Ferðamenn Samdráttur blasir við í ferðaþjónustu og Bretar fara annað.
Ferðamenn Samdráttur blasir við í ferðaþjónustu og Bretar fara annað. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hrun hefur orðið í komum Breta til landsins. Í febrúar sl. komu ríflega 41 þúsund manns frá Bretlandi en í mars var fjöldinn kominn niður í um 18.500, sem er um 55% fækkun. Fækkunin nemur 47% miðað við mars 2024

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Hrun hefur orðið í komum Breta til landsins. Í febrúar sl. komu ríflega 41 þúsund manns frá Bretlandi en í mars var fjöldinn kominn niður í um 18.500, sem er um 55% fækkun. Fækkunin nemur 47% miðað við mars 2024. Ef teknir eru fyrstu þrír mánuðir ársins og bornir saman við sömu mánuði í fyrra hefur Bretum fækkað um 30%. Á sama tíma hefur heildarkomum ferðamanna til landsins fækkað um tæp 9%.

Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri og eigandi Snæland Grímsson ferðaskrifstofu, segist hafa horft upp á þessa þróun síðan Íslandsstofa hætti með neytendamarkaðssetningu á samfélagsmiðlum árið 2022.

„Við erum í viðskiptum við TUI, eina stærstu ferðaskrifstofu í heimi, sem er mjög stór í að selja norðurljósaferðir til Íslands frá Bretlandi og hefur verið með sitt eigið leiguflug til landsins. Þessar tölur sem við sjáum núna um samdrátt ríma alveg við þær tölur sem við sjáum hjá þeim. Það virðist ekki vera samdráttur hjá TUI til Finnlands, eftir því sem þeir segja mér.“

Ísland er orðið of dýrt

Hallgrímur segir samdráttinn vera afleiðingu af ákvörðunum stjórnvalda.

„Ef stjórnvöld vilja efla ferðaþjónustu þarf að vinna bæði í markaðssetningu og skapa fyrirtækjum sambærilegar aðstæður og í samkeppnislöndunum. Hér er verið að skera ferðaþjónustuna niður við trog með þeim afleiðingum að fólki sem kemur til landsins fækkar.“

Hann segir áhrifin af aukinni skattheimtu og niðurskurði í markaðssetningu ekki koma fram strax.

„Þetta er eins og að vera í þotu í 37 þúsund feta hæð sem skrúfað er fyrir bensínið á. Þotan dettur ekki beint niður en hún byrjar að lækka flugið og það er ekki fyrr en í restina að hún fer ansi bratt og allir vita hvernig það endar.“

Hallgrímur segir að samhliða minni markaðssetningu sé staðan orðin sú að Ísland sé orðið of dýrt.

„Þegar gisting, matur og upplifun er orðið dýrara en alls staðar annars staðar þá fara menn bara eitthvað annað. Við eru komin í þakið í verðlagningu og með því að hækka álögur mun ferðamönnum halda áfram að fækka enn frekar. Ég vona að stjórnvöld geri sér grein fyrir því hvaða áhrif það hefur fyrir þjóðarbúið.“ Sem dæmi nefnir Hallgrímur að 2.500 króna hausagjald á skemmtiferðaskipin fyrir hverja einustu nótt hafi leitt af sér stórkostlegan samdrátt í komum þessara skipa í sumar, sérstaklega úti á landi. Skipin stoppi styttra og eru ekki lengur en þau þurfa innan landhelginnar. Hann telur að þetta sé hæsta gjald sem er til, að leggja 2.500 krónur á hvern ferðamann á nótt.

„Við erum svo mikið veiðimannasamfélag, en það þýðir ekki að horfa á ferðamenn eins og fiskinn í sjónum. Ferðamenn eru hugsandi fólk og fara þangað þar sem þeir fá meira fyrir peninginn fyrir sambærilega upplifun. Ákvarðanir eins og að hækka álögur á ferðaþjónustuna og minnka markaðssetningu eru einfaldlega eins og að pissa í skóinn sinn.“

Vöruðu við afleiðingunum

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), tekur í sama streng og segir samdráttinn í ferðaþjónustunni vera vegna samblands af ýmsum þáttum. Annars vegar ytri aðstæðum eins og eldgosahrinunni sem ekki sé hægt að ráða við og svo innri aðstæðum sem hægt sé að stýra.

„Við erum greinilega að tapa samkeppninni við Noreg og Finnland um upplifunarferðir á norðlægum slóðum. Norðmenn og Finnar hafa lagt mikla áherslu á að auglýsa sínar norðlægu slóðir, í Bretlandi. Þar er kominn markaður sem er ódýrari en við og betur auglýstur heldur en okkar núna.“

Jóhannes telur augljóst samhengi vera á milli þess að dregið var úr fjárveitingum ríkisins til markaðssetningar á Íslandi árið 2022 og þeirrar stöðu sem nú er komin upp. „Við bentum strax á hverjar yrðu afleiðingarnar og nú sjáum við það gerast.“

Höf.: Óskar Bergsson