Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, hefur ákveðið að hætta að leika með landsliðinu. Steinunn tilkynnti um ákvörðun sína í samtali við RÚV eftir að Ísland tryggði sér sæti á HM 2025 í gærkvöldi

Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, hefur ákveðið að hætta að leika með landsliðinu. Steinunn tilkynnti um ákvörðun sína í samtali við RÚV eftir að Ísland tryggði sér sæti á HM 2025 í gærkvöldi. Hún er 34 ára línumaður og öflugur varnarmaður sem tók þátt á sínu fyrsta og eina stórmóti á EM 2024 í Innsbruck í Austurríki.

Knattspyrnuþjálfarinn Frank Lampard hefur verið kærður af enska knattspyrnusambandinu vegna hegðunar sinnar eftir að lið hans Coventry tapaði fyrir Burnley, 2:1, í ensku B-deildinni á dögunum. Lampard fékk rautt spjald eftir lokaflautið fyrir mótmæli í garð dómarans James Bell. Gæti Lampard átt yfir höfði sér bæði bann og sekt fyrir athæfið. Lampard tók við Coventry í nóvember á síðasta ári.

Handknattleikskonan Hildur Björnsdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við ríkjandi Íslandsmeistara Vals. Nýi samningurinn gildir til næstu tveggja ára, til sumarsins 2027. Hildur er 31 árs línumaður sem gekk til liðs við Val frá Fylki árið 2017. Hefur hún verið fyrirliði Vals undanfarin ár.

Genevieve Crenshaw, bandarískur knattspyrnumarkvörður, er komin til liðs við Tindastól á Sauðárkróki og ver mark liðsins í Bestu deildinni í ár. Hún kemur í staðinn fyrir Monicu Wilhelm, löndu sína, sem hefur verið einn besti markvörður deildarinnar undanfarin tvö ár. Crenshaw sló fjölda meta með háskólaliði sínu, Boise í Idaho, í vetur.

Daníel Andri Halldórsson, Emil Barja og Ólafur Jónas Sigurðsson hafa verið ráðnir aðstoðarþjálfarar kvennalandsliðsins í körfuknattleik. Þar verða þeir nýráðnum þjálfara, Pekka Salminen, til aðstoðar. Þremenningarnir þjálfa allir í úrvalsdeild kvenna, Daníel er með lið Þórs á Akureyri, Emil með Hauka og Ólafur með Stjörnuna.