Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Stærsta verkefni nýrrar kerfisáætlunar Landsnets felst í styrkingu hringtengingar byggðalína, en ný tenging á milli Akureyrar og Hvalfjarðar mun bæta flæði raforku á milli austur- og suðursvæðis. Að sunnanverðu er þó eftir að skilgreina lokaþrep hringtengingarinnar, en það verkefni er í undirbúningi hjá fyrirtækinu með rannsóknum næstu tvö árin.
Kerfisáætlun Landsnets er nú komin í opið umsagnarferli en þar er lýst þeim verkefnum sem unnið er að sem og þeim sem fyrir höndum eru. Landsnet bendir á að takmörkuð flutningsgeta raforku á milli landshluta valdi því að ekki sé hægt að fullnýta virkjanir, en einnig takmarki þetta ástand uppbyggingu nýrrar orkuframleiðslu. Telur fyrirtækið að flutningstakmarkanir hafi kostað þjóðarbúið 11-15 milljarða króna á ári og eru þá ekki glötuð tækifæri í atvinnuuppbyggingu tekin með í reikninginn.
Meðal þeirra verkefna sem unnið er að og ljúka á í ár eru nýtt tengivirki á Njarðvíkurheiði, endurnýjun tengivirkja á Vegamótum, við Korpu og við Mjólká, en síðasttalda tengingin kemst í gagnið á næsta ári. Þá á að ljúka lagningu Suðurnesjalínu 2 á þessu ári sem og Vestmannaeyjalínu 4 og 5.
Hefja á vinnu við stækkun tengivirkis við Sigöldu í ár sem og tengingu við vindorkuverið Vaðöldu, en á næsta ári á vinna við Blöndulínu 3 að hefjast. Þá er og ætlunin að nýtt tengivirki í meginflutningskerfinu á Suðurlandi verði byggt, en við það mun Hvammsvirkjun í Þjórsá tengjast þegar fram líða stundir.