Nikkei-vísitalan japanska fór á mikið flug í viðskiptum gærdagsins vegna þeirra tíðinda að Trump Bandaríkjaforseti hefði ákveðið að gera 90 daga hlé á tollum Bandaríkjamanna gegn flestum ríkjum heims.
Stökk vísitalan upp um 9,12% í viðskiptum dagsins, og hækkuðu hlutabréf í flestum fyrirtækjum í kauphöllinni í verði. Líkt og sést á meðfylgjandi mynd voru allar tölur rauðar þó að þær hafi verið „grænar“ í vestrænum skilningi, en rautt getur táknað bæði gleði og styrk í japönsku samfélagi.
Mun þessi siður jafnframt rekja rætur sínar til þess að á fyrri tíð, áður en viðskipti í japönsku kauphöllinni urðu rafræn, voru rauðir seðlar notaðir þegar fjárfestar vildu kaupa hlutabréf og bláir þegar þeir vildu selja.