Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Við erum og höfum verið í samtali við hlutaðeigandi aðila innan atvinnugreinarinnar vegna áforma ríkisstjórnarinnar um auðlindagjöld á ferðaþjónustuna,“ segir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra í samtali við Morgunblaðið, spurð um gagnrýni Boga Nils Bogasonar forstjóra Icelandair í Morgunblaðinu í gær, á áformuð auðlindagjöld á ferðaþjónustuna.
Hún segir þá athugasemd réttmæta að samkeppnislönd Íslands í ferðaþjónustu, Noregur og Finnland, hafi sett meiri fjármuni en Íslendingar í markaðssetningu síðustu ár. Áhyggjur séu yfir því að þau lönd hafi ekki slakað á í markaðsmálum eftir covid-faraldurinn, á meðan Ísland hafi gert svo. „Hugmyndin hefur alltaf verið sú að hluti af þessum auðlindagjöldum verði notaður til að efla markaðssetningu ferðaþjónustunnar og gera það þannig að hún verði viðvarandi, en ekki í formi tímabundins átaks, eins og hefur tíðkast í þessari atvinnugrein,“ segir hún.
„Það er staðreynd að vextir og verðbólga hér á landi, langt umfram það sem þekkist annars staðar, hefur auðvitað haft áhrif á ferðaþjónustuna, eins og flestar aðrar atvinnugreinar sem og líf fólks hér á landi. Það er eitt af því sem við erum vonandi að ná tökum á,“ segir Hanna Katrín, en í grein sinni benti Bogi Nils á að kostnaður ferðamanna væri hærri hér en í samkeppnislöndunum.
„Síðan er það óvissan í alþjóðamálum sem við fylgjumst náið með. Ég held að hægt sé að segja að við fylgjumst vel með þróun mála, á sama tíma og við erum að vinna þessi áform áfram.“
Í grein sinni bendir Bogi Nils á neikvæða þróun gengis bandaríkjadals sem geri það að verkum að nú sé 7% dýrara fyrir bandaríska ferðamenn að koma til Íslands en var í fyrra. Í þokkabót eigi síðan að leggja á auðlindagjöld.
Um hvort til greina komi að staldra við hvað auðlindagjöld segir Hanna Katrín að málið sé í vinnslu og til skoðunar.
„Við erum með áform um auðlindagjöld í ferðaþjónustu, að leggja gjöld á stærri ferðamannastaði í ríkiseigu. Við erum að vinna þau og tökum tillit til margra þátta. Við erum í sambandi við ferðaþjónustuna og fylgjumst með því sem er að gerast. Við áttum okkur á hvað er að gerast í markaðssetningarmálunum og mögulega þarf að taka tillit til aðstæðna á mismunandi mörkuðum. Fjármagnið í slíka markaðssetningu yrði sótt í auðlindagjöldin. Við leggjum gríðarlega áherslu á að ná tökum á ríkisfjármálunum, m.a. til að ná niður vöxtum og verðbólgu, til þess að draga úr kostnaðaraukningu hér umfram það sem gerist í samkeppnislöndunum. Þetta hangir allt saman og vinnan er viðvarandi,“ segir hún.