Ég byrjaði að koma hingað sem smástrákur að sópa, verðmerkja, brjóta saman kassa og fleira. Og vann hér öll sumur og með skóla. Eftir háskóla byrjaði ég að vinna fulla vinnu og tók við sem framkvæmdastjóri síðasta haust eftir að pabbi ákvað að stíga til hliðar og mamma með. Þau eru enn með skrifstofur hérna hjá okkur þó að þau séu minna við og það er mjög gott að hafa þau sér til halds og trausts enda hafa þau gengið í gegnum alls konar tíma með reksturinn. Svo erum við með frábært starfsfólk og margt af því hefur starfað hjá okkur í fleiri ár og er auðvitað grunnurinn að góðri velgengni,“ segir Snorri Ólafur Jónsson framkvæmdastjóri Arnarins.
Það var Harald S. Guðberg sem stofnaði Örninn árið 1925 og allt fram á 10. áratuginn var verslunin til húsa á ýmsum stöðum í miðborginni. „Örninn var á Spítalastíg þegar pabbi og félagar hans keyptu fyrirtækið árið 1991 og fluttu strax í Skeifuna. Við fluttum svo í Faxafenið árið 2012 þar sem við erum í dag.“
Vel útbúið verkstæði með öflugu fólki
„Harald lærði hjólhestasmíði í Danmörku og stofnaði Örninn þegar hann kom til baka eftir námið. Örninn byrjaði sem sagt á því að selja handsmíðuð reiðhjól sem mér finnst nokkuð magnað. Á þeim tíma var erfitt að fá gjaldeyri og ríkti mikill vöruskortur svo það var mjög algengt að hjólin væru tekin algjörlega í gegn. Brennsluofnar voru algengir á verkstæðum á þessum tíma því algengt var að hjól væru lökkuð upp á nýtt. Við erum reyndar ekki með brennsluofn inni á verkstæðinu okkar núna en það er virkilega vel útbúið verkstæði með öflugu fólki sem er stanslaust að bæta við sig þekkingu. Við getum gert við nánast öll hjól frá öllum framleiðendum hvort sem það eru venjuleg hjól eða rafhjól.“
Það er áhugavert að hlusta á Snorra rifja upp sögu þjóðarinnar með tilliti til hjólreiða. „Algengt var að sendlar, læknar og rukkarar væru á hjóli og þeir voru yfirleitt þeir einu sem hjóluðu allan veturinn. Sendlar Mjólkursamlagsins hjóluðu um með mjólkina á hálfgerðum „cargo“-hjólum sem eru aftur að verða vinsælli í dag. Þannig að það má með sanni segja að Örninn hafi hjólað með Íslendingum í 100 ár.“
Hafa selt TREK-hjólin í 34 ár
Í gegnum árin hefur Örninn bætt við vöruúrval sitt. „Árið 2006 keyptum við Nevada Bob, fljótlega breyttum við nafninu í Örninn Golfverslun og svo keyptum við barnavöruverslunina Fífu árið 2014 svo við höfum stækkað og dafnað síðustu árin.“
Hvað getur þú sagt okkur um TREK-hjólin?
„Við höfum selt TREK-hjól, sem er okkar aðalsmerki og hefur verið leiðandi vörumerki á heimsvísu, í 34 ár eða síðan 1991. Einnig seljum við rafhjól frá Haibike og Winora sem voru með fyrstu framleiðendunum sem byrjuðu á því að framleiða rafhjól,“ segir Snorri og bætir við að vönduðu TREK-barnahjólin séu alltaf jafn vinsæl. „Enda muna flest okkar eftir því að læra að hjóla og upplifa frelsið og fjörið sem fylgir því að hjóla.“
Hjólamenning landsmanna hefur breyst í gegnum árin. „Árið 1991 til sirka ársins 2010 seldum við nánast bara fjallahjól og venjuleg götuhjól. Fyrir sirka 15 árum voru „racer-ar“ mjög vinsælir. Svo fyrir um sjö árum tóku fulldempuðu fjallahjólin við og nú eru það rafhjólin sem eru þau allra vinsælustu.“
Þakklátur fyrir tryggð viðskiptavina
Hvað getur þú sagt okkur um rafhjól?
„Rafhjólin í dag eru með hjálparmótor sem tekur við sér þegar fólk hjólar svo þú kemst ekki upp með að sleppa því að stíga pedalana en færð þennan aukastuðning. Það er ekki bara hrikalega gaman að hjóla á þeim heldur koma rafhjólin fólki hærra og lengra en það gæti á venjulegu hjóli. Það sem er líka frábært við rafhjólin er að þau hjálpa þeim sem eru þrekminni eða eiga erfitt með hreyfingu að fara þær leiðir sem þau gætu jafnvel ekki farið venjulega,“ segir Snorri.
Hann segir Örninn eiga mikið af tryggum og góðum viðskiptavinum sem hafa hjólað með þeim í gegnum tíðina. „Það er meðal annars þeim að þakka að við fögnum 100 árum í ár. Reglulega heyri ég sögur frá viðskiptavinum sem lærðu að hjóla á TREK-barnahjóli og hafa ekki farið af vagninum síðan þá. Við kunnum virkilega vel að meta það!“
Ætla að halda upp á aldarafmælið þann 17. maí
Hvað er svo fram undan?
„Við stefnum að sjálfsögðu á að eldast vel og halda áfram þessari skemmtilegu vegferð sem Örninn hefur verið á þessi 100 ár. Það er aldrei lognmolla í hjólaheiminum og alltaf eitthvað skemmtilegt í gangi. Það er stanslaus þróun í gangi og mikið um nýjungar sem við erum stöðugt að laga okkur að. Svo eru alls konar spennandi hugmyndir á borðinu sem við komum til með að segja meira frá síðar.
Hundrað ára afmælið okkar er auðvitað risastórt og við ætlum að halda upp á það 17. maí næstkomandi með starfsfólki og viðskiptavinum okkar þar sem við ætlum að bjóða upp á samhjól, skemmtidagskrá, afmælistilboð og fleira.
Svo hlökkum við til að halda áfram ferðalaginu og taka á móti viðskiptavinum okkar, bjóða þeim vandaða vöru og veita góða þjónustu, hjólandi í gegnum lífið,“ segir Snorri Ólafur Jónsson framkvæmdastjóri Arnarins að lokum.