— Ljósmyndir/Þorsteinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einn þessara staða er Lakasvæðið og þá sérstaklega stígar og slóðar utan hefðbundna Lakahringsins. Síðasta sumar fór ég ásamt tveimur öðrum í slíka ferð þar sem við hittum engan og sáum engan í tvo og hálfan sólarhring, á sama tíma og við fórum í…

Einn þessara staða er Lakasvæðið og þá sérstaklega stígar og slóðar utan hefðbundna Lakahringsins. Síðasta sumar fór ég ásamt tveimur öðrum í slíka ferð þar sem við hittum engan og sáum engan í tvo og hálfan sólarhring, á sama tíma og við fórum í gegnum eitt stórfenglegasta umhverfi sem Ísland hefur upp á að bjóða.

Þrátt fyrir leiðindaveður stóran hluta síðasta sumars kom í byrjun júlí upp ágætis veðurgluggi fyrir Lakasvæðið og það þýddi bara eitt. Haukur Eggertsson, sem áður hefur verið ferðafélagi minn í þó nokkrum hjólaferðum og viðmælandi í þessu blaði, athugaði hvort ég væri ekki laus í enn eina ferðina.

Í þetta skiptið var hugmyndin að taka fjögurra daga ferð um Lakasvæðið og skoða fáfarna slóða og vegi. Það var ekki hægt að sleppa slíku tækifæri á sumri sem bauð upp á jafn fá tækifæri. Þetta var mitt fyrsta skipti á svæðinu, en Haukur hafði farið nokkrum sinnum áður þar um aðra slóða. Með í för var Gunnar Sigurðsson, vatnamælingamaður með meiru, en þeir tveir höfðu einnig reynslu af því að ferðast saman.

Stefnan var sett á Kirkjubæjarklaustur eldsnemma um morgun frá höfuðborginni og í nýju þjónustumiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs á svæðinu. Þar tók landvörður vel í beiðni okkar um að taka með poka af vistum upp í Blágil, en þar áformuðum við að verja síðustu nóttunni. Við keyrðum svo að Prestbakka þar sem hjólin voru tekin af bílnum og héldum af stað á hjólunum. Við Haukur vorum á framdempuðum fjallahjólum, en Gunnar prófaði sig áfram á fulldempuðu. Á sumum stöðum næstu daga átti það eftir að vera ágætis ákvörðun.

Með smá viðkomu á hringveginum, þar sem farið var fram hjá einu fallegasta bæjarstæði landsins, Fossi á Síðu, var beygt upp hjá Þverá og hjólaður vegurinn upp í gegnum, en aðallega meðfram Brunahrauni (eystri hluta Skaftárhraunsins). Einstaklega falleg leið þar sem góður tími gefst til að virða fyrir sér hraunið sem þarna rann niður fyrir um 250 árum.

Hækkunin frá veginum er tæplega 400 metrar í nokkuð jafnri hækkun áður en komið er að vegamótum sem vísa austur að skálanum Miklafelli og vestur í átt að skálanum Blæng. Við tókum stefnuna að Miklafelli, enda höfðum við áformað að gista þar. Í það heila stuttur dagur, eða tæplega 4 tímar og þar af rúmlega 2,5 klst. á hjólinu, samtals 34 km. Var þetta í takti við það sem koma skyldi, en hugmyndin með ferðinni var aldrei að fara sem lengst, heldur að kanna áhugaverða og lítið farna slóða og þá er meðalhraðinn alltaf algjört aukaatriði.

Eftir góðan kvöldmat og svefn í Miklafelli var farið af stað á degi tvö. Hefðbundin leið á þessu svæði væri að fara aðeins til baka að fyrrnefndum vegamótum og halda í áttina að Blæng eða lengra vestur. Í takti við markmið ferðarinnar um að skoða lítið farnar slóðir var stefnan hins vegar tekin norður, austan megin meðfram fjallinu Miklafelli, sem skálinn er jafnframt kenndur við. Var farið eftir lélegum smalaslóða eða ýtuslóða sem greinanlegur var á loftkortum.

Ef meðalhraðinn var lítill daginn áður þá var það bara upphafið, því enn hægðist á okkur á þessum slóða. Slóðinn heldur áfram í norðurátt að Miklafelli, en greinist einnig norður fyrir það í vesturátt að Laufbalavatni. Farið var meðfram hraunjaðrinum, en slóðinn varð alltaf ógreinilegri. Endaði það með því að hjólin voru reidd hluta þeirrar stuttu leiðar sem eftir var að slóðanum sem liggur vestan megin við Miklafell að Laufbalavatni.

Við tók nokkuð þægilega pakkaður slóði um mela og sanda aftur niður á veginn að Blængi og höfðum við þar með farið lengri og ófærari leiðina í kringum Miklafellið.

Eftir nokkra km til norðvesturs var aftur komið að því að halda út af aðalleiðinni að Blængi og fara inn á lítið farinn ýtu- og smalaslóða. Í mínum huga var þetta einn af hápunktum ferðarinnar, enda leiðin algjörlega mögnuð upplifun. Er slóðin að hluta ofan á mosagrónum hraunbakka í miðju hrauni og er útsýnið einstaklega tignarlegt. Þetta er eiginlega upplifun sem fólk verður sjálft að fá að upplifa til að skilja til fullnustu.

Þessi útúrdúr er ekki mjög langur, þótt leiðin sé torfær og fljótlega er komið að skálanum við Blæng. Við tekur svo ein af bröttustu brekkum ferðarinnar og var enginn okkar sem gat hjólað hana upp, enda bæði brött og laust undirlag. Áfram er svo haldið upp á við þangað til komið er á hæsta punkt suðvestan við Blæng og tekur þá við stutt en skemmtilegt brun niður og auðvitað aftur smá hækkun eftir það. Þegar skammt fer að vera í að komið sé inn á hinn eiginlega Lakahring (F207), rétt sunnan við fjallið Laka, er hins vegar komið að þriðja og næstsíðasta útúrdúrnum, sem jafnframt er sá lengsti.

Farinn er gamall slóði meðfram hrauntungunni og haldið í norður. Þegar komið er norður fyrir Laka er beygt til norðvesturs inn á greinilegan slóða aftur í gegnum hraunið. Ef ferðin í gegnum fyrri hraunslóðann var eftirminnileg, þá er ferðin í gegnum síðari hraunslóðann algjörlega ógleymanleg.

Rétt er að taka fram að þessir slóðar eru mjög grófir og hraungrjót, sem slóðinn er lagður á, er mjög beitt. Það kom ágætlega í ljós þegar sprakk hjá okkur Gunnari, en allir vorum við með frekar lint í dekkjunum, enda harkalegt færið. Vorum við allir á 2,25“ upp í 2,5“ dekkjum og líklega hefði ekki verið vitlaust að við værum allir á 2,5“+ dekkjum miðað við færið.

Eftir fyrstu km í gegnum þennan slóða var þó komið að stóru stundinni, þegar Lakagígaröðin sjálf blasti við og maður áttaði sig á því að við vorum staddir á þeim stað þar sem einhverjar mestu hamfarir Íslandssögunnar gengu yfir, sjálfir Skaftáreldar sem áttu sér stað á árunum 1783-1784. Þarna myndaðist rúmlega 29 km löng gígaröð og upp úr gígunum kom eitt mesta hraungos Íslandssögunnar. Fylgdu þessum hamförum móðuharðindin, en þau höfðu áhrif á veðurfar, uppskeru og lífsviðurværi fólks bæði á Íslandi og víða um heim.

Á þeim átta mánuðum sem gosið stóð gengu yfir tíu goshrinur. Var hraunflæðið 4.000 til 8.700 rúmmetrar á sekúndu í hrinunum, en 1.000 til 3.000 rúmmetrar á sekúndu á milli þeirra. Til samanburðar var hraunrennsli í Vestmannaeyjagosinu rúmlega 100 rúmmetrar á sekúndu og í Sundhnúkagígagosunum nokkur hundruð rúmmetrar. Talið er að um 50-80% af bústofni landsmanna og fjórðungur þjóðarinnar hafi dáið í harðindunum sem fylgdu þessum hamförum.

Maður getur ekki annað en fyllst lotningu þegar maður stendur svona frammi fyrir móður náttúru á jafn hrikalegum stað. Reyndar liggur einhver furðuleg værð yfir þessu svæði sem erfitt er að skýra, en þegar maður tekur með í reikninginn söguna er erfitt að hugsa um annað en hamfarir og eyðileggingu og hversu lítill maður er í þessum samanburði við náttúruöflin.

Slóðinn þverar gígaröðina sjálfa, sem er einstaklega greinileg frá nokkrum sjónarhornum á leiðinni. Eftir talsvert hjólarí um þennan torfæra slóða er svo komið að vegamótum í miðju hrauninu. Hægt er að velja að fara suður eða norður og veljum við norðuráttina – í þetta skiptið allavega. Liggur enda leið okkar upp að Fljótsodda, sem er efsti oddi svæðisins sem ekki er hluti af jökulaurum og árfarvegi Skaftár. Nálgumst við því óðfluga helsta markmið ferðarinnar, sem var að komast á þennan einstaklega fáfarna stað með útsýni yfir upptök Skaftár og Fögrufjöll við Langasjó.

Þó að við séum komnir vestanmegin við hina einu sönnu Lakagígaröð er engu að síður fjöldi stakra gíga á öllu svæðinu og er ólýsanlegt að hjóla á milli þeirra eftir slóðanum góða. Á þessum kafla er hann reyndar nokkuð vel pakkaður og kominn úr grófasta hrauninu og er hjólaleiðin á köflum eins og skemmtileg fjallahjólaleið með góðu flæði.

Slóðinn liggur upp á Langasker, sem er eins og nafnið gefur til kynna ílangur kambur, en skerið liggur austan megin við Skaftá og er gott útsýni af því til allra átta. Það er orðið nokkuð áliðið þegar við komum upp á skerið. Í skjóli við skerið er að finna lítinn grasbala sem hafði fundist með loftmyndaskoðun, auk þess sem þar var lítið vatn. Höfðum við þennan stað sérstaklega á radarnum, þar sem hægt væri að sjóða og verða sér þar með úti um drykkjarvatn, en slíkt er af skornum skammti á þessum slóðum. Var því ákveðið að tjalda á þessum bletti yfir nóttina.

Ekki nema 36 km dagur, en við vorum á ferðinni í 8,5 klst. og umtalsverð hækkun. Líklega er þetta lægsti meðalhraði sem ég hef farið á einum hjóladegi, en reyndar átti eftir að koma samkeppni síðar í ferðinni.

Næsta dag eru tjöldin geymd á tjaldstað. Eftir hnausþykkan kakóhafragraut er haldið af stað áfram norður að Fljótsodda með lítinn farangur. Er tanginn enda botnlangi og mun leið okkar aftur liggja fram hjá tjaldstaðnum. Veðurguðirnir virðast með okkur í liði, því að eftir tvo daga af fínasta veðri en nokkuð skýjuðu, er nánast heiðskírt og útsýnið upp á 10.

Hjólað er að Tröllahamri sem skagar tignarlega yfir Skaftá og myndar örlítið mótsvar við Fögrufjöllin sem eru vestan megin við ána. Segja má að nyrsti hluti hamarsins endi á nokkrum malar- og sandöldum og erum við þar með komnir á Fljótsoddann þaðan sem við sjáum bæði Skaftár- og Síðujökul og mögulega Tungnaárjökul.

Algjörlega magnað útsýni um hrjóstruga jörð þar sem andstæður elds og íss eru sitt á hvora hönd. Annars vegar jöklar sem ganga út úr stærsta jökli landsins og hins vegar gígar sem eru hluti af stærsta hraungosi Íslandssögunnar. Og fyrir framan mann er jökulá sem minnir reglulega á sig með hlaupum úr Skaftárkötlunum – algjörlega einstakt.

Eftir stutt stopp og smakk úr nammipoka er snúið við og brunað niður að Langaskeri, matast, tjaldið tekið upp og passað að skilja ekkert eftir. Hjólað er niður að vegamótunum í hrauninu og nú tekin suðurleiðin í átt að Lakahringnum. Fljótlega er komið út úr hrauninu, yfir einn kamb, en þá tekur við erfiðasti hluti ferðarinnar. Liggur slóðinn eftir sandöldum meðfram hraunjaðrinum niður að Lakahringsveginum (F207) þar sem gígaröðin sker aftur veginn.

Ég hef sjaldan prófað að hjóla á eins loftlitlu dekki, en ef ég hefði tekið grammi meira af lofti úr því hefði ég líklega hjólað á gjörðinni. Á þessum kafla hefði klárlega verið þægilegt að hafa aðeins breiðari dekk og erfiðum við allir talsvert þangað til komið var niður á veginn.

Við tók önnur versta brekka ferðarinnar, ógeðsbrekka upp á hæsta punktinn á Lakahringnum. Þessi var þó með aðeins pakkaðra undirlagi en sú fyrri og komumst við allir upp hana án þess að þurfa að ýta hjólunum á undan okkur. Eiginlega stórsigur eftir áreynsluna í sandinum skömmu áður.

Af þessum toppi er mjög gott útsýni, sérstaklega til suðurs og yfir Eldhraunið, en það skemmtilegasta er þó að þarna taka við mjög skemmtilegar brekkur niður á við sem gaman var að þjóta niður eftir hægagang daganna á undan.

Með stuttu stoppi við Tjarnargíg, sem er áfangastaður sem vert er að skoða, var haldið áfram alla leið niður í Blágil, en þar er gistiaðstaða og fá landverðirnir alveg sérstakt hrós fyrir mikla gestrisni.

Frá Blágili er minnsta mál að klára Lakahringinn og halda svo niður Lakaveginn og aftur niður á hringveg. Væri það hinn eðlilegasti endir á ferð sem þessari, en þess í stað þurftum við auðvitað að fara flóknari leið. Var því farinn einhver rangali sem endaði með að fara niður fjallahjólaleiðina að Mörtungu. Við skulum bara segja að það væri sniðugt að sleppa slíku á hjóli með farangur í hliðartöskum í stað þess að vera á léttu og þægilegu aldempuðu hjóli.

Að endingu komumst við þó niður að Prestbakka óskaddaðir, pökkuðum hjólunum á bílinn og renndum aftur í bæinn eftir fjóra frábæra daga á þessu einstaka svæði. Ferð sem lengi verður í minnum höfð.

Fyrir þá sem eru ekki alveg jafn ævintýragjarnir og viljugir til að prófa grófa og torfæra slóða er engu að síður vel hægt að mæla með ferðalagi um svæðið. Ein hugmynd væri að hjóla upp Lakaveginn frá hringveginum og annaðhvort taka Lakahringinn og gista nótt í Hrossatungum og halda svo áfram seinni daginn suður að Leiðólfsfelli og að lokum inn á Lakaveginn nokkuð neðarlega og hjóla aftur niður á hringveg. Fyrri dagleiðin væri þá 65 km með 1.000 metra hækkun og sú seinni 50 km með 300 metra hækkun. Önnur hugmynd væri að taka þessa sömu leið á þremur dögum, og þá mögulega gista í Blágili hina nóttina.

Þriðja hugmyndin væri svo sambærileg við þá sem við fórum, en í stað þess að fara norður fyrir Miklafell og útúrdúrana á hraunslóðana væri hægt að fara fram hjá Blængi og niður á Lakaveginn. Hægt væri að fara þá leið þægilega á tveimur eða þremur dögum.

Svæðið býður upp á fjölmarga möguleika, er tiltölulega fáfarið og hefur upp á að bjóða einstaka náttúrufegurð sem því miður allt of fáir landsmenn gera sér ferð til að njóta. Setjið þetta á sumardagatalið í ár.