Conor hefur miklar væntingar fyrir íslenska liðið á komandi Smáþjóðaleikum, en auk þess að fara yfir markmiðin ræðir hann um næstu skref og hvernig það kom til að hann varð landsliðsþjálfari.
Conor segist hafa byrjað að hjóla að ráði fyrir um 30 árum. Á þeim tíma, sem ungur strákur, hafi hann alls ekki verið íþróttalegur eða haft mikinn áhuga á íþróttum. Helsta áhugamálið hans hafi reyndar verið hjólabretti, en svo sá hann hjólakeppni á Eurosport og einhverra hluta vegna kveikti það í honum.
Í kjölfarið sótti hann gamalt hjól sem hann átti og fór að hjóla um nærliggjandi svæði og upp og niður þær brekkur sem þar var að finna. „Þetta var í fyrsta skipti sem ég skildi hvað væri að vera heilbrigður og í góðu formi,“ segir Conor.
Eitt leiddi af öðru og hann fór að æfa og keppa í hjólreiðum og náði hann að endingu að komast á pall meðal annars á landsmótinu í cyclocross og í aldursflokkum í fjölda móta í mismunandi greinum.
Hitti Íslendinga í Portúgal
Síðar opnaði Conor hjólabúð og var samhliða því eitthvað að þjálfa, en hann segist aðallega hafa verið að þjálfa ungt hjólreiðafólk. Rétt fyrir heimsfaraldurinn lokaði hann svo búðinni og sótti sér aukin þjálfararéttindi og er í dag með þriðju gráðu þeirra. Hefur hann undanfarin ár verið með Level up cycling-þjálfunina.
Spurður hvernig hann hafi fyrst komist í samband við íslenska sambandið segir Conor að hann hafi verið í Portúgal með írskum landsliðshóp þegar hópur frá Íslandi var þar við æfingar árið 2022. Í kjölfarið hafi tekist vinátta með honum og nokkrum Íslendingunum og hann meðal annars í einni ferð þjálfað Tómas Björgvinsson Rist á Kanarí. Í fyrra hafi svo framkvæmdastjóri og formaður landsliðs- og afreksnefndar haft samband við hann og athugað hvort hann hefði áhuga á stöðunni.
Conar segir að hann hafi farið til Íslands í byrjun desember og kynnt sér aðstæður, rætt við forsvarsfólk HRÍ og gert lista yfir 38 manns sem væru líklegir til að vera með í landsliðsverkefninu.
Úr varð að hann ræddi við alla þessa 38 í gegnum myndbandssamtal og segir Conor að farið hafi verið yfir hvernig fólk stæði, hvað það vildi gera, markmið og ýmislegt annað til að sjá möguleika og framtíðarhorfur hvers og eins.
Allir í þolprófsrannsóknir
Í byrjun þessa árs var svo farið í viðamiklar þolprófsrannsóknir, en eins og greint var frá í Hjólablaðinu í fyrra hófust slíkar mælingar í fyrra undir þáverandi afreksstjóra. Conor segir að niðurstöðurnar hafi verið mjög jákvæðar að sínu mati og að hægt sé að vinna með mjög margt áfram hjá keppendunum.
Þeir sem eru í landsliðshópnum verða eftir sem áður með sína eigin þjálfara, enda hafa sumir byggt upp slíkt samband yfir margra ára tímabil, eða æfingaplön, en Conor segir að hann muni sem landsliðsþjálfari hafa yfirsýn yfir þjálfun keppendanna og vera til aðstoðar fyrir þá sem það vilja. Segir hann að nú þegar hafi hann verið bæði yngri og eldri keppendum innan handar og segist vonast til að það samstarf muni bara aukast.
„Það eru margir góðir keppendur og sérstaklega margir góðir ungir í hópnum,“ segir Conor. Hann tekur sérstaklega fram hversu mikill eldmóður og áhugi sé hjá mörgum að bæta sig og ná árangri og segir slíkt í raun ótrúlegt miðað við þær aðstæður sem fólk búi við hér þegar komi að hjólreiðum.
Að keppa um efstu sætin
„Komandi frá Írlandi, þar sem við segjum að veðrið sé alltaf vont. En svo farið þið út í hræðilegu veðri. Til viðbótar er öll vinnan inni á hjóli yfir stóran hluta ársins. Þetta er alveg ótrúlegt hjá ykkur,“ segir Conor og vísar þar til þess hvernig afreksfólk í hjólreiðum þarf að æfa hér á landi til að ná árangri. „Það kostar mikla ástríðu að ná árangri í svona aðstæðum, þið eruð til fyrirmyndar,“ segir hann með blöndu af aðdáun og hlátri í röddinni.
Í lok maí á þessu ári fara fram Smáþjóðaleikarnir, en þeir eru haldnir á tveggja ára fresti og þar keppa fámennari þjóðir Evrópu í hinum ýmsu greinum, meðal annars hjólreiðum. Conor segir að í samráði við HRÍ séu Smáþjóðaleikarnir aðalmarkmið ársins og að hann hafi fulla trú á að Ísland geti þar náð góðum árangri. „Ég geri ráð fyrir að við verðum ofarlega og að keppa um efstu sætin,“ segir hann.
Þetta eigi við um götuhjólreiðar, tímatöku og að einhverju leyti um ólympískar fjallahjólreiðar.
Keppnir erlendis
En það eru ekki bara Smáþjóðaleikarnir sem eru á dagskrá í ár. Til að hita upp fyrir þá var farin æfingaferð til Spánar núna í lok mars, en Conor ræddi við Hjólablaðið stuttu fyrir þá ferð og eru meðfylgjandi myndir úr henni. Segir Conor að auk þess verði leitast við að fara í keppnir erlendis sem Team Iceland, þar sem íslensku keppendurnir séu á meiri jafnræðisgrundvelli en t.d. þegar farið er á heimsmeistaramótið eða Evrópumótið þar sem allra bestu hjólreiðamenn heims taka þátt.
„Það er vandamál þegar keppendur fara frá landskeppnum og upp í heimsmeistarkeppni. Þetta er líka vandamál á Írlandi. Það þarf að taka minni skref og taka þátt í UCI-keppnum sem eru ekki alveg í efsta getuflokki. Svo þegar fólk nær árangri þá bæði ýtir það við keppendum og býr til áhuga annarra á að taka þátt,“ segir Conor. Bætir hann við að ef aðeins sé farið á stærstu mótin læri fólk illa á hvernig það sé að vera fremst og taka þátt í að stýra keppnum og slíkt.
Conor tekur fram að ekki sé enn búið að ákveða neitt um slíkar keppnir, en þegar blaðamaður gengur aðeins nánar á hann varðandi spennandi möguleika nefnir hann meðal annars keppnina 3 Dage i Nord í Danmörku. „Það virðist góð keppni miðað við getuna,“ segir hann, en Íslendingar hafa áður tekið þar þátt með góðum árangri og í fyrra fóru keppendur frá bæði HFR og HFA til að keppa þar.
Conor getur að lokum ekki sleppt því að nefna að gaman væri að sjá Íslendinga keppa á Írlandi og að þar væru keppnir sem gætu vel passað fyrir keppendur héðan. Hvort það raungerist á þó eftir að koma í ljós sem og með aðrar keppnir erlendis almennt.