Íshokkí
Gunnar Egill Daníelsson
Einar Sigtryggsson
Skautafélag Akureyrar er Íslandsmeistari karla í íshokkí eftir að hafa lagt Skautafélag Reykjavíkur örugglega að velli, 6:1, í þriðja úrslitaleik liðanna í Skautahöllinni á Akureyri í gærkvöldi.
SA vann einvígið þar með 3:0 samanlagt og endurheimti Íslandsmeistaratitilinn um leið úr greipum SR, sem hafði staðið uppi sem sigurvegari undanfarin tvö ár. SA hefur nú orðið Íslandsmeistari í karlaflokki alls 24 sinnum, oftast allra félaga. Fyrsti leikhlutinn var stál í stál eins og við mátti búast. Um miðjan leikhlutann kom fyrsta markið. Lukas Dinga skoraði það fyrir SR í yfirtölu. Í kjölfarið kom stangarskot og heimamenn sluppu fyrir horn. Unnar Rúnarsson jafnaði leikinn skömmu síðar er SA var í yfirtölu.
SA tók leikinn yfir
Heilt yfir gátu leikmenn SA verið sáttir við stöðuna 1:1 eftir leikhlutann þótt þeir væru oftar í yfirtölu en SR-ingar. Það voru nefnilega gestirnir sem fengu bestu færin og sluppu meðal annars í þrígang einir í gegn. Róbert Steingrímsson markvörður SA sá til þess að ekki kæmu fleiri mörk frá SR.
Það var svo í öðrum leikhluta sem heimamenn í SA tóku leikinn hreinlega yfir. Þeir skoruðu hálfgert heppnismark snemma í leikhlutanum. Unnar var þá að koma úr refsiboxinu og hann fór beint í að fylgja eftir eins manns sókn Orms Jónssonar og setti pökkinn í netið.
Fór allt á fullt
Eftir annað mark Unnars fór allt á fullt hjá báðum liðum og það lá við að leikmenn réðu ekki við hraðann. Leikmenn misstu af mörgum pökkum og fátt var um færi. SA herti svo tök sín á leiknum smám saman og tvö mörk, frá Una Blöndal og Jóhanni Leifssyni, á þremur mínútum komu SA í 4:1. Eftir það var ekki aftur snúið. Nú var að duga eða drepast fyrir SR-inga og þeir mættu mjög beittir inn í lokaleikhlutann. Sóknir þeirra voru þungar og skothríðin dimm. Það var samt SA sem skoraði næsta mark eftir skyndisókn. Ólafur Björgvinsson kom SA þá í 5:1. Tíminn vann svo með heimamönnum og þeir gáfu engin færi á sér. Smám saman gáfu SR-ingar eftir á meðan Andri Már Mikaelsson skoraði sjötta mark SA áður en yfir lauk.