Matseðill Sitt sýnist hverjum um hversu girnilegir réttirnir eru.
Matseðill Sitt sýnist hverjum um hversu girnilegir réttirnir eru.
Ýmsar leiðir til skattlagningar og gjaldtöku í ferðaþjónustu eru reifaðar í minnisblaði sem menningar- og viðskiptaráðuneytið tók saman fyrir ríkisstjórnarflokkana vegna stefnumótunarvinnu þeirra í aðdraganda þess að ný ríkisstjórn var mynduð í desember á síðasta ári

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Ýmsar leiðir til skattlagningar og gjaldtöku í ferðaþjónustu eru reifaðar í minnisblaði sem menningar- og viðskiptaráðuneytið tók saman fyrir ríkisstjórnarflokkana vegna stefnumótunarvinnu þeirra í aðdraganda þess að ný ríkisstjórn var mynduð í desember á síðasta ári.

Morgunblaðið óskaði fyrst eftir minnisblaðinu, ásamt öðrum, 19. desember sl. en fékk þau ekki afhent fyrr en á dögunum eftir að óhóflegur dráttur á afhendingu var kærður til úrskurðarnefndar upplýsingamála.

Athygli vekur að í minnisblaðinu sem er titlað „Skattlagning og gjaldtaka í ferðaþjónustu“ eru hugmyndir að frekari skattlagningu og gjaldtöku í greininni settar fram sem „matseðill“. Fram kemur að leiðirnar séu settar fram í hugmyndaskyni og sem hugsanlegir möguleikar. Um „fjölbreyttan matseðil“ sé að ræða, en að ekki sé hægt að velja allt.

Hverju verður raðað á diskinn?

Sitt sýnist hverjum um hversu girnilegir réttirnir eru, en tíminn einn mun leiða í ljós hverjum þeirra ríkisstjórnin raðar á diskinn.

Á matseðli ríkisstjórnarinnar er meðal annars að finna 400-500 kr. gistináttagjald sem lagt yrði á alla gistingu í landinu. Er gjaldtakan rökstudd með því að 2/3 hlutar ESB-landa séu með slíkt gjald og því yrði Ísland áfram samkeppnishæft með því að taka hóflegt slíkt gjald upp aftur. Um væri þó að ræða hækkun frá því sem áður var, en áður en covid skall á árið 2020 var gistináttagjald 300 kr.

Einnig er lagt til að skoða að taka upp 1.000 kr. bílastæðagjald víðar en nú er, sem renni ekki allt til landeigenda, auk þess að skoða sérstaka gjaldtöku, til dæmis 1.000 kr. á hverja heimsókn í þjóðgarða og á helstu ferðamannastaði, ásamt möguleika á vikupassa, árskortum, vildarfélögum o.s.frv.

Þá eru sögð tækifæri til nýrrar tekjuöflunar fyrir ríkissjóð í gjaldtöku af skemmtiferðaskipum. Annars vegar er á matseðlinum að finna hugmynd að sérstöku umhverfisgjaldi á skipin, til dæmis 300 kr. nóttin á hvern farþega. Fram kemur að vel sé hægt að rökstyðja slíka sérskattlagningu, hún sé á forsendum umhverfis- og loftslagsmála og því „grænn skattur“. Þá sé, til viðbótar umhverfisgjaldinu, mögulegt að leggja gistináttaskatt á farþega skemmtiferðaskipa. Með 400 kr. gistináttagjaldi á nótt verði umhverfis- og gistináttagjald samtals 700 kr. nóttin á farþega.

„Í nafni umhverfisskatts er einnig hægt að leggja 500 kr. skatt á hvern farþega sem kemur hingað til dvalar með flugi,“ segir enn fremur. Tengifarþegar yrðu undanskildir og yrði skatturinn lagður á flugfélögin „sem varpa því áfram til farþega“. Þá sé „í nafni hvata til orkuskipta í samgöngum“ hægt að leggja 500-1.000 kr. skatt á bensín- og dísilbílaleigubíla fyrir hvern dag í útleigu. Það sé „grænt umhverfisgjald“. Sama gæti gilt um bíla sem nýttir eru í fjallaferðir með bílstjóra og leiðsögn.

Afnám ívilnana á ferðaþjónustu skapi viðbótartekjur

Á matseðlinum er mælt gegn því að færa ferðaþjónustuna upp í almennt virðisaukaskattþrep (úr 11% í 24%) vegna þess að hætt sé við að það dragi úr samkeppnishæfni Íslands. Í öðru minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu eru þó færð rök fyrir hinu gagnstæða.

Með afnámi ívilnana í ferðaþjónustu skapist viðbótartekjur sem verja megi til lækkunar skatta á atvinnustarfsemi almennt. Færð eru rök fyrir því að breytingin sé ólíkleg til að hafa áhrif á umsvif greinarinnar, enda virki gengi krónunnar sem sveiflujöfnun á greinina, auk þess sem óvíst sé að verðhækkanir hafi áhrif á eftirspurn, um sé að ræða einkasölusamkeppni því að Ísland sé ekki fyllilega samanburðarhæft við aðra áfangastaði.

Matseðillinn

Gistináttagjald 400-500 kr. hver nótt

Víðtækari bílastæðagjöld 1.000 kr.

Aðgangur að þjóðgörðum t.d. 1.000 kr. (ódýrari passar)

Gjald á skemmtiferðaskip 700 kr. hver nótt

Umhverfisskattur á komufarþega 500 kr.

Umhverfisskattur á óvistvæna bílaleigubíla 500-1.000 kr.

Varaflugvallagjald 200 kr.

Almennt VSK-þrep kemur til greina

Höf.: Andrea Sigurðardóttir