Hákon Þór Árnason rekstrarstjóri Fjallakofans segir algjör forréttindi að geta hjólað á fjallahjólum frá Rocky Mountain með fjölskyldunni.
Hákon Þór Árnason rekstrarstjóri Fjallakofans segir algjör forréttindi að geta hjólað á fjallahjólum frá Rocky Mountain með fjölskyldunni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er fæddur og uppalinn á höfuðborgarsvæðinu en er alinn upp á fjöllum eins og sagt er því frá barnæsku var manni dröslað um hálendi Íslands með foreldrum mínum á Econoline-bifreið fjölskyldunnar. Við vorum á fjöllum bæði á sumrin og á veturna og…

Ég er fæddur og uppalinn á höfuðborgarsvæðinu en er alinn upp á fjöllum eins og sagt er því frá barnæsku var manni dröslað um hálendi Íslands með foreldrum mínum á Econoline-bifreið fjölskyldunnar. Við vorum á fjöllum bæði á sumrin og á veturna og ætli þaðan sé ekki kominn áhugi minn á fjallamennsku sama í hvaða formi hún er en við fjölskyldan förum í gönguferðir á fjöll, við förum í fjallahjólreiðar, skíðaferðir og á vélsleða saman,“ segir Hákon Þór Árnason rekstrarstjóri Fjallakofans.

Í verslun Fjallakofans í Hallarmúla 2 má finna glæsilegt úrval af fjallahjólum frá Rocky Mountain. „Það er kanadískur framleiðandi sem framleiðir þessi gríðarlega vönduðu hjól en við viljum leggja áherslu á fjallahjólreiðar og látum aðra um að selja borgarhjólin. Sjálfur er ég duglegur að hjóla á fjöllum og er kominn á rafmagnshjól sem er algjörlega frábært. Ég er að sjálfsögðu á fulldempuðu fjallarafmagnshjóli frá Rocky Mountain. Það er svo mikið frelsi sem fylgir hjólreiðum á fjöllum og það er gjörsamlega æðislegt að vera á rafmagnsfjallahjólum en hjólaferðirnar lengjast mikið við að vera á rafmagni. Þær þurfa í sjálfu sér ekki að vera auðveldari en þú ræður hversu erfitt þú hefur það að hjóla. Með tilkomu rafmagnsins stækkar hjólahringurinn sem þú getur farið. Það er lítið mál að taka Hengilinn á einum degi, eða Jaðarinn sem er þekkt hjólaleið í kringum höfuðborgarsvæðið. Jaðarinn fram og til baka er þægileg ferð og erum ég og konan mín og börn með fjallahjólreiðar sem fjölskyldusportið okkar. Þar sem við erum enn þá með litla krakka þá sitja þeir framan á hjólunum okkar í sérstökum barnasætum.“

Rocky Mountain-fjallahjólin eru fyrir alla

Rocky Mountain er mjög vandað vörumerki sem skilar einvörðungu af sér vönduðum hjólum að sögn Hákons. „Það er mikið lagt í hjólin og þar sem framleiðandinn er kanadískur þá stílar hann inn á hjólreiðar um kanadísku fjöllin en hjólin hafa reynst mjög vel í evrópskri náttúru og hafa því rutt sér til rúms hér líka. Rocky Mountain-fjallahjólin eru fyrir alla, bæði keppnisfólk og almenning. Hjólamerkið býður upp á mjög breiða línu af hjólum sem hentar bæði fyrir þau sem eru að stíga sín fyrstu skref í hjólreiðum upp í vant keppnisfólk.“

Hákon segir viðskiptavini Fjallakofans kunna að meta að þurfa ekki að fara á marga staði að leita sér að búnaði til að hjóla á fjöllum. „Við viljum vera með allt á einum stað fyrir fjallahjólreiðar og bjóðum upp á hjól, hjólafatnað, öryggisbúnað, töskur, hanska og þessi barnasæti framan á hjólin frá Shotgun sem við hjónin notum mikið fyrir börnin okkar.

Börnin sitja þá framan á hjólunum í staðinn fyrir að sitja aftan á og verða þannig meiri þátttakendur í hjólreiðunum. Þegar þau sitja fyrir framan geta þau haldið í stýrið með þér og má segja að stærsta vandamálið okkar þegar kemur að börnunum framan á hjólunum sé að maður skreppur ekki í stuttar ferðir með þau því það er meiriháttar mál að fá þau til að fara af hjólunum, sem er náttúrlega yndislegt í sjálfu sér,“ segir hann.

„Það fer enginn út að hjóla nema að vera með hjálm“

Höfuðborgarsvæðið er stútfullt af hjólaleiðum fyrir fjallahjólreiðafólk að mati Hákons. „Það er auðveldast að nefna Öskjuhlíðina ef þú vilt taka bara skottúr þar sem eru tugir kílómetra af göngustígum og hjólabrautum. Svo er hægt að hjóla upp allan Elliðaárdalinn, inn í skóginn undir Breiðholtinu og svo má hjóla hringinn í kringum Breiðholtið. Þá er hægt að halda áfram á rafmagninu upp í Heiðmörk og alla Vífilsstaðina. Þessar leiðir eru allar í skotfæri og auðvelt að fara þær á fjallahjólum, að ég tali nú ekki um þegar þú ert á fjallarafmagnshjóli.“

Hákon segir miklu máli skipta að huga að öryggi í fjallahjólreiðum og hefur Fjallakofinn sérhæft sig í öllu því nýjasta sem finna má á markaðnum því tengdu. „Það fer enginn út að hjóla nema vera með hjálm. Svo höfum við verið að færa okkur í fjallahjólreiðum í að vera með mjög létta og flotta bakpoka með bakbrynju sem ég mæli með fyrir alla og fást þeir í Fjallakofanum. Svo er mjög algengt að fólk sé með léttar olnboga- og hnjáhlífar. Þetta er svona grunnurinn í öryggisbúnaði en að sjálfsögðu skiptir einnig hjólafatnaðurinn máli og fæst hann hjá okkur líka.“

„Um að gera að vera ekki feimin við að koma börnum á fjallahjól sem fyrst“

Hvernig undirbýr maður börnin fyrir fjallahjólreiðar?

„Það er í rauninni bara gert með því að koma þeim sem fyrst á fjallahjól. Reiðhjól er ekki það sama og reiðhjól. Að koma ungu barni á fjallahjól kennir því ásetu á hjólinu sem fyrst en á fjallahjóli er stýrið framar og neðar en á hefðbundnu hjóli. Þú ert þannig ekki með stýrið alveg í fanginu heldur hallar þér fram yfir það svo þyngdarpunkturinn er annar og þá er betra að hjóla standandi. Það er mjög mikill munur á því að sjá fjögurra ára börn hjóla á barnagötuhjóli eða barnafjallahjóli, hvað þau eru fljót að venjast er alveg magnað. Svo er bara um að gera fyrir foreldra að vera ekki feimin við að koma börnum á fulldempuð fjallahjól sem fyrst eða þegar þau eru tilbúin í hjól sem eru 24 tommu sem eru hjól númer þrjú, þá bara um að gera að kenna þeim á það.

Það er oft verið að tala um að mikil verðmæti séu fólgin í því að fjölskyldan geri hluti saman. Ég segi að besta fjárfesting í samveru er án efa að koma bara við í verslun Fjallakofans og finna rétta reiðhjólið fyrir alla í fjölskyldunni og fara síðan bara út að æfa sig að hjóla. Það gerist ekki mikið betra,“ segir Hákon.

Fjölskyldan nýtur allra tækifæra sem gefast til að hjóla saman

Ættum við öll að vera að hjóla á fjöllum í sumar?

„Já, ég mæli klárlega með því. Fjallahjólreiðar eru fjölskyldusport eins og það gerist best. Eins og við hjónin höfum gert þetta, þá byrjuðum við með þau þriggja mánaða á kerru aftan á hjólinu okkar. Þetta eru sérstök ungbarnasæti og þegar þau eru orðin tólf mánaða þá eru þau komin framan á hjólin. Þá nýtist kerran bara til að fara í lengri ferðir með skóflur og fötur, nesti og þurran fatnað. Það er ótrúlega skemmtilegt að hjóla um þessa ævintýraveröld sem er allt í kringum um okkur á Íslandi. Við sem þekkjum þessa töfra verðum að breiða út boðskapinn um hvað það fylgir því mikið frelsi að hjóla um landið, sérstaklega þegar við erum á rafmagnsfjallahjólum. Ég þekki í það minnsta engan sem hefur séð eftir því að kaupa sér slíkt hjól,“ segir Hákon Þór Árnason rekstrarstjóri Fjallakofans að lokum og bætir við að vanir hjólreiðamenn finni muninn á Rocky Mountain og öðrum hjólum. „Því fjallahjólin eru hönnuð af fjallahjólurum fyrir fjallahjólara.“