Hulda Friðgeirsdóttir fæddist í Kópavogi 7. maí 1953. Hún lést 2. apríl 2025 á Landspítalanum í Fossvogi.
Foreldrar hennar voru Ólöf Sigurbjörnsdóttir, f. 13.5. 1924, d. 28.11. 2005, og Gísli Friðgeir Guðjónsson, f. 31.10. 1918, d. 14.9. 1986. Systkini hennar eru Erla, f. 1944, drengur, f. 1945, lést nýfæddur, Þóra, f. 1946, Sigurbjörg, f. 1948, Pálína, f. 1951, Fríða, f. 1954, Guðjón, f. 1959, d. 1963, og Guðjón Hreinn, f. 1964, d. 2023.
Hulda giftist Sigurði Magnússyni, f. 27.6. 1950, þann 29. apríl 1972. Börn þeirra eru Kolbrún f. 1970, Magnús Ágúst, f. 1972, og Eva Dögg, f. 1978. Barnabörnin eru sjö og barnabarnabörnin þrjú.
Hulda ólst upp í Kópavogi og gekk í skóla þar. Eftir grunnskólagöngu fór hún út á vinnumarkaðinn, vann í fiski og við verslunarstörf. Hulda var heimavinnandi á meðan börnin voru lítil. Síðar fór hún að vinna á leikskóla, lengst af á Suðurborg í Reykjavík, alls 33 ár.
Þau hjón áttu sumarbústað þar sem þau dvöldu mikið í og hafði Hulda gaman af veiði í læknum við bústaðinn.
Útför Huldu fer fram frá Lindakirkju í dag, 11. apríl 2025, klukkan 11.
Hvert blóm, sem grær við götu mína,
er gjöf frá þér,
og á þig minnir allt hið fagra,
sem augað sér.
Sól og jörð og svanir loftsins
syngja um þig.
Hvert fótspor, sem ég færist nær þér,
friðar mig
(Davíð Stefánsson)
Þinn eiginmaður,
Sigurður.
Elsku mamma mín.
Kveðjustundin kom allt of fljótt eftir stutta og erfiða baráttu við veikindi. Þú sem varst alltaf hraust og misstir varla úr dag í vinnu á Suðurborg. Svo kom áfallið og ekkert fékkst neitt við ráðið.
Þú varst alltaf svo fín og heimilið svo hreint og flott og þú kenndir mér að ganga vel um eigur mínar. Ég hef tekið það með mér allan minn búskap. Börnin og aðrir gera grín að mér en ég læt það sem vind um eyru þjóða enda skal allt vera „spikk og span“ eins og þú kenndir mér.
Þið pabbi elskuðuð að vera uppi í bústað, bera á, hugsa um gróðurinn og vera með falleg blóm í kringum ykkur. Veiðimennskan var þér í blóð borin og þú elskaðir að veiða í sveitinni þar sem við áttum fallegar og dýrmætar stundir saman. Þú varst ótrúlega lunkin í veiðinni og náðir þeim nokkrum stórum. Einnig varstu dugleg í berjatínslunni með pabba og við fórum ekki varhluta af því enda færðuð þið okkur ber í kílóavís.
Mér tókst að gera þig að mjög ungri ömmu þegar þú varst aðeins 35 ára. Þú stóðst þig heldur betur vel í ömmuhlutverkinu og varst besta amma sem hægt er að eignast. Þú prjónaðir svo falleg ungbarnaföt á börnin mín og auðvitað reyndir þú að kenna mér að prjóna. Ég hafði því miður ekki sömu hæfileika og þú þegar kemur að prjónaskapnum þannig að þú fékkst að sjá um þetta ein og sér.
Mikið á ég eftir að sakna símhringinganna okkar á milli. Þú vildir fylgjast með fólkinu þínu og vita hvað við værum að bralla. Það er erfitt að hugsa sér lífið án þín en þú kenndir mér að vera sterk svo ég ætla að reyna mitt besta.
Elsku besta mamma mín. Ég kveð þig með mestu sorg sem ég hef upplifað. Síðustu orð þín til mín á sjúkrabeðnum nokkrum klukkustundum áður en þú sofnaðir svefninum langa voru: „Eva, Kolla, Maggi … hvað get ég gert fyrir ykkur?“
Þú ert gull og gersemi
góða besta mamma mín.
Dyggðir þínar dásami
eilíflega dóttir þín.
Vandvirkni og vinnusemi
væntumþykja úr augum skín
Hugrekki og hugulsemi
og huggun þegar hún er brýn.
Þrautseigja og þolinmæði
– kostir sem að prýða þig.
Bjölluhlátur, birtuljómi,
barlóm, lætur eiga sig.
Trygglynd, trú, já algjört æði.
Takk fyrir að eiga mig.
(AÞ)
Kolbrún Jónsdóttir.
Elsku mamma.
Ég trúi því varla enn að þú sért farin, ég gríp sjálfa mig oft við það að ætla að taka upp símann og hringja í þig til að segja þér frá deginum.
Það átti enginn von á því að þú yrðir tekin frá okkur svo fljótt, ég man er við sátum uppi á spítala og ræddum saman um lífið og tilveruna, vonin sem bjó í brjósti okkar allra að þú kæmist heim og mundir styrkjast og jafnvel komast austur þótt það væri ekki nema í dagsferð en svo var fótunum kippt undan okkur og þér hrakaði og það ískyggilega hratt og þá hertók okkur hræðslan og óttinn.
Barátta þín við veikindin sýndi okkur hversu sterka en jafnframt mjúka og umhyggjusama konu þú hafðir að geyma, þakklát fyrir það góða sem lífið hafði gefið þér.
Þú minntir mig alltaf á það að vera sterk, þú varst stoð mín og stytta, varðst og verður alltaf mín fyrirmynd í lífinu og til þín gat ég alltaf leitað.
Minningarnar eru fjölmargar og man ég ófá sumur sem við áttum fyrir austan í bústaðnum, griðastaðnum sem þið pabbi byggðuð ykkur. Þar nutuð þið kyrrðarinnar, gróðursettuð tré og viðhélduð öllu því sem fylgir að eiga bústað, þangað voru allir velkomnir og alltaf var heitt á könnunni.
Margar ferðirnar áttum við niður í læk hvor með sína veiðistöngina, íklæddar veiðivestum með beitu í boxi og poka fyrir aflann, nú átti sko að veiða þann stóra.
Veiðin var nú misgóð en bara það að standa við árbakkann og finna að það var líf í læknum veitti okkur ómælda ánægju og gleði.
Elsku mamma mín, ég mun varðveita þinn veiðistað og landa þessum stóra fyrir þig.
Kærleikurinn þinn, viskan og hlýjan munu ætíð fylgja mér.
Hvíldu í friði elsku mamma.
Eva Dögg Sigurðardóttir.
Elsku Hulda.
Það er maí 2015 og fallegur sólskinsdagur í Reykjavík. Ég er nýbúinn að kynnast henni Kollu dóttur þinni. Reyndar eru bara liðnir tveir dagar frá því að við hittumst fyrst þannig að þetta er enn leynisamband. Við höfðum ákveðið að taka smá göngutúr í Elliðaárdalnum og erum að rölta til baka. Þegar við eigum um 20 metra eftir að íbúð Kollu í Máshólunum sjáum við að það stendur kona fyrir framan íbúðina. Kolla stynur þá upp: „Þetta er mamma.“ Eitt augnablik látum við okkur detta í hug að hoppa inn í næsta runna en það er of seint. Þú ert búin að koma auga á okkur og það er engin undankomuleið.
Þarna voru mín fyrstu kynni af þér og aldrei bar minnsta skugga á okkar vináttu. Þú umvafðir mig með ást og kærleika frá fyrsta degi, jafnvel þótt mér hafi vafist tunga um tönn þarna á fyrstu metrunum, kynnt mig a.m.k. tvisvar og bullað einhverja tóma vitleysu.
Það sem mér fannst einkenna þig var jákvæðni, gleði, vinátta, hlýja og síðast en ekki síst góður húmor. Síðasta grínið þitt kom stuttu fyrir andlátið. Kolla var að laga þig eitthvað til í rúminu, það gekk frekar illa og hún vildi fá aðstoð frá sjúkraliðunum. Þú varst aldeilis ekki á því og vildir meina að hún gæti nú alveg bjargað þessu. Kolla hélt áfram að laga þig til en var ekki nógu ánægð með niðurstöðuna og talaði aftur um að fá aðstoð frá sjúkraliðunum. Þá segir þú með glettnissvip við Kollu að hún sé ekkert sérstaklega góður sjúkraliði. Kolla svarar að bragði og spyr hvort hún sé rekin. Það stendur ekki á svari frá þér: „Nei – en þú ert á hálfum launum.“
Það er ótrúlega sárt að horfa á eftir þér elsku Hulda og verða dapur yfir öllu sem ég, Kolla, þú og Siggi áttum eftir að afreka saman hvort sem það voru tónleikar, leikhús, veiðiferðir eða golfhringurinn sem aldrei varð af. Við yljum okkur við allar góðu minningarnar.
Síðasta skiptið sem ég sá þig á lífi þá hafði ég gleymt gleraugunum á borðinu hjá þér þegar við Kolla vorum að labba út. Ég sný mér við, set gleraugun upp, og þá horfir þú beint á mig smá brosandi. Þessi mynd er föst í höfðinu á mér enda fannst mér þú bara vera að segja: „Takk fyrir allt, það verður allt í lagi.“
Það var yndislegt að fá að kynnast þér elsku Hulda mín. Ég mun hugsa vel um Kollu þína. Ég dáist að viljastyrknum og þrautseigjunni sem þú sýndir fram á síðasta dag. Tíminn var bara allt of stuttur.
Sigurður Olsen.
Elsku amma, aldrei hefði ég trúað að lífið færi í þessa átt, ég á erfitt með að trúa því að þú sért ekki lengur hér hjá okkur. Æskuminningarnar þegar þú kenndir mér að veiða, við tíndum bláber og þegar þú fórst með mér á leikvöllinn sitja djúpt í huga mér. Amma mín, þú varst falleg að utan sem innan og hugsaðir alltaf um aðra á undan sjálfri þér.
Ljúfari manneskju hef ég ekki kynnst og mun ég alltaf líta upp til hennar, hún er mín fyrirmynd. Ég verð ávallt þakklát fyrir ömmu mína og mun ég varðveita hana og minningar okkar í hjarta mínu.
Ég elska þig amma.
Þín
Hulda Björg.
Í dag kveðjum við ástkæra systur okkar, hana Huldu. Hún var næstyngst af okkur systrunum, sem vorum sex.
Í september árið 1959 fæddist yndislegur bróðir, hann Guðjón, sem var búið að bíða eftir lengi. Hann lést eftir erfið veikindi á fjórða árinu. Annar yndislegur bróðir, hann Guðjón Hreinn, fæddist í júní árið 1964, hann lést í janúar 2023. Við vorum uppalin á Álfhólsveginum í nálægð við Álfhólinn þar sem ekki mátti vera með ólæti eða príla á honum, okkur krökkunum var sagt að álfar byggju í hólnum, sem við krakkarnir tókum mjög alvarlega. Ekki mátti ónáða álfana. Foreldrar okkar voru dugleg að fara með krakkaskarann í útilegur, oft var farið til Þingvalla, reynt að veiða í vatninu með misgóðum árangri. Stundum fór stórfjölskyldan saman í útilegu, Hlíf og Tommi, Lóa og Siggi og Inga og Fúsi, þá var fjör og gaman hjá krökkunum. Eitt sumarið fór Hulda með Þóru til Hlífar og Tomma og krakkanna, þau bjuggu í Otradal við Arnafjörð. Við sigldum með Esjunni, það var mikil upplifun og góðar minningar. Það var alltaf gott að koma til Huldu og Sigga í fallega sumarbústaðinn þeirra, þar sem þau nutu þess vel að vera og gera hann enn fallegri en hann er.
Með mikilli sorg og söknuði kveðjum við þig elsku Hulda okkar, við munum geyma allar góðu minningarnar sem við eigum. Innilegar samúðarkveðjur til elsku Sigga og fjölskyldunnar.
Þegar raunir þjaka mig
þróttur andans dvínar
þegar ég á aðeins þig
einn með sorgir mínar.
Gef mér kærleik, gef mér trú,
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni
láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
(Ómar Ragnarsson/
Gísli á Uppsölum)
Þínar systur
Erla, Þóra,
Sigurbjörg (Sibba), Pálína og Fríða.