Landhelgisgæslan Þyrlurnar áfram leigðar og þyrlukaup ekki í bígerð.
Landhelgisgæslan Þyrlurnar áfram leigðar og þyrlukaup ekki í bígerð. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Það er ekki í sjálfu sér Landhelgisgæslunnar að svara spurningunni um það hvort réttara hefði verið að kaupa þrjár björgunarþyrlur í stað þess að leigja, það er stjórnvalda á hverjum tíma að taka ákvörðun um hvort rétt sé að ráðast í slíka fjárfestingu

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Það er ekki í sjálfu sér Landhelgisgæslunnar að svara spurningunni um það hvort réttara hefði verið að kaupa þrjár björgunarþyrlur í stað þess að leigja, það er stjórnvalda á hverjum tíma að taka ákvörðun um hvort rétt sé að ráðast í slíka fjárfestingu.

Þetta segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við Morgunblaðið, en í blaðinu í gær var frá því sagt að Fjársýsla ríkisins hefði gengið frá samkomulagi við norskt fyrirtæki í kjölfar útboðs um áframhaldandi leigu á þeim þremur björgunarþyrlum sem Gæslan hefur yfir að ráða. Leigusamningurinn er til sjö ára með möguleika á framlengingu og er leiguverðið yfir tímabilið um átta milljarðar króna.

Ásgeir segir að skömmu fyrir covid-faraldurinn hafi verið ætlunin að leita tilboða til kaupa á þremur björgunarþyrlum, en vegna faraldursins hafi verið fallið frá því, þar sem nýta þurfti fjármunina í annað. Fjárhæðin sem búið var að eyrnamerkja í þessu skyni hafi verið ríflega 14 milljarðar króna.

Hann bendir á að björgunarþyrlur eins og þær sem Gæslan þarf til síns brúks liggi ekki á lager og þurfi að smíða hverja og eina sérstaklega, þannig að aðdragandi kaupa á björgunarþyrlum sé langur.

Þegar fallið var frá útboði til kaupa á nýjum þyrlum hafi þar með orðið ljóst að leigja þyrfti þyrlur, því nokkur ár líði frá því kaup eru ákveðin og þar til ný þyrla er afhent.

Leigutími tveggja þyrlna Landhelgisgæslunnar rennur út í maí á þessu ári, en þeirrar þriðju á næsta ári og því erfitt um vik að ráðast í kaup á þyrlum með öllu því sem þar fylgir með, með jafn skömmum fyrirvara.

„Í sjálfu sér má segja að það hafi legið fyrir árið 2020 að fátt annað hafi verið í stöðunni en áframhaldandi leiga á þyrlum,“ segir Ásgeir og bendir á að það sé í raun stjórnvalda að svara fyrir um það.

Í dag er Gæslan með sex þyrluáhafnir að störfum. Þegar þrjár þyrlur eru til staðar segir Ásgeir að jafnan séu tvær þeirra tiltækar meginhluta ársins, en viðhaldi einnar sé sinnt á meðan. Miklar kröfur séu gerðar til viðhalds og öryggis, þannig sé reiknað með átta klukkustundum í viðhald á móti hverri floginni klukkustund. Að sama skapi séu gerðar ríkar kröfur til áhafnanna hvað varðar þjálfun, flugtíma o.fl. til að viðhalda grunngetu áhafnarmeðlima til leitar og björgunar.

Í hverri þyrluáhöfn eru fimm manns, fjórir frá Gæslunni; flugstjóri, flugmaður, stýrimaður og flugvirki. Sá fimmti er læknir frá Landspítalanum.

Landhelgisgæslan

Þrjár þyrlur leigðar til sjö ára fyrir Gæsluna

Kaup á nýjum þyrlum þurfa langan aðdraganda

Hætt var við þyrlukaup 2020

Tvær þyrlur eru tiltækar á hverjum tíma, sex áhafnir

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson