Baldur Einarsson fæddist á Ísafirði 26. maí 1932. Hann lést á Hrafnistu Ísafold 29. mars 2025.

Foreldrar hans voru Einar Kristbjörn Garibaldason sjómaður, f. 22. nóvember 1888, d. 27. júní 1968, og Margrét Jónína Einarsdóttir, f. 20. september 1895, d. 27. febrúar 1959.

Baldur var yngstur sjö systkina, hin voru: Einar Garibaldi, f. 13. janúar 1919, d. 9. desember 1969; Hannibal Guðmundur, f. 20. mars 1920, d. 8. nóvember 1988; Óskar Pétur, f. 20. mars 1920, d. 14. apríl 1996; Lúðvík, f. 21. október 1921, d. 17. september 1997; Jónína Margrét, f. 20 september 1927, d. 7. október 2001; Bragi, 26. maí 1932, d. 25. september 2011.

Baldur giftist Evu Lisu Lappalainen en þau slitu samvistum 1958. Hún lést í bílslysi 1963 í Bandaríkjunum. Börn þeirra eru: 1) Irja Maríanna, f. 20. desember 1952. Börn hennar eru Eva Lisa, f. 1969, Brandur Skafti, f. 1973, og Óskar Viekko, f. 1975. 2) Elvi, f. 1. september 1954. Gift Helga Gunnari Jónssyni, f. 1958. Börn þeirra eru Kristbjörg, f. 1974, Lúðvík Baldur, f. 1975, og Lilja, f. 1984. 3) Hjörleifur Lúðvík, f. 21. nóvember 1956. Giftur Hafdísi Magnúsdóttur, f. 1958. Börn þeirra eru Hilmar, f. 1979, Baldur, f. 1983, og Björg Eva, f. 1991. Baldur átti 11 langafabörn og tvö langalangafabörn.

Baldur hóf starfsferil sinn ungur drengur sem sendill á hjóli, þar sem hann og tvíburabróðir hans Bragi hjóluðu um Ísafjörð sem sendlar fyrir kaupfélagið. Baldur lærði til vélstjóra og fór ungur til sjós og var bæði á fiskibátum og fraktskipum. Hann vann við Búrfellsvirkjun. Þaðan fór hann í Straumsvík þar sem hann starfaði í 30 ár og lauk starfsferli sínum þar.

Útför Baldurs fer fram frá Digraneskirkju í dag, 11. apríl 2025, klukkan 13.

Elsku pabbi.

Megi drottinn leiða þína hönd

um fögur drauma- og sumarlönd,

endurvekja þín góðu kynni

sem sælu veittu sálu þinni.

(Elvi)

Ort til pabba á 75 ára afmæli hans:

Hann afi er dáðardrengur

sem siglt hefur flestar strendur.

Hann er svo kænn, hreint indæll,

algjör dugnaðardrengur.

Hann laginn er og fylginn sér

með Sniglunum ákveðinn gengur.

Sem barn á Ísafirði

viss ’ann hvað vild ’ann yrði.

Vélstjórann hann lærði þá.

Vélarnar hann kunni á – folinn frá
Skagafirði.

Sigldi á erlendar strendur.

Náði í konu, eins og gengur,

og út úr því kom

einlæg von – tvær telpur og einn
drengur.

Á Skaganum við mjólkina vann.

Aftur kallaði sjórinn á hann.

Búrfell var svo næsta mál

Eftir það Ísal-ál

þar sem hann starfaði í 30 ár.

Fjörugir urðu afkomendur hans

og úr því mikill barnafans.

Níu stykki barnabörn – sex
barnabarnabörn.

Sannkallað ríkidæmi auðkýfingsins.

Já, hann afi er ávallt hress og kátur

og léttur eins og strákur.

Þótt nú séu 75 ár liðin

er hann afi klár – bæði á landið og
miðin.

Leikur á börn og barnabörn

og jafnvel barnabarnabörn

þau veita honum langa törn.

Og hvað sem ykkur kann um þessa
vísu að finnast

þá hvert sem hann fer,

mætir ungum sem öldnum, mér
eða þér,

þykir öllum víst

að honum er gott að kynnast.

Hvíl í friði, elsku pabbi.

Þín dóttir,

Elvi.

Elsku afi er fallinn frá. Það var alltaf best að vera með afa og skilur hann eftir stórt skarð í hjörtum okkar sem þekktum hann. Þegar ég hugsa til baka koma upp óteljandi minningar. Afi var alltaf til í að gera eitthvað skemmtilegt og frá því að ég var lítil stelpa var það þannig að ef mig langaði að gera eitthvað þá var hann yfirleitt strax til í það, og ef hann var ekki til í það alveg strax þá þurfti ég ekki að leggja mikið á mig til að sannfæra afa um að mitt plan væri mjög gott plan. Hvort sem það var að gefa öndunum brauð, fara í búðir – og jafnvel kaupa eitthvað fallegt, skella okkur í ferðalag, eða í ísbúð í vondu veðri.

Það var ótal margt sem við brösuðum saman í gegnum tíðina, ég og afi. En þegar þetta er rifjað upp er ekki hægt annað en að hugsa líka til stóra afa. Við systkinin vorum svo heppin að eiga auka afa, Lúðvík sem við kölluðum stóra afa, en hann var eldri bróðir afa okkar, sem við kölluðum lilta afa.

Afarnir voru ávallt til í ævintýri. En ég er heppin að vera töluvert yngri en systkini mín, svo að þegar þau voru eldri og hætt að fara í pössun var ég ennþá lítil og fékk óskipta athygli afanna og upplifði ég mig alltaf sem litlu prinsessuna þeirra.

Ég og afarnir vorum bestu vinir og ég hef alltaf sagt að þeir hafi kennt mér allt sem ég kann. T.d. að spila og leggja kapal, telja og reikna, elda og baka, þrífa og vaska upp, þeir kenndu mér að hjóla og seinna kenndi litli afi mér að keyra. Foreldrar mínir kenndu mér þetta líka, en það var bara miklu skemmtilegra að læra þetta hjá öfunum.

Afi var alltaf að gera eitthvað fyrir mig, segja mér sögur frá því að hann var lítill strákur á Ísafirði, klóra mér á bakinu, skutla mér eða gefa mér eitthvað gott að borða, en maturinn hans afa var bestur. Þegar afi varð eldri var ég svo glöð að geta borgað til baka, sagt honum sögur af mér og mínum, greitt á honum hárið, farið með hann í stuttar ferðir og gefið honum gott að borða.

Afi, þú munt alltaf vera besti afi í heimi og ég er glöð yfir að Haddi, og dætur okkar, Kolbrún Elvi 15 ára og Katrín Lilja 13 ára, fengu að kynnast þér mjög vel. Mér þykir þó sárt að Kolbeinn Reynir 11 mánaða hafi einungis fengið að hitta þig nokkrum sinnum undir lokin, en við munum segja honum frá því hvað þú og stóri afi voruð stór partur af lífi okkar og hvað við vorum heppin að eiga ykkur að. En hann Kolbeinn virðist nú þegar vita þetta allt, því hann vaknar á morgnana og segir „afa“ alveg þar til við förum með hann að myndinni af þér og þá strýkur hann yfir myndina og bendir upp til himins.

Mig langar að segja miklu meira því þú átt skilið að stanslaust sé talað um hvað þú varst frábær og alls staðar vel liðinn. En ég hugga mig við það að við höfum alltaf passað upp á að sýna þér og segja hversu mikið við elskum þig og hversu þakklát við erum fyrir að hafa fengið að eiga þig sem afa.

Við elskum þig afi, mest í öllum heiminum, þúsund sinnum takk fyrir allt. Hvíldu í friði.

Þínir bestu vinir,

Lilja Helgadóttir, Hörður Reynir, Kolbrún Elvi, Katrín Lilja og Kolbeinn Reynir.

Elsku besti afi og langafi.

Okkur langar að minnast þín með nokkrum orðum sem aldrei verða nógu mörg eða nægileg til að lýsa allri þeirri ást og hlýju sem þú gafst okkur.

Alla tíð fannst okkur gott að vera hjá afa og stóra bróður hans, Lúðvík, og við kölluðum ykkur oft litla afa og stóra afa.

Við vorum mikið hjá öfunum og eru minningarnar margar. Við spiluðum mikið ólsen-ólsen og veiðimann, lékum okkur uppi í stóru hillunni fyrir ofan fatahengið – þar sem við mátuðum allar húfur og hatta, og fengum að skoða inn í alla skápa og geymslur. Þetta þótti okkur skemmtilegt.

Við fórum mikið saman t.d. í útilegur, veiðiferðir, bústaðaferðir, á höfnina að skoða skipin og til útlanda, og stendur Danmerkurferðin sumarið 1983 mikið upp úr, enda var það yndisleg ferð.

Afarnir voru spenntir fyrir enska boltanum og fannst Krissu alltaf gaman að horfa með þeim á leik. Einnig höfðu þeir gaman af því að horfa á kúrekamyndir og nutum við þess að horfa með þeim.

Afi var sérstaklega barngóður maður og naut þess að vera innan um öll börn okkar systkinanna. Það eru því ófáar minningarnar sem við getum yljað okkur við.

Afi var með alzheimer og voru síðustu árin honum erfið, því er gott að vita að nú er hann kominn á betri stað með foreldrum sínum og systkinum.

Afarnir voru englar og ljós í lífi okkar. Takk fyrir alla þá ást og hlýju sem lifir í minningunni.

Hvíl í friði.

Þín afabörn,

Kristbjörg, Lúðvík Baldur og fjölskyldur.