
Úr varð algjör ævintýraferð þar sem meðal annars var hjólað alla leið inn í Jökulfirði (já okkur tókst það að mestu) og hjólað í kvöldsól á leirunum í fjöruborðinu rétt eftir að sjórinn flæddi frá og upplifa stórfenglegt íslenskt sumarkvöld með öllum sínum fallegu litum. Þess má geta að um mánuði síðar mætti eitt stykki hvítabjörn á þessar sömu slóðir og gerði það ferðasöguna nokkuð skemmtilegri.
Eins og venjan er þegar haldið er í nokkurra daga ferð er fyrst sett fram aðalplan, en svo nokkur varaplön ef eitthvað bregður út af eða veður versnar. Í þessu tilfelli var planið að hefja ferð í Þorskafirði á sunnanverðum Vestfjarðakjálkanum og jafnframt einum af fyrstu fjörðunum eftir að farið er yfir Gilsfjörð. Þaðan átti að fara óvenjulega leið yfir í Ísafjarðardjúp, norður í Kaldalón og áfram í Unaðsdal og þar upp gamlan ýtuslóða yfir í Leirufjörð. Frá Leirufirði meðfram Höfðaströnd og yfir í Grunnavík og þaðan með bát til Ísafjarðar.
Í næsta skrefi var planið að fara yfir Breiðadalsheiði, Gemlufallsheiði, Selvoga og svo annaðhvort Suðurfirðina eða prófa gamla línuvegi aftur í áttina að Þorskafirði. Ekki varð þó úr öllu þessu, enda breyttist veðurspáin nokkuð eftir fyrstu dagana og þegar á Ísafjörð var komið voru gular viðvaranir komnar í kortið og því styttum við ferðina talsvert og komum okkur með smá utanaðkomandi aðstoð fyrr til baka á upphafsstað.
Hjólað upp fáfarinn dal
En byrjum á byrjuninni. Eftir vinnu á fimmtudegi var brunað vestur og gist í tjaldi í Þorskafirði við upphafsstað leiðarinnar. Í stað þess að fara yfir Þorskafjarðarheiðina, sem er þægilegur malarvegur, en á köflum með nokkuð bröttum brekkum, fórum við upp slóða í hliðardal þar sem Múlaá rennur. Við fengum hreint út sagt frábært veður þennan dag. Þó komið væri fram í lok ágúst var glampandi sól og hitastigið því að slaga yfir 10°C. Dalurinn er kjarri vaxinn og gríðarlega skemmtilegt að hjóla upp hann og frískandi lækir á hverju strái.
Hækkunin reyndi aðeins á eins og vera ber og þó flestar brekkurnar hafi verið nokkuð góðar fjallahjóli með farangur, var ein og ein nokkuð brött eða laus í sér. Þegar komið var upp á heiðina varð ljóst að þrátt fyrir sólina var að styttast í haust og hitastigið var óþarflega lágt. Þá kom líka í ljós af hverju vegurinn er mjög lítið notaður fyrir annað en hesta, en víða var nokkur aurbleyta sem þurfti að koma sér framhjá.
Fámenni og frábært útsýni
Eftir stutta matarpásu við rústir af gömlu sæluhúsi á miðri heiðinni héldum við áfram upp síðustu hækkunina. Þó nokkrum lækjum, ám og mýrarbleytu síðar komum við inn á vesturhluta gamla Þorskafjarðarvegarins, rétt áður en lækkunin ofan í Langadal tók við. Þarna vorum við á hæsta punkti og fengum frábært útsýni ofan í Ísafjarðardjúp og yfir á Snæfjallaströndina.
Ekki verður sagt að þessi hluti Þorskafjarðarvegarins sé fjölfarinn, þó hann hafi áður fyrr verið aðalleiðin fyrir þá sem voru á leið vestur til að komast inn í Ísafjarðardjúp, og líklega fara hann aðeins örfáir bílar árlega, ef þá einhver. Á leiðinni niður austurhlíðina í Langadal hafa steinar eða skriður á nokkrum stöðum laskað veginn umtalsvert og þó að lítið mál sé að fara þar yfir á hefðbundnu hjóli verður það erfiðara fyrir farartæki á fjórum hjólum. Þetta var hins vegar hin skemmtilegasta salíbuna á hjólinu og aftur hækkaði hitastigið umtalsvert og gaman að sjá kjarri grónar hlíðar dalsins og nokkra veiðimenn að renna fyrir fisk.
Sólseturssýning í Djúpinu
Ferðin hingað til hafði tekið aðeins lengri tíma en við höfðum áætlað og því var komin smá pressa á að komast sem lengst að Kaldalóni fyrir kvöldið. Þó var ekki hægt að gera annað en að stoppa stutt í náttúrulaug einni sem var á leiðinni, en Vestfirðir eru ríkir af slíkum náttúruperlum.
Á leiðinni út Langadalsströnd í átt að Skjaldfannadal fengum við svo algjöra sólseturssýningu í Djúpinu – ekta íslenskt sumarkvöld.
Að lokum komumst við um kvöldmatarleytið að Skjaldfannadal og létum þar við sitja og tjölduðum úti í móa og skelltum í okkur kvöldmat. Samtals 60 km og um 1.000 metra hækkun á samtals 10,5 klst., þar sem kílómetrarnir komu aðallega seinni hlutann.
Algjörlega sigraður andlega
Daginn eftir var aftur glampandi sól og heiður himinn. Hitastigið rísandi og útlit fyrir hreint út sagt flottan hjóladag. Við tók Kaldalónið með Drangajökulinn tignarlegan í bakgrunni og svo var farið áfram að Unaðsdal þar sem hinn formlegi vegur endar, þó að stígur sé áfram meðfram ströndinni. Okkar leið lá þó ekki meðfram sjónum, heldur upp úr Unaðsdal og gamlan smalaslóða upp á Dalsheiði. Á leiðinni þarf að þvera nokkra læki og ár, jafnvel þannig að tekur smá á þrátt fyrir að ekki hafi verið mikið í ám.
Hækkunin byrjar hægt og rólega, en svo þegar inn dalinn er komið taka við nokkrar brattar brekkur og samhliða því varð undirlagið alltaf grófara og grófara og það gróft og hvasst að 2,2“ dekkin sem ég var með undir voru allt of lítil. Náði ég enda að sprengja slöngu á leiðinni og bölvaði Hauki ferðafélaga mínum í sand og ösku fyrir að hafa valið þessa leið sem er líklega sú grófasta sem ég hef hjólað (eða á köflum reynt að hjóla).
Á efsta punkti var ég algjörlega sigraður andlega og langaði helst bara til að gefast upp, en áfram héldum við þó og við tók lækkun niður í Leirufjörð í Jökulfjörðum, en þangað hafði fyrir margt löngu verið lagður slóði í óþökk yfirvalda og er lokaður umferð í dag. Við ákváðum þó að halda áfram, enda skilja hjólin ekki eftir sig ummerki á svona slóðum.
Grófur og snarbrattur
Það verður að segjast eins og er að þessi slóði niður er ekki fyrir hvern sem er. Gríðarlega grófur, snarbrattur og inn á milli skriður sem koma í veg fyrir að önnur umferð en hjólandi og gangandi geti komist þar framhjá. Loksins komumst við þó niður á jafnsléttu, þveruðum Jökulá sem rennur úr Drangajökli og enduðum í slóðaleit í mannhæðarhárri hvönn og lúpínu. Loks fannst slóðinn í öllu illgresinu og þaðan var hjólað í átt að bænum Leiru.
Líkt og nafn bæjarins og fjarðarins gefur til kynna eru miklar leirur í flæðarmálinu og eru þær afrakstur margra alda af framburði úr Jökulánni. Eins og áður hafði verið lýst fengum við þarna tækifæri til að hjóla leirurnar rétt eftir að flæddi frá, en það er mjög sérstök tilfinning. Sandurinn er nokkuð pakkaður, en það er þunnt lag af vatni víða yfir og minnir upplifunin helst á það að sjá hillingar í eyðimörk að horfa yfir slíkt svæði. Tjölduðum við á ný í móa nálægt sjónum áður en pastakvöldverðurinn var borinn fram.
Fyrir utan skítakulda og smá vind á heiðinni var veðrið með allra besta móti þennan daginn, 41 km og 830 metra hækkun, en aftur tæplega 11 klukkustundir. Helgaðist hægagangurinn aðallega af því hversu gríðarlega gróft var að fara yfir heiðina og niður í Leirufjörð og mæli ég í raun ekki með því ferðalagi við neinn, ef farið er að horfa jafnvel til breiðhjóls (e. fatbike).
Hjólað yfir í Grunnavík
Þriðji dagurinn var ekki síðri en þeir sem á undan komu og veðrið upp á tíu. Eftir morgunmat var hjólað áleiðis að Flæðareyri, gömlu félagsheimili sem enn gegnir hlutverki sínu meðal brottfluttra og niðja þeirra. Áfram liggur slóðinn yfir á Höfðaströnd, en þar tekur við smá klifur yfir litla heiði sem ber nafnið Staðarheiði og aftur niður í Grunnavík, en þangað flutti hluti íbúa Hornstranda síðustu ár byggðar á svæðinu og varð nokkuð þéttbýlt, áður en alfarið var flutt þaðan 1962 og byggð lagðist af á Hornströndum.
Í Grunnavík beið okkur bátur og nokkur fjöldi heimamanna af Vestfjörðum sem voru að ljúka við vinnu- og viðhaldsferð fyrir húsin á svæðinu. Ráku nokkrir upp stór augu þegar þeir sáu hjólaferðalangana komna á þennan stað, enda ekki algengt að hjólandi komi á þessar slóðir. Eftir stutta siglingu yfir á Ísafjörð var áfangastaður númer eitt sundlaugin þar sem sviti og ryk síðustu daga var skolað af sér
Slæm veðurspá
Ljóst var að veðurspáin hafði talsvert versnað þessa þrjá daga sem við höfðum verið á ferðinni, en upphaflega áætlunin gerði ráð fyrir að við ættum 3-4 daga eftir suður firðina. Í ljósi þess að gula viðvörunin átti að taka gildi eftir einn og hálfan dag var planinu breytt og ákveðið að negla frekar til baka Djúpveginn og reyna að komast sem lengst næsta dag og daginn eftir fara upp á Steingrímsfjarðarheiði og Þorskafjarðarheiðina niður að bílnum á ný.
Rétt áður en Álftafjörðurinn var kláraður bauðst okkur hins vegar far inn Djúpið og upp á Steingrímsfjarðarheiði sem við þáðum og þá voru ekki eftir nema tæplega 30 km, að stórum hluta niður á við, ofan í Þorskafjörð. Það verður að viðurkennast að niðurferðin af heiðinni var einstaklega skemmtileg og malarvegurinn góður. Með bros á vör gengum við því frá hjólunum á bílinn og héldum á ný í bæinn eftir fjóra góða daga í stað þeirra 7-8 sem upphaflega höfðu verið planaðir. Á maður þá enn þá Suðurfirðina eftir að mestu og góð ástæða til að heimsækja Vestfirðina á ný.
Nokkrir hafa spurt mig hvort ég myndi mæla með þessari leið. Svarið er já og nei. Fer það allt eftir tilgangi ferðarinnar og í hversu mikla einangrun og fáfarnar slóðir sótt er. Sumir kaflar eru mjög skemmtilegir og gaman að fara, en aðrir torfærir og hægir og eins og heiðin yfir í Leirufjörð hreinlega skelfileg. Það má hins vegar færa góð rök fyrir því að þótt undirlagið hafi á köflum verið krefjandi hafi þessi ferðamáti skákað gönguferð og gott betur en það því hægt var að komast mun lengri leið á hjólinu en tveimur jafnfljótum. Markmiðið að safna nokkrum rangölum og fjarlægum botnlöngum náðist einnig fullkomlega og vorum við mjög sáttir með útkomuna. Fyrir þá sem leita að þægilegri malarleið eru hins vegar fjöldi betri valkosta.