Steinólfur Arnar Geirdal Guðmundsson fæddist á Akureyri 4. október 1951. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 1. apríl 2025.

Foreldrar hans voru Guðmundur Ásgeirsson, f. 13.7. 1923, d. 26.3. 1983, og Hekla Geirdal, f. 31.3. 1929, d. 18.7. 2015. Systkini hans voru Harpa Geirdal, f. 1.1. 1947, Ásgeir Guðmundsson, f. 9.1. 1950, Einar Geirdal, f. 30.3. 1953, d. 29.6. 2018, og Hanna Jóna Geirdal, f. 2.8. 1955.

Fyrsta kona Arnars er Fanney Bjartmarsdóttir, f. 1.4. 1953, og áttu þau saman einn son, Bjartmar Frey, f. 7.2. 1973.

Arnar giftist konu sinni, Rut Bech Ásgeirsdóttur, 23.8. 1980, og höfðu þau þá verið saman í fimm ár. Þau eignuðust saman þrjú börn: Örn Geirdal, f. 28.10. 1976, Jóhönnu Geirdal, f. 28.6. 1985, og Evu Geirdal, f. 7.5. 1989.

Arnar vann hjá Slippnum á Akureyri, fór þaðan og var hjá Rarik þar til hann fór að læra málaraiðn hjá þeim Stefáni og Birni, lauk svo meistaranámi við Iðnskólann á Akureyri 1978 og vann sem málari alla sína tíð.

Útförin fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 11. apríl 2025, klukkan 13.

Nú er komið að kveðjustund.

Í dag er borinn til hvílu minn nánasti vinur Arnar Geirdal.

Og nú bregður svo við að mér er orða vant en ég ætla samt að reyna.

Ég mun aldrei gleyma því þegar ég sá þig fyrst á Kjalarnesinu góða, þar sem við kynntumst og áttum margar ótrúlega skemmtilegar og góðar stundir.

Vinátta okkar var ótrúlega sterk frá fyrstu stundu og hélt áfram að vaxa allt að kveðjustund.

Margt höfum við brallað saman með fjölskyldum okkar bæði í gleði og sorg.

Alltaf varstu æðrulaus og með gleði og húmor að vopn.

Þú hefur markað djúp spor í mína sál og fyrir það er ég óendanlega þakklátur.

Hvíl í friði kæri vinur með ást og virðingu, eitt mesta ríkidæmi í lífi mínu er að hafa fengið að vera vinur þinn.

Elsku Rut, þér og öllum ykkar afkomendum votta ég mínar dýpstu samúðarkveðjur, ykkar missir er mikill.

Hallgrímur Árnason (Haddi)