Á þessu ári stefnir í þrjá nýja hjólaviðburði sem gaman verður að fylgjast með hvernig munu þróast og vonandi dafna á komandi árum. Súlur gravel og Rift MTB eru hörkukeppnir sem höfða til mismunandi markhópa, en báðir þessir keppnishaldarar hafa sýnt að þeir geta svo sannarlega búið til vinsælar og skemmtilegar keppnir.
Mig langar hins vegar að benda hinum almenna hjólreiðamanni sérstaklega á Chase the sun-áskorunina sem Birgir Birgisson reiðhjólabóndi stendur fyrir. Mögulega erum við þarna að sjá upprisu viðburða sem draga að sér vinahópa, æfingafélaga, vinnufélaga eða jafnvel fjölskyldur til að takast á við hörkuáskorun. Hjóla 335 km vegalengd í sex áföngum á lengsta degi ársins.
Þó að þetta sé allt annað fyrirkomulag en var í Wow cyclothon er ekki úr vegi að sú keppni komi upp í hugann þegar maður sér lýsinguna á þessari áskorun. Ég vona svo sannarlega að þetta verði upphafið að einhverju mjög skemmtilegu og hvet fólk til að athuga hvort það finni ekki nokkra í kringum sig til að skella sér í liðsáskorun.
Eftir að hafa notað rafmagnshjól að hluta síðustu tvo vetur á móti því að nota hefðbundið hjól er ég orðinn þess fullviss að þetta er hið fullkomna samgöngutæki fyrir stóran hluta höfuðborgarbúa sem vill taka skrefið og hjóla í vinnuna án þess að vera í keppnisformi. Það er eiginlega ótrúlegt hvað þetta er auðvelt og oftast gríðarlega hressandi að byrja daginn á þennan hátt.
Enda sést á innflutningstölum að rafmagnshjólin hafa fyrir löngu tekið fram úr hefðbundnum hjólum þegar kemur að verðmæti, þó að fjöldi þeirra sé enn aðeins á eftir hefðbundnum hjólum. Það er greinilegt að landsmenn hafa þarna fundið sinn fararmáta og ég spái því að þessi þróun muni aðeins halda áfram á komandi árum.
Nýr landsliðsþjálfari hefur tekið við landsliðinu og er í viðtali í blaðinu. Það verður fróðlegt að fylgjast með okkar efnilegasta fólki á árinu, ekki síst á Smáþjóðaleikunum og öðrum komandi verkefnum. Það virðist kraftur í afreksstarfinu sem hefur verið að byggjast upp undanfarin ár og vonandi nær nýr þjálfari að glæða enn frekar þann loga.
Áhuginn hjá mér hefur aðeins færst í ferðahjólamennsku og litar það blaðið í ár. Ég vona að þetta kveiki neistann hjá einhverjum að kíkja út og prófa nýjar leiðir, hvort sem það er innanlands eða utan. Þegar kemur að hálendisleiðum er Arnarvatnsheiðin nokkuð þægilegur kostur, sem og alls konar leiðir að Fjallabaki. Prófið ykkur endilega áfram. Tveggja eða þriggja daga ferð þar sem gist er í skála er síður en svo óyfirstíganleg og hægt að fara bæði á malarhjóli eða fjallahjóli.
Þetta er sjöunda útgáfa Hjólablaðsins og ég vona að allir finni eitthvað við sitt hæfi í blaðinu í ár. Njótið hjólasumarsins!