Það var svo fyrir tveimur árum að þau tóku þá stóru ákvörðun að demba sér alfarið út í þetta ævintýri sitt og ákváðu að stækka hönnunarstofuna til að mæta aukinni eftirspurn, en þau leggja mikla áherslu á sérhönnun, bæði í stærð og lögun vörunnar, en ekki síður í útliti.
Þau Rakel, sem gengur undir nafninu Rachel vestanhafs, og Alan ræddu við Hjólablaðið um lífið og tilveruna, hvernig það kom til að þau enduðu í hönnun fyrir útivistarvörur, risastóra ævintýraferð Alans, áskoranir í rekstri og draumavörur sem þau langar til að koma á markað.
Rakel á íslenskan föður en móðir hennar er frá Bandaríkjunum. Þau kynntust í Frakklandi þar sem Rakel fæddist, en fluttu svo í stuttan tíma til Ísafjarðar áður en þau fóru svo vestur um haf þar sem Rakel hefur búið síðan. Hún segir föðurfjölskylduna nú búa víða um landið, en faðir hennar var þó uppalinn í Grindavík og fór svo að fjölskylduheimilið er nú, eins og flestöll önnur hús í bænum, yfirgefið. Hún á systkini bæði í Reykjavík og á Selfossi og aðrir dreifast svo um landið.
„Ég ólst mest upp í Seattle,“ segir Rakel, en Alan er frá smábæ um 30 kílómetra frá borginni. Bæði höfðu þau áhuga á hönnun og það var í gegnum slíkt nám sem þau kynntust árið 2001. Alan hafði áður verið í myndlistarnámi og Rakel í iðnhönnun.
Bæði leiddust þau út í útivistina, en eftir að námi lauk störfuðu þau í tæplega tvo áratugi fyrir hin ýmsu merki við hönnun og þróun á útivistarvörum. Sem dæmi nefna þau REI, Mountain hardware, Outdoor research og fjölmörg fleiri. Sérhæfði Alan sig til dæmis í hönskum og öðru aukadóti.
Alan segir að hjólreiðar og sérstaklega hjólaferðamennska hafi þó alltaf blundað djúpt í honum, en hann byrjaði ungur að ferðast um á hjóli með foreldrum sínum og fóru þau sína fyrstu fjöldægraferð saman þegar hann var um 12 ára. Hann segir þau hafa verið mikið hjólafólk sem hafi ferðast á hjólum, en það hafi verið og sé jafnvel enn frekar óalgengt.
Hann byrjaði svo að keppa í hjólreiðum 14 ára gamall, en eins og við var að búast voru aðrar íþróttagreinar talsvert vinsælli. Þannig var hann eini krakkinn í gagnfræðaskóla sem keppti í hjólreiðum, en í bæjarfélaginu voru í heild sex manns sem kepptu í hjólreiðum. Hélt hann áfram að keppa inn á fertugsaldurinn, en þá tók hjólaferðamennska yfir hjá honum.
8 mánaða ferð með föður sínum
Rifjar Alan upp að á árunum 1999-2000, þegar hann var um 26 ára, hafi hann farið í átta mánaða hjólaferð með pabba sínum sem hafi algjörlega breytt lífssýn hans. Þeir ákváðu að fara í gegnum Pakistan, suður með vesturströnd Indlands og aftur norður austurströndina og svo til Nepal. „Life changing“ ítrekar hann nokkrum sinnum um þessa ferð þeirra.
Nefnir hann að þarna hafi þeir oft verið 12-14 tíma á dag að hjóla eða velta fyrir sér hjólatengdum málefnum, svo sem hvernig búnaðurinn mætti vera betri og hvernig best væri að hanna eitthvað til að draga úr sliti eða skemmdum. „Þarna vaknaði áhugi minn á hönnun,“ segir Alan, en þegar hann kom heim aftur til Bandaríkjanna hóf hann að vinna í hjólabúð og í kjölfarið komst hann inn í ofangreint nám og kynntist Rakel.
Rakel segist líka alltaf hafa haft mikinn áhuga á hjólreiðum og hjólað gríðarlega mikið þegar hún var yngri. Þannig hafi hún meðal annars á unglingsárunum fengið föður sinn til að taka þátt með sér í um 300 km hjólaviðburði þar sem hjólað var á milli borganna Seattle og Portland í Bandaríkjunum. Þá segir hún að það fyrsta stóra sem hún hafi keypt fyrir eigin peninga hafi verið Diamondback-hjól. „Ég var alltaf að hjóla, hjólaði í vinnuna og svona, en svo hitti ég Alan og þá kynntist ég hjólasenunni [keppnishjólreiðum],“ segir Rakel.
Mikil hjólamenning í nágrenninu
Í dag búa þau í bænum Bellingham í Washingtonríki, en þau segja að á svæðinu sé talsverð hjólamenning, ekki síst þegar kemur að fjallahjólreiðum. „Enduro, fjallahjólreiðar, allt „off-road“ er vinsælt í Washington,“ segir Rakel. Þá eru einnig þrjú hjólamerki með höfuðstöðvar í Bellingham eða rétt þar í kring, en það eru Kona bicycles, Evil bikes og Transition bicycle.
Rakel grínast með það að í raun sé veðurfarið í Bellingham ekki svo ósvipað því sem gerist í Reykjavík. „Hvasst og rigningasamt, hlýtt á sumrin, en samt ekki of heitt og mildir vetur.“
Þau segja bæði að í gegnum vinnu sína síðustu áratugi hafi þau kynnst fullt af fólki í bransanum, framleiðendum, hönnuðum og sölufólki og að enn í dag taki þau við og við að sér einhver verkefni fyrir stærri merkin.
Hannaði töskur fyrir sjálfan sig
Það hafði hins vegar alltaf blundað í þeim að prófa sig á eigin fótum. „Það var alltaf draumurinn að vera með eigin framleiðslu,“ segir Rakel. Það var svo árið 2017 sem hugmyndin um Loam kviknaði. „Fyrst var þetta meira bara að drekka bjór með vini mínum og sauma saman töskur,“ segir Alan hlæjandi. Á þessum tíma var Alan á leiðinni að hjóla Baja Devide-leiðina, en það er tæplega 2.800 km hjólaleið um fylkið Baja Kalifornía í Mexíkó, en það er fylki sem á landamæri að Kaliforníu í Bandaríkjunum.
Hann hannaði eigin töskur fyrir það ferðalag og í kjölfarið fóru þau að fá fyrirspurnir og beiðnir frá vinum og kunningjum og síðar öðru fólki um að sérhanna töskur fyrir hjólaferðamennsku. „Þetta var fyrst hliðarverkefni, en svo fyrir tveimur árum ákváðum við að fara á fullu í þetta ævintýri og núna um daginn vorum við að flytja inn í stærra rými,“ segir Alan. Í dag eru þau með einn starfsmann í fullu starfi og nokkra verktaka á hliðarlínunni þegar mikið er að gera.
Mest í sérhönnun
Þau hafa sérhæft sig í töskum, þótt þau taki að sér alls konar önnur verkefni, en aðaláherslan hefur verið á stelltöskur, þ.e. töskur sem fara inn í þríhyrninginn á hjólastelli. Þó að þau framleiði og selji töskur í fyrirframákveðnum stærðum og sniðum segja þau bæði að fólk sé í auknum mæli að leita að töskum sem bæði passi fullkomlega við hjólin þeirra og að fá sérhannaða grafík. „Við erum mest í sérhönnun, bæði stelltöskum, en einnig með því að hafa sérliti eða grafík,“ segir Alan. „Það virðist sem eftirspurnin sé mest þegar kemur að sérhönnuðu.“
Í dag sauma þau tugi og yfir hundrað töskur á mánuði að sögn Rakelar, en til viðbótar við stelltöskur sauma þau einnig töskur ofan á toppstöngina, stýristöskur og litlar töskur við stýrið fyrir snakk eða drykkjarbrúsa. „Þetta er ekki hratt ferli, en það er mjög gaman að sauma svona sjálf og mest er þetta handgert,“ segir Rakel um framleiðsluna.
Körfuhjólaferðamennska
Þá nefnir Alan að svokölluð „körfuhjólaferðamennska“ (e. Basket touring) hafi á undanförnum árum verið nokkuð í sókn í Norðvesturríkjunum. Þetta sé í raun einfaldasta fyrirkomulag hjólaferðamennsku og sé sérstaklega vinsælt meðal þeirra sem vilji til dæmis nýta núverandi samgönguhjól til að fara aðeins út fyrir malbikið eða út í sveitirnar án þess að þurfa að bæta neinum búnaði við. Eina sem þurfi sé karfa (eða bögglaberi) framan á hjólið og svo sé settur vatnsheldur ferðapoki ofan í körfuna og fólk hjólar t.d. að gistiheimili úti á landi eða bara fyrir langan dagstúr. Þau hafi hannað og selt töluvert af þessum töskum sem fólk noti einnig þegar það fari í vinnu eða út í búð.
Helsti markaður Loam er enn á vesturströndinni og þá aðallega í norðvesturhlutanum, en þó eru þau farin að selja víðar um Bandaríkin og jafnvel erlendis að sögn Alans. Það sem geri slíka útrás á alþjóðamarkaðinn erfiða sé flutningskostnaður, en þau segjast samt eiga von á því að slík sala taki við sér með tímanum.
Samstarf við hjólaframleiðendur
Til viðbótar við að selja sjálf vörur í gegnum heimasíðuna sína hafa þau einnig tekið upp samstarf við brugghús í nágrenninu og hafa meðal annars hannað hjólatösku framan á hjól sem passar fullkomlega fyrir kippu af bjór. Að lokum nefna þau að nýlega hafi þau hafið samstarf við breiðhjólamerkið Corvus sem nú bjóði upp á töskur fyrirtækisins með hjólum sem þau selja.
Spurð um framhaldið og hvernig þau vilja sjá næstu ár þróast segir Alan að skemmtilegt væri að auka samstarf við hjólaframleiðendur, annaðhvort með því að töskurnar séu seldar með hjólum, eða þá að þau komi upp gagnagrunni yfir mál fyrir ákveðin hjólamerki og að vísað sé á þau sem töskuframleiðanda sem framleiði töskur sem passi fullkomlega fyrir viðkomandi hjól.
Hjólið hluti af viðlegubúnaði
Að lokum segir Alan að með mikilli þróun í efnum fyrir útivistarvörur á undanförnum árum hafi ýmsar hugmyndir sprottið upp sem hann horfi til. Vill hann þá nýta reynslu sína af löngum hjólaferðum og hanna vörur sem passa fyrir þá sem horfa til hugmyndafræðinnar um ofurlétta ferðamennsku (e. ultra light travel). Segir hann að nýleg efni sem séu einstaklega létt hafi verið að koma inn á markað fyrir göngufólk sem vilji ferðast ofurlétt og að hann vilji færa það að einhverju leyti yfir á ferðahjólamennsku.
Nefnir hann sem dæmi að í dag séu komin mjög létt regnheld efni. Hans hugmynd er að þróa einhvers konar ábreiðu sem nýti sér hjólið í staðinn fyrir stangir og þannig sé hægt að létta viðlegubúnaðinn nokkuð. Þetta sé allavega verkefni sem hann sé byrjaður að vinna að og verður áhugavert að sjá hvort hann skili sér að lokum út á markaðinn.