað átti hann ættir sínar að rekja.
Hann var æðrulaus með eindæmum og þrátt fyrir erfið veikindi til margra ára var hann alltaf jákvæður og lét engan bilbug á sér finna. Hann var mér fyrirmynd um hvað jákvætt hugarfar getur skipt sköpum fyrir okkur manneskjurnar.
Jónas var börnunum okkar yndislegur afi og aldrei stóð á aðstoð ef þess þurfti. Okkar fjölmörgu minningar frá sumarbústaðnum í Skorradal og heimsóknum Jónasar og Siggu til okkar í Noregi munu lifa með okkur áfram. Hann hafði einstakt lag á að gera hversdagslega hluti, svo sem að mála grindverk, tína ber, dytta að kofanum í Skorradal eða bara að borða hafragraut og bjúgu, að eftirminnilegum stundum fyrir barnabörnin.
Ég kveð elskulegan tengdaföður minn með eftirfarandi ljóði:
Vorvindar glaðir,
glettnir og hraðir,
geysast um löndin rétt eins og börn.
Lækirnir skoppa,
hjala og hoppa,
hvíld er þeim nóg í sæ eða tjörn.
Hjartað mitt litla, hlustaðu á;
hóar nú smalinn brúninni frá.
Fossbúinn kveður,
kætir og gleður,
frjálst er í fjallasal.
(Helgi Valtýsson)
Guðmunda Jakobsdóttir.
Afi minn
Vornótt eina kom ég í heiminn,
þú sast í sólstofunni og horfðir
út í aprílveðrið.
Tveimur dögum eftir
afmælisdaginn þinn.
Brátt myndir þú halda í hönd
mína í fyrsta sinn,
núna með nýja heiðursnafnbót
ofna inn í nafnið þitt.
Afi minn, tvö vorbörn, þú og ég.
Þú lékst við mig, gættir mín og
hjálpaðir.
Tókst mig með í hitt og þetta.
Við rerum á árabátnum og
trilluðum á hjólum,
með vindinn í hárinu fundum við
lönd sem ekki finnast.
Þú varst kafteinn og
ævintýramaður,
ég var stýrimaður með tannlaust
bros.
Afi minn, mín trygga höfn.
Þú kenndir mér að kyrrðin getur
líka talað.
Að krækiber bragðast best frá lynginu og rifsber frá runnanum.
Þú varst hlýr eins og mosinn í
hrauninu og sterkur sem björk í vindi.
Afi minn, þú stóðst sem fjall.
Vornótt eina barðist þú svo
átakanlega.
25 árum seinna og aftur dansaði
vorið milli slyddu og sólskins.
Ég sat þér við hlið og horfði út,
eins og þú á árum áður og ég
hélt í hönd þína.
Afi minn, okkar síðasta vor
saman.
Þú slepptir með litlum hnykk,
eins og leiðin væri þér kunnug.
Við sjáumst dag einn, þegar ljósið fellur lágt og hljótt,
og vindar snúa heim.
Afi minn, vertu sæll að sinni.
Rakel Anna Hannesdóttir.