Norlandair var eina flugfélagið sem gerði tilboð í flug frá Reykjavík til Gjögurs og Bíldudals.
Vegagerðin bauð í febrúar út rekstur á áætlunarflugi – sérleyfissamningi, á eftirfarandi flugleiðum:
(F1) Reykjavík – Gjögur – Reykjavík og (F2) Reykjavík – Bíldudalur – Reykjavík.
Tilboð voru opnuð 1. apríl og barst eitt tilboð, frá Norlandair. Hljóðaði það upp á vegið einingaverð á sæti 45.501 króna án virðisaukaskatts.
Samningstími er þrjú ár, frá 16. nóvember 2025 til 15. nóvember 2028, með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum, eitt ár í senn.
Styrkfjárhæð fyrir báðar flugleiðirnar (F1) og (F2) er 990.000.000 krónur fyrir heildarverkið, þ.e. í þrjú ár.
Starfsmenn Vegagerðarinnar eru að yfirfara tilboðið.
Norlandair er núverandi sérleyfishafi á flugi til Gjögurs og Bíldudals. Þá tók Norlandair nýlega við flugi til Hafnar í Hornafirði eftir að Mýflug óskaði eftir að losna undan samningi við Vegagerðina um þá flugleið.
sisi@mbl.is